Mikið vatnsflóð varð á bænum Vatnsleysu í Biskupstungum í stórviðrinu í morgun. Meðal annars flæddi inn í fjárhús þar sem 8 kindur drukknuðu. Rúnar Björn Guðmundsson bóndi segir að flætt hafi úr hlíðinni ofan við bæinn þar sem fjárhús eru í byggingu. Á hálftíma varð um metersdjúpt vatn í fjárhúsinu. Með harðfylgi tókst að bjarga 180 kindum.
,,Þetta fór miklu betur en á horfðist,“ segir Rúnar Björn í samtali við Stundina. Hann sagði að auðvitað væri áfall að missa kindurnar en góðu tíðindin væri björgunin. Björgunarsveitin og nágrannar komu til hjálpar fólkinu á Vatnsleysu. Alls unnu 15 manns að björgunarstörfum. Unnu þeir þrekvirki, að sögn heimamanna.
Miklar skemmdir hafa orðið í ofsaveðrinu sem náði hámarki sínu sunnanlands og suðvestan fyrir hádegi. Fok og flóð hafa verið skæðust. Meðal annars þurfti að loka Miklubraut vegna þess að þar voru innkaupakerrur á ferð og flugi. Þakplötur fuku af Egilshöll í Grafarvogi. Þakplötur hafa losnað víðar og tré rifnuðu upp í rótum. Miklar skemmdir urðu vegna vatnselgs í Mosfellsbæ.
Athugasemdir