Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis, segir í samtali við Stundina ekkert athugavert við framgöngu þingvarðar í gær. Myndband, sem Stundin birti í gær, sýnir hvernig þingvörður snýr niður Sigurð Haraldsson sem var við mótmæli við Alþingishús í gær. „Þetta verður ekkert skoðað frekar, þetta er skýrt. Það liggur fyrir að í öryggismyndavélum er alveg ljóst hvað gerðist og hvernig atvik urðu. Þetta er ósköp sorglegt atvik og mönnum þykir þetta ósköp leiðinlegt, en það er ráðist að þingverðinum. Það er ekkert óljóst og sést í myndavélum. Það þarf ekkert sérstaka rannsókn á því frekar,“ segir Helgi.
Stefnir á að kæra
Sigurður, sá sem var snúinn niður, segir í samtali við Stundina í dag að hann hyggist ræða við lögregluna og kanna sína stöðu. Hann útilokar ekki að hann muni kæra atvikið formlega. Sömuleiðis ætlar hann að kanna grundvöll fyrir skaðabótamáli. Hann segist hafa farið til læknis í gær. Hann segist hafa haft verk við hjartastað en utan marbletta sjáist ekki mikið á líkama hans.
„Þingvörðurinn er að hreinsa upp og er með slöngu í annarri hendinni og þá er ráðist á hann.“
Segir ráðist á þingvörðinn
Helgi segir það algjörlega ljóst af myndbandsupptökum að Sigurður hafi veist að þingverði. Hann telur sömuleiðis að viðbrögð þingvarðar hafa ekki verið of hörð. „Það er spurning hvað á að gera þegar þú ert með slöngu í höndunum og það er ráðist á þig. Hvað er hægt að gera? Þessi myndbönd sem eru í dreifingu eru ekki í rauninni „authentic“. Ég meina, við erum með mjög skýra mynd af þessu. Þetta er ósköp venjulegt þannig. Þingvörðurinn er að hreinsa upp og er með slöngu í annarri hendinni og þá er ráðist á hann. Það er ósköp einfalt mál. Það er veist að honum getum við sagt,“ segir Helgi. Hann segir þessa árás lýsa sér þannig að Sigurður hafi þrifið í þingvörðinn.
Útkrotuð gangstétt óþolandi
Spurður um hvort það séu eðlileg vinnubrögð að spúla mótmælendur sem séu að krota á stéttina við Alþingishúsið segir Helgi ekkert athugavert við það. „Þetta er ólögmætt atvik, ég meina, þetta er ekki heimilt samkvæmt lögreglusamþykkt. Það er óþolandi að útkrota gangstéttina fyrir framan þinghúsið. Það sjá það allir. Við látum það ekki óátalið. Ég hef engar athugasemdir við það og það var skylda þingvarðar að fara strax út og hreinsa þetta,“ segir Helgi.
Uppfært 17.04.15
Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis, hafði samband við Stundina og vildi koma því á framfæri að það væri ekki stefna Alþingis að spúla mótmælendur. Hann segir að þingvörður hafi ekki spúlað mótmælendur heldur stéttina.
Athugasemdir