Daginn sem Bjarki lenti í Túnis var hann að mestu einn. Tekið var á móti honum á flugvellinum og honum sýnt hvar hann átti að gista. „Menningarsjokkið var gríðarlegt, ég bjó einn í nokkrar vikur án þess að vita hvað ég átti að gera. Svo vissi ég ekkert hvernig mat ég átti að kaupa eða hvað væri í lagi, fór á einhvern markað þarna og keypti mér brauð og það sem ég hélt að væri smjör en svo var það bara eitthvað allt annað og örugglega ekki ætlað á brauð,“ segir Bjarki hlæjandi. „Fyrstu dagana borðaði ég eintómt brauð en aðallega lifði ég bara á mjólk. Kvöldmaturinn var bara mjólk í nokkra daga. En ég reyndi að útskýra hvað núðlur væru og það var bara hlegið að mér.“
Túnis er talið með frjálslyndari Afríkulöndum og segir Bjarki það hafa sést. „Það voru næturklúbbar og fólk drakk alveg þarna og konur gengju ekki endilega með slæður þrátt fyrir að vera múslimar. Það er gríðarleg samheldni milli fólksins og þrátt fyrir stundum ofsalega mikla fátækt þá bíður fólk manni hiklaust í mat, þó það eigi varla nóg mat fyrir fjölskylduna sína. Fólkið er mjög hlýlegt og tekur vel á móti manni.“
Sjálfboðaliði veldur usla með veggjakroti
Í heildina voru 13 sjálfboðaliðar í sama verkefni og Bjarki en frá mismunandi samtökum. Bjarki fór út á vegum AUS eða Alþjóðlegum ungmennasamskiptum, Ítölsku samtökin AFSAI höfðu svo milligöngu með flutningnum út og tóku samtökin AJMEC á móti sjálfboðaliðunum úti. Það voru þrír sjálfboðaliðar ásamt Bjarka sem fóru út fyrir milligöngu AFSAI. „Við fengum þrjár íbúðir í góðu hverfi, við vorum nálægt túristahverfinu í rólegu umhverfi í útjaðri Sousse. Reyndar eru fyrstu vikurnar enn í smá móðu. Menningarsjokkið var bara svo gríðarlegt að ég áttaði mig held ég bara ekki almennilega á hvað var að gerast í kringum mig,“ segir Bjarki hugsi. „Fyrstu vikurnar gekk vel, við vorum í tvískiptum verkefnum þar sem við vorum í félagsheimili eða svona frístundarheimili fyrir börn fyrir hádegi og svo í garðyrkju eftir hádegi. Einn sjálfboðaliðinn, Pedro, var í tveggja mánaða skammtímaverkefni, það urðu leiðindi þegar hann fékk sent til sín bréf sem einhver hafði opnað og sakaði hann einn leiðbeinandanna um að hafa opnað bréfið. Þetta olli gríðarlegum leiðindum og þegar Pedro lauk tímabilinu sínu þá skrifaði hann „Fuck Jalel Babay“ á vegginn í íbúðinni hjá okkur, en Jalel Babay var leiðbeinandinn sem hann sakaði um að hafa opnað bréfið. Úr þessu varð heilmikið mál og fengum við hinir sjálfboðaliðarnir skammir fyrir hans gjörðir, það var ekki sanngjarnt,“ segir Bjarki.
Blaðamaður hefur undir höndum samtöl þar sem sýnt er fram á þetta og einnig að sjálfboðaliðum er hótað að þeir yrðu sendir heim ef þeir hegði sér ekki, þar sem þeim er hreinlega kennt um hegðun annarra.
Athugasemdir