„Þetta fór frá því að borða máltíð á hverju kvöldi, yfir í að hita sér núðlur,“ segir Björg, en hún var einungis 15 ára gömul þegar móðir hennar, Stella, veiktist af sjaldgæfum taugasjúkdómi og varð óvinnufær. Björg er elst fjögurra systkina, en á augabragði breyttist líf þeirra allra þegar móðir þeirra veiktist og fjárhagur fjölskyldunnar versnaði til muna á sama tíma. Álagið átti eftir að taka sinn toll, en Björg hefur að auki glímt við mikinn kvíða og þunglyndi á síðustu árum.
Blaðamaður hitti mæðgurnar Björgu og Stellu á heimili þeirra í Grafarvoginum á dögunum, en þær treysta sér ekki til að koma fram undir fullu nafni sökum fordóma í samfélaginu. Björg er nú að verða sautján ára gömul, en yngri systkini hennar eru á aldrinum sjö, tólf og fjórtán ára. Þegar við höfum komið okkur fyrir í stofunni byrjar Stella á því að segja frá aðstæðum fjölskyldunnar, sem gjörbreyttust á einni nóttu haustið 2014. „Fyrstu einkenni voru ósjálfráður skjálfti sem minnti mjög á Parkinsonsjúkdóminn og töluverður skortur á einbeitingu. Við tók langt, launalaust tímabil og ganga á milli lækna, en það var ekki fyrr en í febrúar 2015 sem ég var greind með sjaldgæfan taugasjúkdóm í ætt við Parkinsons.“
Hún hefur nú verið óvinnufær í tæp tvö ár og hafa þessi tvö ár reynst afar erfið, sérstaklega fyrir börnin. „Ég hef reynt mitt besta að leyfa þeim að lifa áhyggjulausu lífi, en þau finna auðvitað fyrir þessu. Þau sjá að það eru oft núðlur í matinn og eiga sjálf aðeins eitt par af skóm,“ segir hún.
Athugasemdir