Forsvarsmanni United Silicon, stjórnarmanni þess og stærsta hluthafa, var gert að segja upp ellegar verða rekinn frá danska ráðgjafafyrirtækinu COWI fyrir nokkrum árum síðan eftir að honum var gefið að sök að hafa misnotað aðstöðu sína sem starfsmaður í hlutastarfi. Þá voru tvö fyrirtæki sem sögð voru í hans eigu hundelt af dönskum stéttarfélögum fyrir að hafa misnotað vinnuafl við byggingu og framkvæmdir við íbúðir í Danmörku. Fjölmargir Pólverjar unnu að framkvæmdunum.
Sagður kaldrifjaður og forhertur
Fyrirtæki í hans eigu var sektað um tæpar 7 milljónir íslenskra króna vegna brota á réttindum pólsku verkamannanna en stuttu eftir það fór félagið í þrot. Þetta kemur fram í fréttariti danska stéttarfélagssambandsins BJMF.
Fréttarit sambandsins sparar ekki stóru orðin um þennan íslenska athafnamann sem sagður er kaldrifjaður og forhertur úlfur í sauðargæru sem hafi neitað að gera kjarasamninga við pólsku verkamennina til þess eins að auðgast persónulega. Fréttaritið birti ljósmyndir af Magnúsi þar sem hann sást á tali við danskan lögreglumann sem var kallaður til við framkvæmdasvæðið í Valby.
Athugasemdir