Það er stór áfangi að gefnar hafi verið út ákærur á hendur átta einstaklingum sem Samtökin ‘78 kærðu í fyrravor fyrir hatursorðræðu. Þetta segir lögmaður samtakanna, Björg Valgeirsdóttir.

„Það eitt að þessi mál fari fyrir dóm er mjög mikilvægt. Þetta eru mál af þeim toga sem fara sjaldan fyrir dómstóla,“ segir Björg. Þetta sé rökrétt niðurstaða miðað við eðli þeirra ummæla sem samtökin kærðu og í því samhengi sem þau birtust.
Ákæran byggir á 233. grein a í almennum hegningarlögum, sem hljómar svo:
Hver sem opinberlega hæðist að, rógber, smánar eða ógnar manni eða hópi manna með ummælum eða annars konar tjáningu, svo sem með myndum eða táknum, vegna þjóðernis, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, kynhneigðar eða kynvitundar, eða breiðir slíkt út, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum.
Athugasemdir