Sex hafa farist í flóðum í suðausturhluta Texas í Bandaríkjunum en á svæðinu býr að minnsta kosti einn Íslendingur, hin 24 ára gamla Fanney Rut Dishaw.
Hún býr við Brazos-fljótið en það fór að flæða yfir bakka sína á laugardaginn og varð Fanney Rut að flýja ásamt eiginmanni sínum og heimilisdýrum á litlum árabát. Þegar Stundin náði tali af henni var hún stödd í vinahúsi sem var á þurru landi. Hún segist hafa gert sitt besta í að bjarga því mikilvægasta en fjölskyldan hafi þurft að skilja eftir 26 hænsni. Það stytti upp á sunnudaginn en í gær fór að rigna aftur.
Rigndi eins og hellt væri úr fötu
„Það er búið að rigna frekar mikið síðustu daga og þvílíkar þrumur og eldingar sem hafa fylgt með því. Þetta byrjaði um hádegi á föstudaginn og þá fórum við Randy að ánni og tókum rölt meðfram bakkanum. Þá var vatnið svona hálfan metra frá bakkanum sem okkur fannst algjör bilun enda kemur það mjög sjaldan fyrir að fljótið nái svona langt upp að bakkanum,“ segir Fanney Rut en á þessum tímapunkti var henni ekki farið að litast á blikuna.
„Hún segir að allur sinn tími hafi farið í það að gera fjölskylduna tilbúna til að yfirgefa heimilið.“
„Það rigndi endalaust, eins og hellt væri úr fötu, og í marga klukkutíma. Við stóðum síðan úti á palli og sáum fljótið koma yfir bakkann hjá nágrönnum okkar. Randy sagði þá við mig að við þyrftum að fara heim og pakka niður, reyna að fara með eins mikið af eigum okkar og verðmætum í gamla húsið sem er hérna á jörðinni en það er á stultum og því hærra en húsið okkar nýja. Þá setti ég einnig í eina af ferðatöskunum það sem við þyrftum að taka með okkur ef ske kynni að við yrðum að yfirgefa heimilið okkar,“ segir Fanney Rut.
Athugasemdir