Voðaverkin sem framin voru á ritstjórnarskrifstofu Charlie Hebdo í París urðu Ásmundi Friðrikssyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, tilefni til að framandgera minnihlutahóp á Íslandi, ala á fordómum og tortryggni gagnvart þeim 1500 múslimum sem hér búa. Þetta er sami þjóðfélagshópurinn og gerður var að byssupúðri í kosningabaráttu Framsóknar og flugvallarvina í Reykjavík í fyrra.
„Hefur innanríkisráðuneytið eða lögreglan gripið til einhverra ráðstafana til að vernda Íslendinga fyrir slíkum árásum?“ spurði Ásmundur á Facebook og bætti við: „Hefur bakgrunnur þeirra 1500 múslima sem búa á Íslandi verið kannaður og hvort einhverjir „íslenskir múslimar“ hafi farið í þjálfunarbúðir hryðjuverkamanna eða barist í Afganistan, Sýrlandi eða öðrum löndum þar sem óöld ríkir meðal múslima?“ Stöðuuppfærslunni fylgdi hann svo eftir með aðsendri grein í DV, þar sem svartagallsrausið um fjölmenningu og hið opna samfélag hélt áfram.
Að spyrja spurninga
Þegar Vísir.is ræddi við Ásmund sagðist hann bara vera að spyrja spurninga: „Ég er bara að varpa þessu fram.“ Þessi svör eru í sama anda og viðbrögð Vigdísar Hauksdóttur, formanns fjárlaganefndar, við því þegar DV fjallaði um fyrirspurn hennar á Alþingi þar sem spurt var hvort komið hefði til álita að láta hælisleitendur bera ökklabönd. Vigdís reiddist þegar spurningin var túlkuð sem tillaga; hún sagðist ekki hafa verið að hvetja til eins né neins, ekki verið að lýsa eigin skoðunum heldur einvörðungu verið að spyrja spurninga.
„Bara að spyrja spurninga“ (e. „Just Asking Questions“ eða „JAQing off“) er þekkt áróðursbragð sem stjórnmálamenn um allan heim beita. Á vefnum RationalWiki er að finna áhugaverða grein þar sem fram kemur að tilgangur aðferðarinnar sé að klæða grófar ásakanir eða umdeildar hugmyndir í snyrtilegan búning, spyrja leiðandi spurninga og hafa áhrif á skoðanir þess sem les eða hlustar án þess að sönnunarbyrðin þvælist fyrir áróðursmanninum.
Bandaríski fjölmiðlamaðurinn Glenn Beck er þekktur fyrir þessa tækni – að varpa fram óhróðri og dylgjum en skýla sér á bak við það að hann sé bara að spyrja spurninga. Hann fékk að kenna á eigin meðulum þegar opnuð var vefsíðan DidGlennBeckRapeandMurderaYoungGirlin1990.com. „Við höldum því ekki fram að við vitum sannleikann – við viljum bara að orðrómurinn um að Glenn Beck hafi nauðgað og myrt unga stúlku árið 1990 sé tekinn til umræðu,“ stóð á vefnum sem nú hefur verið lokað.
Annar bandarískur áróðursmaður sem beitir iðulega sama bragði er álitsgjafinn Neil Cavuto. Grínistinn Jon Stewart náði sér niður á honum með því að „varpa fram“, í fullkomnu sakleysi sínu, hugleiðingum um hvort móðir hans væri hugsanlega vændiskona. Stewart sagðist bara vera að „spyrja spurninga“ sem hann meinti í rauninni ekkert með. Hann vildi bara að fram færi umræða um þetta mál. Hví ekki? Má aldrei ræða hlutina án þess að „góða fólkið“ og pólitíska rétttrúnaðarhyskið stökkvi upp á nef sér?
Múslimar innan gæsalappa
Ummæli Ásmundar Friðrikssonar vöktu neikvæða athygli og reiði. „Bara að spyrja spurninga“-aðferðin virkar nefnilega misvel og flestir sjá í gegnum þingmanninn. Ummælin um hvort múslimar á Íslandi hafi farið „í þjálfunarbúðir hryðjuverkamanna eða barist í Afganistan, Sýrlandi eða öðrum löndum þar sem óöld ríkir meðal múslima“ fela í sér tilhæfulausar dylgjur. Það að Ásmundur skyldi setja gæsalappir utan um „íslenska múslima“ benti til þess að honum þætti eitthvað ankannalegt að ein og sama manneskjan gæti bæði verið Íslendingur og múslimi – sem er reyndar í takt við fyrri málflutning hans um kirkjuferðir grunnskólabarna og hin íslensku og kristilegu gildi. Loks er makalaust að fulltrúi á löggjafarsamkundu Íslendinga skuli ekki átta sig á því að það væri skýlaust brot á stjórnarskrá og mannréttindum ef lögregluyfirvöld færu að atast í fólki vegna trúarbragða þess.
„Þarna eru tólf blaðamenn drepnir fyrir að sinna störfum sínum og allur heimurinn fordæmir það. En þá má ég ekki hafa þá skoðun að við ættum að skoða okkar öryggismál.“
Yngri kynslóðin í Sjálfstæðisflokknum hjólaði strax í Ásmund og krafðist þess réttilega að hann bæði múslima afsökunar. Í kjölfarið gagnrýndu borgarfulltrúar og þingmenn flokksins ummælin í viðtölum við fjölmiðla – og loks formaðurinn sjálfur. Þessu ber að fagna, enda til marks um jákvæða þróun hjá flokknum. Skemmst er að minnast annars þingmanns Sjálfstæðisflokksins sem ítrekað sparkaði í minnihlutahóp án þess að það þætti sérstakt tiltökumál; Árni Johnsen vændi samkynhneigða um „kynvillu“, líkamlega „skekkju“ og að vilja „blanda kynlífi inn í nánast allt“. Hann var ekki aðeins umborinn af flokknum sínum um árabil, heldur var honum beinlínis hampað og veitt annað tækifæri eftir að hafa verið dæmdur fyrir þjófnað á almannafé; svo ómissandi þótti hann.
Tjáningarfrelsi valdsins
Það getur verið gagnlegt fyrir hægriflokka – jafnvel þótt forysta þeirra aðhyllist hófsemi og frjálslyndi – að hafa nöttara á hliðarlínunni; öfgafólk sem kitlar rasistana og hommahatarana sem leynast á meðal kjósenda, sýnir að hatur á minnihlutahópum þrífst innan flokksins og að með því að kjósa hann megi tryggja að slík viðhorf heyrist á þingi. Þegar flokkurinn sjálfur er dreginn til ábyrgðar fyrir ummælin stökkva hófsamari flokksmenn fram og segja að um einangruð dæmi sé að ræða sem ótækt sé að refsa flokknum sjálfum fyrir. Ummælin séu engan veginn til marks um stefnu flokksins og fulltrúar hans megi segja hvað sem er, enda sé jú tjáningarfrelsi í landinu.
„Það sem er orðið í dag #jesuischarlie er merki tjáningarfrelsis og við getum hoppað á einhvern einstakling þótt hann hafi aðra skoðun en við í þessu máli. Þannig að í mínum huga ber líka að virða tjáningarfrelsið. En ég er ósammála Ásmundi,“ sagði Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins í viðtali við RÚV. Þetta er athyglisvert í ljósi þess að enginn hefur mælst til þess að Ásmundi sé bannað að hafa tilteknar skoðanir. Það að gagnrýna einhvern, jafnvel af hörku, á einfaldlega ekkert skylt við skerðingu tjáningarfrelsis. Reyndar er einmitt þetta einn dýrmætasti eiginleiki tjáningarfrelsisins; það veitir okkur frelsi til að „hoppa á“ valdafólk og gagnrýna orð þess og gjörðir.
Sigmundur Davíð virðist hafa gerst sekur um sama misskilning og Ragnheiður þegar hann sagði í viðtali við Reykjavík síðdegis: „Það er eins og það sé alltaf að þrengjast ramminn um hvað megi ræða, og rökræða sé meira að segja bönnuð um ákveðna hluti, og ég er svolítið hræddur um að þessir fulltrúar stjórnarandstöðunnar sem voru eitthvað að spyrja út í þessa hluti í gær, ég er svolítið hræddur um að þeir sjái fyrir sér að ramminn þrengist frekar en opnist.“
Málflutningur Sigmundar minnir á heilbrigðisvottorðið sem hann gaf kosningabaráttu Framsóknar og flugvallarvina í fyrra, en þá lét hann eins og harkaleg gagnrýni á frambjóðendurna jafngilti einhvers konar þöggun; framsóknarmenn vildu opna umræðuna um innflytjendamál en þeir sem gagnrýndu málflutning þeirra væru á móti umræðunni sjálfri og vildu kæfa hana. Í ræðu á miðstjórnarfundi hampaði Sigmundur tjáningarfrelsinu og talaði um mikilvægi þess að menn umbæru málflutning sem þeir væru ósammála.
Je suis Ásmundur
Hér virðist tjáningarfrelsið vera túlkað sem heilagur réttur stjórnmálamanna til að segja hvaða þvælu sem er án þess að sæta gagnrýni. Samkvæmt þessum skilningi sætir Ásmundur Friðriksson þöggun og jafnvel skerðingu á tjáningarfrelsi þegar ummælum hans er mætt af hörku og bent á rasismann sem í þeim felst. Þetta er þá tjáningarfrelsi sem virkar bara í aðra áttina en ekki hina.
Sambærilegur misskilningur birtist með talsvert ósmekklegri hætti þegar Ásmundur líkti sjálfum sér við teiknarana á Charlie Hebdo í viðtali við mbl.is þann 13. janúar. „Þarna eru tólf blaðamenn drepnir fyrir að sinna störfum sínum og allur heimurinn fordæmir það. En þá má ég ekki hafa þá skoðun að við ættum að skoða okkar öryggismál. Er tjáningarfrelsi ekki algilt?“ spurði hann og bætti svo við að menn yrðu að geta „talað um hlutina án þess að drepa sendiboðann.“ Drepa sendiboðann.
„Það er mjög afhjúpandi að Ásmundur skuli tala um múslimisma. Sýnir að hann er annað hvort afburða ílla upplýstur, eða hann er mjög vel lesinn í íslamófóbískum fræðum.“
Ásmundur hefur ekki beðist afsökunar á málflutningi sínum. Hann gerði sig enn frekar að athlægi í Kastljóssviðtali þar sem hann lét dæluna ganga um svonefnda „múslimista“, orð sem fæstir höfðu heyrt áður. Magnús Sveinn Helgason, sagnfræðingur sem hefur sérhæft sig í bandarískum stjórnmálum, benti á að múslimismi er til sem orð en nær eingöngu notað meðal þeirra sem hatast við Íslam. „Það er mjög afhjúpandi að Ásmundur skuli tala um múslimisma. Sýnir að hann er annað hvort afburða ílla upplýstur, eða hann er mjög vel lesinn í íslamófóbískum fræðum. Ég veit ekki hvort er verra,“ skrifaði Magnús á Facebook.
Að sparka í minnihlutahóp
Það er dapurlegt, en þó ekki alveg óskiljanlegt, að einn og einn sjálfstæðismaður freistist til að prufukeyra múslimahatur. Áróðurinn gegn múslimum og áformum um að reisa mosku í Reykjavík skilaði jú Framsóknarflokknum tveimur mönnum inn í borgarstjórn. Fylgi framboðsins tók stökk eftir að Sveinbjörg Birna, oddviti Framsóknar og flugvallarvina, hvatti til þess í viðtali og á Facebook að úthlutun lóðar til byggingar mosku yrði afturkölluð. Ummælum sínum fylgdi hún eftir með því að deila og „læka“ efni á Facebook þar sem alhæft var um múslima og „hermenn Íslam“, fullyrt að innflytjendur væru ófúsir að aðlagast og fjölgun múslima í Noregi gerð tortryggileg. Skömmu síðar fullyrti annar frambjóðandi flokksins að hún hefði engar áhyggjur af því hvort jafnræðisregla stjórnarskrárinnar væri brotin gagnvart múslimum með því að afturkalla úthlutun lóðarinnar, enda væri mikilvægara að fólk hefði húsnæði í Reykjavík. Þannig var fjárhagslegum hagsmunum Reykvíkinga stillt upp andspænis ímyndaðri múslimaógn og látið í veðri vaka að múslimar væru ein af orsökum húsnæðisvandans í borginni.
Enginn þingmaður Framsóknarflokksins tók afgerandi afstöðu gegn þessum málflutningi en sumir kvörtuðu hins vegar undan því að framsóknarmenn sættu ómaklegum árásum. Þeir litu á sjálfa sig, en ekki múslima, sem helstu fórnarlömb umræðunnar. Þegar lögð var fram ályktunartillaga á miðstjórnarfundi, þar sem kosningabarátta Framsóknar og flugvallarvina var harðlega gagnrýnd, skutu forystumenn úr flokknum hana í kaf – sérstaklega þeir Sigmundur Davíð og Gunnar Bragi sem töluðu mjög einarðlega gegn hvers kyns „ályktanaveseni“.
Krafa um snyrtilegri málflutning
Viðbrögð sjálfstæðismanna við málflutningi Ásmundar Friðrikssonar eru gjörólík viðbrögðum framsóknarmanna. Enginn þingmaður Sjálfstæðisflokksins hefur gert lítið úr alvarleika málsins. Enginn þingmaður Sjálfstæðisflokksins hefur komið Ásmundi til varnar. Þetta er fagnaðarefni, en kannski um leið til marks um það hve veika stöðu Ásmundur hefur innan flokksins. Honum eru ekki ætlaðir miklir sigrar, hann slysaðist bara inn á þing. Hefðu viðbrögð flokksforystunnar orðið þau sömu ef vinsælli og virtari þingmaður hefði talað á sama veg og Ásmundur? Þótt enginn þingmaður hafi talað með jafn ógeðfelldum hætti um útlendingamál og Ásmundur Friðriksson, þá eru ummæli hans ekki algjörlega úr takti við orðræðu annarra í flokknum.
Skemmst er að minnast yfirlýsinga Brynjars Níelssonar um hælisleitendur og réttindi þeirra. Á fyrstu stigum lekamálsins mætti hann í viðtal á Bylgjunni og gerði því skóna að persónuvernd væri ekki hluti af þeim réttindum sem hælisleitendur nytu í nágrannalöndunum. „Við höfum ákveðið að það skuli vera trúnaður um þetta. Það er að vísu ekki sjálfgefið og víðast annars staðar er það ekkert. Mál sem að ráðuneytið úrskurðar um réttindi og skyldur manna eins og dómstólar gera líka. Þetta er víðast bara birt. Af hverju erum við ekki að birta þetta?“ spurði Brynjar þegar hann reyndi að gera lítið úr fréttagildi lekamálsins. Reykjavík vikublað kannaði sannleiksgildi ummælanna og komst að þeirri niðurstöðu að hvers kyns hugmyndir um að persónuupplýsingar um hælisleitendur, líkt og lekið var úr innanríkisráðuneytinu, féllu ekki undir trúnaðarskyldu yfirvalda á Norðurlöndum, væru annaðhvort misskilningur eða hreinn hugarburður. Nokkru síðar rataði það í fréttirnar þegar Brynjar spurði í umræðum á netinu hvers vegna flóttamenn þyrftu endilega að ferðast með fölsuð skilríki. Helga Vala Helgadóttir, lögmaður gagnrýndi hann harðlega og sagðist fá hnút í magann yfir því að fulltrúi á þjóðþinginu væri „svona ofboðslega fáfróður um flóttamenn og þeirra stöðu í heiminum“. Hins vegar heyrðist ekkert frá flokkssystkinum Brynjars.
Stóra Gústafsmálið
Vonandi eru viðbrögðin við ummælum Ásmundar vísbending um að Sjálfstæðisflokkurinn ætli að halda sig fjarri þeim groddalega þjóðernispopúlisma sem Framsóknarflokkurinn hefur tileinkað sér. Hafi einhver efast um að kosningabarátta Framsóknar og flugvallarvina var drifin áfram af múslimafóbíu, þá afhjúpuðu framsóknarkonurnar í borginni sig endanlega með því að tilnefna Gústaf Adolf Níelsson sem varamann í mannréttindaráði, en hann er í raun þekktur fyrir fátt annað en fordómafull skrif um múslima. Erfitt er að túlka tilnefninguna sem nokkuð annað en hápólitíska og íslamófóbíska yfirlýsingu.
Til allrar hamingju brugðust ýmsir forystumenn í Framsókn skjótt við og fordæmdu valið. Það var hins vegar ekki fyrr en framsóknarkonurnar í borginni uppgötvuðu að Gústaf er líka með fordóma gagnvart samkynhneigðum sem þær hættu við að tilnefna hann. Sigmundur Davíð, leiðtoginn sem hafði beitt sér gegn sómasamlegu uppgjöri við kosningabaráttu Framsóknar og flugvallarvina á sínum tíma, lét sér nægja að birta eftirfarandi stöðuuppfærslu á Facebook: „Hitti fulltrúa Framsóknar og flugvallarvina í morgun til að ræða flugvallarmál. Ræddum einnig þau mistök sem voru gerð við nefndarskipan. Fundurinn var góður og árangursríkur.“
Eftir að storminn lægði mætti Gústaf Níelsson í viðtal á Stöð 2, sem varpaði áhugaverðu ljósi á þær væntingar sem karlar eins og hann, gera til Framsóknarflokksins. „Ég sem hélt að þjóðmenningin skipaði hærri sess þar á bæ, en fjölmenningin,“ sagði Gústaf. Í ljósi þess að Framsókn keyrði kosningabaráttu sína í borginni á múslimaandúð, og í ljósi þess að flokkurinn á landsvísu elur sífellt á tortryggni gagnvart því sem erlent er – hvort sem um er að ræða kjöt, vogunarsjóði eða hælisleitendur – þá er engin furða að Gústaf hafi túlkað þjóðmenningaráherslur Framsóknarflokkisins sem yfirlýsingu um að verndun íslenskrar þjóðmenningar sé mikilvægari en fjölmenning og mannréttindi á borð við trúfrelsi.
Aftur í fórnarlambsgírinn
Svo virðist sem framsóknarmenn hafi dregið dálítinn lærdóm af stóra Ásmundarmáli Sjálfstæðisflokksins og getað notfært sér hann þegar stóra Gústafsmálið kom upp. Það liðu hins vegar ekki nema tvær vikur þar til ung þingkona úr Framsóknarflokknum kvartaði og kveinaði og gerði sig að fórnarlambi – nú meðal annars vegna skopmyndar og læksíðu á Facebook sem heitir Framsóknarlaust Ísland 2017 (og vísar nokkuð augljóslega til þingkosninga sem fram fara það ár).
„Þetta fólk stofnar hóp sem biður um Framsóknarlaust Ísland. Það er aldeilis umburðarlyndi.“
„Það er ótrúlegt að þurfa dag eftir dag að hreinsa sig af ásökunum um stuðning við mismunun og öfgahópa. Og það frá fólki sem flokkar sig sem málefnalegt, umburðarlynt og fordæmir mismunun,“ sagði þingkonan og bætti við: „Þetta sama fólk birtir myndir sem vísa til flokksins míns og sækja þemað til nasistahreyfingar og stærsta og eins hræðilegasta atburðar heimssögunnar. Þetta fólk stofnar hóp sem biður um Framsóknarlaust Ísland. Það er aldeilis umburðarlyndi og skoðanna frelsi [sic] sem þetta fólk stendur fyrir. Að flokka mig og um 12 þúsund félagsmenn undir sama hatt og morðingja og vilja útrýma okkur útaf [sic] vali á stjórnmálaflokki.“
Rúmlega þrjúþúsund manns hafa tekið undir kröfuna um Framsóknarlaust Ísland árið 2017 á Facebook. Telji Hanna María að allir þeir einstaklingar vilji útrýma tilteknum hópi þá hlýtur hún að bera allnokkurn ugg í brjósti. Samkvæmt 121. grein almennra hegningarlaga skal hver sá sem opinberlega hvetur menn til refsiverðra verka sæta fangelsi allt að 2 árum eða sektum. Ef þingkonan telur raunverulega að þeir sem „læka“ síðuna séu að hvetja til útrýmingar á framsóknarmönnum þá ætti hún auðvitað að kæra málið til lögreglu.
Fólkið í landinu og útlendingarnir
Þann 18. janúar mátti heyra þrjá Íslendinga ræða föður- og móðurlega um málefni útlendinga í þættinum Eyjunni á Stöð 2. Björn Ingi Hrafnsson bauð þeim Arnþrúði Karlsdóttur á Útvarpi Sögu og bankamanninum Ragnari Önundarsyni í þáttinn, en engum sem tilheyrði hópnum sem talað var um.
Aðspurð hvers vegna viðbrögð sjálfstæðismanna við ummælum Ásmundar Friðrikssonar hefðu verið svona harkaleg svaraði Arnþrúður: „Það er vegna þess að þingið og ráðamenn eru bara ekki í beinum tengslum við þjóðina.“ Þessu fylgdi þáttastjórnandinn eftir með spurningu til hins viðmælandans: „Ragnar, er fólkið í landinu að tala um þessa hluti en gerir það ekki opinberlega af ótta við að vera stimplaðir rasistar?“
Það er erfitt að verjast þeirri tilhugsun að tiltekið áhrifafólk hafi gríðarlegan áhuga á að koma útlendingafóbíu á dagskrá fyrir næstu þingkosningar. Einn og hálfur mánuður er liðinn af árinu og tvö upphlaup vegna rasisma. Hætt er við því að þetta sé bara byrjunin á því sem koma skal.
Athugasemdir