Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, telur að störf eiginkonu sinnar sem framkvæmdastjóra eignastýringar Arion banka geri hann ekki vanhæfan til að fjalla um málefni bankans á vettvangi þingsins. Þá segir hann mikilvægt að „byggja upp traust og trúnað í íslensku fjármálakerfi“.
Þetta kom fram í viðtali við Óla Björn í Vikulokunum á Rás 1 um helgina, en Stundin greindi frá hagsmunatengslum þingmannsins á föstudag. Ekki náðist í Óla Björn þegar Stundin fjallaði um málið, en samkvæmt siðareglum þingmanna ber þeim að „forðast árekstra milli almannahagsmuna annars vegar og fjárhagslegra eða annarra persónulegra hagsmuna sinna eða fjölskyldu sinnar hins vegar“.
Óli Björn hefur ítrekað tjáð sig um málefni Arion banka og lýst þeirri skoðun sinni að kaup vogunarsjóða á þriðjungshlut í bankanum séu af hinu góða. Þá hefur hann varið það að bankinn sé kominn í ógegnsætt eignarhald í gegnum skattaskjól og bent á að það sé „í sjálfu sér ekki ólöglegt að tengjast Cayman-eyjum“.
Óli Björn var spurður um málið í Vikulokunum á laugardag. „Hún er framkvæmdastjóri eignastýringar Arionbanka, já, og hefur verið það í nokkur ár. Það hefur öllum verið ljóst eða mátt vera ljóst. Það er ekkert leyndarmál í því,“ sagði hann.
„Það gerir mig ekkert vanhæfan að fjalla um málefni íslensks fjármálamarkaðar eða það sem hefur gerst í Arion banka. Eiginkona mín er ekki hluthafi með neinum slíkum hætti og það eru auðvitað mýmörg dæmi eins og þú þekkir sjálfur, Helgi, að þingmenn hafa verið að fjalla um mál sem eru kannski tengd þeim. Ég meina, læknar hafa sest inn á Alþingi tímabundið og fjallað um mál sem tengjast þeim með beinum hætti. Menn hafa verið ráðherrar í málaflokkum þar sem að makar þeirra eru starfandi undir.“
Eins og fram kom í frétt Stundarinnar átti Óli Björn í samskiptum við Höskuld H. Ólafsson, bankastjóra Arion banka, og bauð honum á fund efnahags- og viðskiptanefndar vegna sölunnar á hlut í bankanum. Eiginkona Óla Björns, Margrét Sveinsdóttir, er undirmaður Höskuldar og einn af æðstu stjórnendum Arion banka.
Aðspurður hvort hann hefði leitað sér álits á því hvort aðkoma hans að umfjöllun um málefni Arion banka væri eðlileg sagðist Óli Björn hafa ráðfært sig við vini sína sem setið hafa á þingi. „Ég leitaði álits félaga minna sem eru löglærðir og hafa langa þingreynslu. Það liggur alveg fyrir og ég hygg að þú getir nú leitað bara til skrifstofu Alþingis og fengið sömu niðurstöðu. Þannig að það er engin ástæða fyrir þig eða aðra að gera það meira tortryggilegt en það er,“ svaraði Óli.
„Ég leitaði álits félaga minna sem eru
löglærðir og hafa langa þingreynslu“
Í siðareglum Alþingismanna, sem samþykktar voru í formi þingsályktunar í fyrra, er sérstaklega kveðið á um að þingmenn skuli forðast hagsmunaárekstra. „Þingmenn skulu við störf sín forðast árekstra milli almannahagsmuna annars vegar og fjárhagslegra eða annarra persónulegra hagsmuna sinna eða fjölskyldu sinnar hins vegar. Takist þingmanni ekki að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra af þessu tagi skal hann upplýsa um þá,“ segir í 8. gr. siðareglanna. Þá segir í 9. gr. að þeir eigi að vekja athygli á tengslum sínum. „Þingmenn skulu, þar sem við á, vekja athygli á persónulegum hagsmunum sínum sem máli skipta við meðferð þingmála.“
Athugasemdir