Það má segja að við höfum tekið fyrsta skrefið í átt að þessum lífsstíl fyrir tveimur árum, þegar við eignuðumst yngstu dóttur okkar og tókum ákvörðun um að nota taubleiur fyrir hana. Þegar við vorum byrjuð að nota taubleiur var augljóslega næsta skref að hætta að nota blautþurrkur. Svona vatt þetta upp á sig,“ segir Guðrún Ásdís Sturlaugsdóttir, þriggja dætra móðir á Höfn í Hornafirði, sem hefur, ásamt eiginmanni sínum, Tjörva Óskarssyni, tekið ákvörðun um að færa sig nær svokölluðum ruslfríum lífsstíl (e. Zero Waste Lifestyle).
Á þeim tíma þegar sú yngsta fæddist bjó fjölskyldan í bænum Terrassa á Spáni. Þar eru flokkunarmál komin talsvert lengra á veg en víðast hvar á Íslandi. „Þar vöndumst við á að flokka allt rusl og héldum því áfram að mestu leyti þegar við komum aftur heim. Áður en við fluttum út gáfum við líka allt dótið okkar. Ég gleymi því ekki hvað það var frelsandi tilfinning, að eiga ekki allt þetta dót og vera engu háður nema fjölskyldunni. Á Spáni tókum við líka ákvörðun um að kaupa sem allra minnst af öllum hlutum. Þar er hefð fyrir því að fólk skilji heil húsgögn sem það er hætt að nota eftir úti á götu á ákveðnum dögum og við nýttum okkur það. Við reyndum líka að nýta allt sem féll til. Þannig að það má segja að við höfum lengi verið að taka skref í átt að ruslfríum lífsstíl, án þess að pæla mikið í því sem endanlegu markmiði.“
Athugasemdir