Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins og forsætisráðherra, er í forsíðuviðtali í helgarblaði DV sem dreift er frítt á heimili í dag. Í viðtalinu varar hann við því að Píratar komist til valda, þar sem þeir séu byltingarflokkur, og segir að sér hafi verið hótað vegna gjaldeyrishaftanna. Sigmundur nefnir ekki hver hafi hótað honum.
„Ég veit að ákveðnir aðilar sem vildu hafa áhrif á umræðuna út af haftamálunum fóru skipulega að dreifa ýmsum sögum um mig og þá með það að markmiði að reyna að draga úr trúverðugleika mínum og skaða möguleika mína á því að hafa áhrif á gang mála. Og talandi um fjárkúgun og hótanir, þá hef ég meira að segja fengið hótanir úr þeim ranni.“
„Menn væru í aðstöðu til að skaða okkur verulega.“
Sigmundur er spurður nánar út í eðli hótananna af Kolbrúnu Bergþórsdóttur, ritstjóra DV, sem tók viðtalið við hann. „Þess eðlis að ríkisstjórnin væri að ganga þannig fram gagnvart þessum aðilum að við myndum fá að gjalda þess fylgdum við þessari stefnu áfram. Menn væru í aðstöðu til að skaða okkur verulega. Það er mjög hættulegt fyrir stjórnmálin ef það er orðin baráttuleið að leggjast í persónuofsóknir og hóta mönnum og telja það bestu leiðina til að ná sínu fram.“
Á forsíðu DV er vísað til ummæla hans með fyrirsögninni: Hótuðu að skaða Ísland. Ekki kemur fram í viðtalinu hvort Sigmundur hafi kært hótanirnar.
Varar við Pírötum
Sigmundur segir það áhyggjuefni fyrir íslenskt samfélag ef skoðanakannanir ganga eftir í næstu Alþingiskosningum og Píratar ná 30 til 40 prósenta fylgi. „Þá myndi taka við allt annars konar stefna í samfélaginu þar sem erfitt gæti verið að viðhalda þeim gildum sem við höfum þó verið að sækjast eftir og byggja upp um áratuga skeið,“ segir Sigmundur Davíð meðal annars í sem er dreift frítt inn á heimili í dag.
Á öðrum stað í viðtalinu er hann inntur eftir því hvort honum hugnist ekki tilhugsunin um að Píratar komist til valda. „Ef almenn óánægja yrði til þess að byltingarflokkar og flokkar með mjög óljósar hugmyndir um lýðræði og flokkar sem vilja umbylta grunnstoðum samfélagsins nái áhrifum þá væri það mikið áhyggjuefni fyrir samfélagið allt og yrði stærri breyting en svo að staða einstakra stjórnmálamanna skipti máli,“ segir Sigmundur Davíð og tekur fram að hann efist hins vegar um að niðurstöður kosninga verði þær sömu og skoðanakannanir gefa nú vísbendingu um.
„Erfitt gæti verið að viðhalda þeim gildum sem við höfum þó verið að sækjast eftir og byggja upp um áratuga skeið.“
Vaxandi fylgi Pírata
Í nýjustu skoðanakönnun MMR mældust Píratar aftur langstærsti flokkurinn og er nú kominn með 34,5 prósenta fylgi. Fylgi Pírata hefur farið hratt vaxandi frá því í byrjun þessa árs en þann 19. mars síðastliðinn mældist flokkurinn í fyrsta skipti með mesta fylgi allra flokka á Íslandi í könnun MMR. Stuðningur við ríkisstjórn Sigmundar Davíðs hefur hins vegar aldrei mælst minni.
Stundin fjallaði um þessa gríðarlegu stefnubreytingu kjósenda í síðasta tölublaði og ræddi meðal annars við Huldu Þórisdóttur, lektor við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, en hún hefur sérhæft sig í rannsóknum á sviði stjórnmálasálfræði. „Ungt fólk finnur sig ekki í leiðtogum ríkisstjórnarinnar og flokkshollusta hefur farið minnkandi á Íslandi eftir hrun,“ útskýrði hún meðal annars. „Það varð gríðarlegt hrun í pólitísku trausti við hrunið og þar með fór þetta fasta flokksfylgi mjög mikið á flakk og afar margir hafa ekki fundið sér aftur neinn heimaflokk. Eins og við sjáum á þessum skoðanakönnunum þá gildir um marga sem núna segjast styðja Pírata að þeir kusu síðast Framsóknarflokkinn og einnig Bjarta framtíð. Hverjir kusu þessa flokka síðast? Það voru þeir sem voru að leita að einhverju nýju.“
Athugasemdir