Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 8 árum.

„Ég læt ekki bjóða mér þetta“

Hann er einn af þeim sem hef­ur náð alla leið, er heims­þekkt­ur í sínu fagi, með gull, silf­ur og brons í fartesk­inu og orðu frá for­set­an­um. Hann er al­inn upp sem sig­ur­veg­ari og ger­ir allt til þess að ná ár­angri. Hann þekk­ir líka það slæma við að vera á toppn­um. „Að vera í þess­ari stöðu sem ég er í, það er mjög kalt þar, það blæs um þig og það er mjög ein­mana­legt.“ Guð­mund­ur Guð­munds­son seg­ir frá lær­dóm­um fer­ils­ins, hvað þarf til að ná ár­angri og mik­il­vægi þess að ástunda hrein­skipt­in sam­skipti, í heimi þar sem heið­ar­leiki virð­ist vera á und­an­haldi.

Guðmundur Guðmundsson setti mark sitt á íslenska íþróttasögu þegar hann hengdi brons um háls íslenska handboltalandsliðsins á Evrópumóti og leiddi liðið að silfuverðlaunum á Ólympíuleikunum. Stærsta sigurinn vann hann svo í sumar, þegar honum tókst á sama tíma að ná fram hefndum fyrir tapið gegn Frökkum í úrslitaleik Íslendinga á Ólympíuleikunum 2008 og ná árangri sem hafði aldrei áður þekkst í sögu danska handboltans, og kom með gullið heim frá Ríó. En það var ekki nóg. Íslendingurinn sem leiddi Dani til sigurs var aldrei samþykktur. Tveimur dögum eftir heimkomuna bárust síðan fréttir af því hvernig yfirmaður hans hafði reynt að grafa undan honum á meðan mótinu stóð. Sigurvíman breyttist í sorg.

Guðmundur tekur á móti blaðamanni á heimili sínu í jaðri borgarinnar, þar sem hann hefur útsýni yfir Elliðavatn og Heiðmörk í göngufæri. Þarna býr hann ásamt eiginkonu sinni og dóttur sem fagnaði níu ára afmæli þann dag. Þau hjónin ákváðu að flytja aftur heim til Íslands þegar hann tók við danska landsliðinu til að lágmarka rótið á dóttur þeirra, sem hafði þá þegar búið í þremur löndum. Hann hefur því haldið heimili hér en dvalið langtímum í Danmörku þar sem hann hefur starfað undanfarin tvö ár. En nú er hann búinn að tilkynna þá ákvörðun sína að hætta þegar samningurinn rennur út í sumar. Eftir allt sem á undan er gengið hefur hann ekki áhuga á því að framlengja hann. „Á endanum er það mín ákvörðun núna að ég hætti bara. Ástæðurnar eru nokkrar og þar á meðal skortur á virðingu og viðurkenningu. Ég hef ekkert annað í höndunum. Ég er ekki með neitt starf sem bíður mín, ekkert atvinnutilboð á borðinu, heldur tek ég þessa ákvörðun alfarið á mínum eigin forsendum. Ég læt ekki bjóða mér þetta. Það er kjarninn í ákvörðuninni. Ef ég á að bera ábyrgð á öllu sem illa fer, sem ég geri með glöðu geði sem þjálfari, þá er ekki eðlilegt að taka kreditið frá þjálfaranum þegar vel gengur. Þá er ekkert eftir. Ég var búinn að velta þessu lengi fyrir mér áður en ég tók ákvörðun og á endanum var það niðurstaðan að ef starfið er ekki metið þá er eins gott að fara.“ 

Ekkert á borðinu 

Tilfinningin sem fylgir þessari ákvörðun er góð. Það er alltaf gott að standa með sjálfum sér, sama hvað er að veði. „Mér finnst það líka sterkt af því að ég er ekki með neitt á borðinu sem ég get hoppað í. Ég þarf bara að fara að skoða það næstu mánuði hvað kemur upp. Það er ekkert víst að ég geti haldið áfram í þessum bransa. Þjálfari fer ekki og sækir um vinnu. Þú ferð út á markaðinn og þá veit markaðurinn að þú ert á lausu en það er lítið sem þú getur gert. Það eina sem ég hef er nafnið mitt og árangurinn á undanförnum árum, reynslan og þekkingin.“ 

Þetta er kannski ekki ósvipað því að vera leikari, segir hann, að því leyti að hann er með umboðsmann sem kemur honum á framfæri. Fyrir vikið tekur hann sitt. „Ég hugsa ekki um það, því á endanum semur hann um laun sem ég er sáttur við. Umboðsmaðurinn minn, sem er með þeim bestu í heiminum að mínu mati, er með alla samninga á hreinu og það er ómetanlegt. Hann semur um allt niður í smæstu smáatriði, passar upp á skattamál og allt sem snýr að mínu starfi. Samningurinn er það eina sem ég hef í bransa þar sem starfsöryggið er ekkert. Ég gæti verið rekinn hvenær sem er. Ég geri bara mitt besta og árangurinn er það eina sem ég get stólað á og stundum dugar það ekki til.“ 

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár