Skrifstofa forseta Íslands, Ólafs Ragnars Grímssonar, hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna orða Salmanns Tamimi, formanns Félags múslima á Íslandi, í Fréttablaðinu í dag. Í yfirlýsingunni er því haldið fram að Salmann hafi ekki farið með rétt mál hvað varðar sádi-arabíska sendiherrann og notkun hans á forsetabifreiðinni. Samkvæmt yfirlýsingunni er það rangt að sendiherranum hafi verið ekið að moskulóðinni í Sogamýri í bíl í eigu embættisins.
„Skrifstofa forseta Íslands telur nauðsynlegt að leiðrétta rangfærslu í viðtali Fréttablaðsins í dag við Salmann Tamimi. Þar segir um skoðun sendiherra Sádi-Arabíu á lóð undir fyrirhugaða moskubyggingu: „Forsetabíllinn keyrði sendiherra á lóðina okkar og fór að skoða hana.“ Þetta er rangt. Sendiherrann var 5. mars einungis keyrður, eins og venja er, frá hóteli til Bessastaða og aftur til baka. Lýsing Salmanns Tamimi á sér því enga stoð. Eins og fram kemur á heimasíðu forsetaembættisins sagðist sendiherrann hafa skoðað lóðina daginn áður,“ segir í yfirlýsingu embættisins.
Salmann segir í umræddu viðtali að Ólafur Ragnar reyni að sundra þjóðinni í pólitískum tilgangi. „Forsetaembættið gaf út yfirlýsingu á sínum tíma þegar Ólafur Ragnar hitti sendiherra Sádi-Arabíu sem tjáði forsetanum að þeir ætli að styrkja byggingu moskunnar um milljón dollara. Forsetabíllinn keyrði sendiherra á lóðina okkar og fór að skoða hana. Við vissum ekkert um það. Ég gaf yfirlýsingu þegar ég var spurður að þessu. Ég sagði: Hvar eru þessir milljón dollarar? Enginn kom til okkar,“ er haft eftir Salmann.
Athugasemdir