Deilur íslenskra skákmanna vegna launa Gunnars Björnssonar, forseta Skáksambands Íslands, halda áfram. Laun forsetans voru fengin með fjárframlagi sem eyrnarmerkt var auknu útbreiðslu- og unglingastarfi. Forseti og varaforseti hófu ástarsamband og fylgdu hrókeringar í kjölfarið.
Gagnrýninn skákmeistari hefur verið útilokaður úr Facebook-hópi skákmanna vegna gagnrýni sinnar.
Stundin greindi frá því í júní að mörgum skákmönnum væri misboðið vegna launa Gunnars en samkvæmt nýjasta ársreikningi samtakanna voru laun hans, fyrir utan launatengdan kostnað sambandsins, á sjöunda hundrað þúsund krónur á mánuði.
Í tölvupósti til blaðamanns bendir formaður eins stærsta aðildarfélags Skáksambands Íslands, á rangfærslur í orðum Gunnar í fyrri frétt.
Formaðurinn biðst undan því að koma fram undir nafni starfs síns vegna. Formaðurinn segir að Gunnar fari beinlínis með rangt mál þegar hann heldur því fram að laun sín séu „ekki tekin af neinum“.
Fjárframlag ætlað í unglingastarf
„Það kemur skýrt fram í fundargerð Skáksambands Íslands frá 8. desember 2011 að peningurinn sem notaður var í upphafi til að koma forsetanum í borgaða „verkefnastjórastöðu“ var ætlaður í annað,“ skrifar formaðurinn.
Þetta „annað“ sem formaðurinn nefnir er unglinga- og útbreiðslustarf.
Athugasemdir