Hjónin Abdelwahab Saad og Fadila, þriggja ára sonur þeirra Hanif og hin árs gamla Jónína, fá að dvelja áfram á Íslandi. Kærunefnd Útlendingamála hefur lagt fyrir Útlendingastofnun að veita fjölskyldunni dvalarleyfi í ljósi aðstæðna. „Við erum alveg í skýjunum,“ segir Elín Árnadóttir, lögmaður fjölskyldunnar, í samtali við Stundina. Hún segir ákvörðunina fyrst og fremst grundvallast á því hversu lengi fjölskyldan hefur verið á landinu, eða rúm þrjú ár.
Stundin hefur fylgst með máli fjölskyldunnar en fjölskyldufaðirinn, Abdelwahab Saad, flúði frá heimalandi sínu, Togo, vegna pólitískra ofsókna. Hann og eiginkona hans, Fadila, hafa nú dvalið hér á landi í þrjú ár og eiga tvö börn sem bæði fæddust hér á landi. Annars vegar er það hinn þriggja ára Hanif, sem gengið hefur í leikskóla í hverfinu sínu í rúmt ár, og hin rúmlega árs gamla Jónína, en hún er nefnd eftir íslenskri ljósmóður sem reyndist fjölskyldunni vel.
Flytja átti fjölskylduna til Ítalíu á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar í nóvember síðastliðnum. Mikil örvænting greip hins vegar um sig á heimili fjölskyldunnar þegar lögreglumenn mættu á svæðið og með velferð barnanna í huga greip barnaverndarnefnd í taumana og stöðvaði brottflutninginn.
Hér má sjá myndband af því þegar reynt var að flytja fjölskylduna úr landi:
Rúmlega fimm þúsund manns skrifuðu undir áskorun
Málið vakti gríðarlega athygli en í kjölfarið skrifuðu rúmlega fimm þúsund manns undir áskorun til innanríkisráðuneytisins um að leyfa fjölskyldunni að dvelja áfram á landinu. Þá sendi innanríkisráðuneytið frá sér yfirlýsingu þar sem kom meðal annars fram að ráðuneytið hefði þegar hafið skoðun á því hvort þörf væri á að bæta verklag þegar börn ættu í hlut „svo tryggt sé að hagsmunir barna séu ávallt hafðir í fyrirrúmi og að alþjóðlegar skuldbindingar séu uppfylltar.“
„Núna eru vonandi bjartir tímar framundan.“
Þá sendu forsvarsmenn Barnaheilla - Save the Children á Íslandi, Rauða krossins, UNICEF á Íslandi og umboðsmanns barna einnig frá sér sameiginlega yfirlýsingu vegna barna sem leita alþjóðlegrar verndar hér á landi. Í henni segir meðal annars að stjórnvöldum á Íslandi beri að líta á málefni barna og barnafjölskyldna, sem leita alþjóðlegrar verndar og sækja um dvalarleyfi af mannúðarástæðum, fyrst og fremst út frá réttindum barnanna. Stjórnvöldum beri að taka allar sínar ákvarðanir er varða börn í slíkum aðstæðum með það sem er barninu fyrir bestu að leiðarljósi.
Fjölskyldan hefur búið við mikla óvissu frá því brottflutningi fjölskyldunnar var frestað, en nú er orðið ljóst að hún fær að dvelja hér áfram. „Ég var alveg búin að búa mig undir það versta og svaf lítið um helgina,“ segir Elín. „En núna eru vonandi bjartir tímar framundan. Þetta breytir algjörlega stöðunni fyrir þau og þau geta loksins farið að gera einhverjar áætlanir um framtíðina.“
Athugasemdir