Veldi gildismatsins.
Í síðustu færslu tók ég undir þau orð Charles Taylors að gildismat réði miklu um hvað teldist frelsi og ófrelsi. Það þýðir ekki að ég telji að frelsi sé smekksatriði eða vildarefni, gagnstætt því sem margir halda getur gildismat verið tiltölulega hlutlægt. En fyrst skal vikið að gildismati og vísindum.
Finnur Dellsén um vísindi og gildismat.
Finnur Dellsén skrifar prýðilega ádrepu um vísindi í hausthefti Skírnis 2020. Hann leiðréttir margháttaðan misskilning um vísindi, m.a. að þau hljóti að vera sneydd gildismati.
Hann notar reyndar orðið „gildisdómar“ en þeir séu „… skoðanir eða mat á því sem sé rétt og rangt, gott og vont, fallegt og ljótt, skynsamlegt og misráðið og svo framvegis“ (Finnur 2020: 260).
Slíkir dómar séu ekki endilega sannir eða ósannir í þeim skilningi að þeir endurspegli eða endurspegli ekki staðreyndir heldur felst í þeim afstaða til þess hvernig þeir ættu að vera.
Hér slær hann einn varnagla neðanmáls: Greinarmunur staðreynda og gildisdóma sé ekki alltaf skýr. Samt talar hann eins og svo sé að jafnaði. Gildisdómar geti haft áhrif á hvaða kenningar vísindafólk velur til að skýra staðreyndir en yfirleitt ekki á staðreyndirnar sjálfar.
Hann segir beinum orðum: „Það hvaða kenningar vísindafólk kýs að setja fram og gera prófanir á ræðst stundum af gildisdómum vísindafólksins sjálfs“ (Finnur 2020: 261).
Gildisdómar geti haft áhrif á það hvernig vísindafólk metur kenningar og á það hvaða kenningar verði að lokum samþykktar.
Slíkir gildisdómar leiki sérstaklega mikilvægt hlutverk þegar kenningarsmíð er vandasöm, þ.e. þegar erfitt er að vita hvaða kenningar gætu verið réttar á tilteknu rannsóknarsviði.
Þó geti gildisdómar líka haft sitt að segja í tilvikum þar sem sættir eru um hvaða kenningar beri að prófa (Finnur 2020: 267).
Athugasemdir við skrif Finns
Finnur er vissulega á réttri leið en gerir heldur minna úr hlutverki gildisdóma í vísindum en gott má þykja. Einnig er ýmsu ábótavant í skrifum hans um gildisdóma.
Í fyrsta lagi er það beinlínis rangt að gildisdómar hljóti að fela í sér afstöðu til þess hvernig hlutirnir eigi að vera. Ég get kveðið upp þann gildisdóm að Hitler hafi verið góður nasisti en það þýðir ekki að ég hljóti að telja að menn eigi að vera nasistar.
Þetta sést skýrar ef ég kveð upp gildisdóm að A hafi verið betri raðmorðingi en B. A kann til dæmis að hafa sloppið úr greipum réttvísinnar vegna hygginda sinna, B ekki.
En orðið „morðingi“ er gildishlaðið orð, það merkir „maður sem aflífar aðra menn með óréttmætum og fordæmingaverðum hætti“.
Hafi ég skilið merkingu orðsins morðingi rétt þá felst hreint ekki í orðum mínum um ágæti A sem raðmorðingja að menn eigi að fremja morð. Öðru nær.
Í öðru lagi geta gildisdómar verið jafn hlutlægir og hvaða staðhæfingar um staðreyndir sem vera skuli.
Það er ekkert huglægt við það hvort hæfilegt magn af vatni og mold af tilteknu tagi sé gott fyrir gras sem gras. Það er einfaldlega staðreynd um gras, í þessu tilviki eru gildi hluti af staðreyndum um gras.
Hið sama gildir um mýmörg önnur náttúruleg fyrirbrigði. Gildisdómar á borð við „vatn er ekki gott fyrir gras“ eru einfaldlega ósannir.
Menn geta svo verið á móti grasi eða með grasi, gildismat um ágæti grass kann að vera algerlega huglægt.
Með svipuðum hætti kann það að vera bláköld staðreynd um Hitler að hann hafi verið góður sem nasisti eða gott eintak af nasista þótt við teljum nasismann af hinu illa.
Það er heldur ekkert huglægt við gildisdóma um það hvort tiltekinn hnífur góður eða slæmur. Ryðgaður og bitlaus hnífur er hreinlega vondur sem hnífur þótt hann kunni að vera góður sem listaverk eða minjagripur.
Sá sem staðhæfir að slíkur hnífur sé góður hefur á röngu að standa, fellir rangan gildisdóm. Sá sem aftur segir að hnífurinn sé slæmur fellir hlutlægan gildisdóm. Svipað gildir um öll önnur viðföng sem teljast mega virknisgerðar (e. functional kinds).
Hnífur á að gegna því hlutverki að vera tæki til skurðar og stungu, bitlaus og ryðgaður hnífur gegnir því hlutverki illa. Gras er ekki virknisgerðar heldur einfaldlega náttúrulegt fyrirbrigði (svipuð rök má finna hjá Kristjáni Kristjánssyni 1992: 17-32).
Áður en lengra er haldið skal tekið fram að auðvitað eru til gildisdómar sem eru öldungis huglægir. Það gildir til dæmis um dóma um það sem mönnum finnst skemmtilegt eða leiðinlegt. Þeir eru algerlega huglægir, smekkbundnir. Enda mun Vilmundur Jónsson, landlæknir, hafa sagt að um smekk skal ekki deila heldur vitna.
Í þriðja lagi gerir Finnur helst til lítið úr hlutverki gildisdóma í vísindum, ég tel að þeir gegnsýri vísindin. Til dæmis hlýtur það sem gildir um hnífa hlýtur að gilda um þau tæki sem vísindamenn nota, þau eru virknisgerðar.
Það er hvorki smekksatriði né vildarefni hvort smásjá eða stjörnukíkir þjóni sínum vísindalegu hlutverkum. Hubble-stjörnukíkirinn þeytist nú um himinhvolfin og afhjúpar leyndardóma alheimsins.
Hann er líkast til betri en fyrri apparöt af sama tagi (nema vísindamenn séu slegnir einhverri furðublindu).
Svipað gildir um gæði raka, sé rökfærsla mótsagnarkennd þá er hún að öllu jöfnu slæm rökfærsla. Sé rökfærslan einföld hringsönnun þá er hún einnig að öllu jöfnu slæm rökfærsla. Rökfærslan er burðarás vísindanna, mat á gæðum vísindalegra raka er hvorki vildarefni né smekksatriði.
Greina verður á milli mikilvægra og síður mikilvægra þátta til að geta yfirleitt stundað rannsóknir en slík aðgreining er gildisdómur. Hugtakið um mikilvægi er ljóslega gildishugtak.
Athugið að þetta gildi kemur líka við sögu vísindalegra athugana. Vísindamenn verða að beina sjónum sínum að því sem er mikilvægt fyrir rannsóknina og horfa fram hjá því sem ekki er það.
Skynreynsla er burðarás athugana, þetta þýðir að alla vega vísindaleg skynreynsla (kannski öll skynreynsla) er bundin á klafa gildismats.
Við má bæta að vísindamenn komast ekki langt ef þeir greina ekki á milli góðra og slæmra dæma um fyrirbæri. Tiltekin hnullungur kann að vera betra dæmi um mógrýti en annar hnullungur.
Verða jarðfræðingar ekki að kveða upp slíka gildisdóma? Og gildir ekki slíkt hið sama um aðra vísindamenn?
Vísindamenn verða líka að dæmi um gæði rannsókna, mælinga og tilrauna. Auk þess er þeim einboðið að dæma um mikilvægi upplýsinga og kenninga. Er þær mikilvægar eða jafnvel lítilvægar eða einskis virði?
Við getum ekki stundað vísindi án þess að dæma um gæði raka, kenninga, rannsóknartækja og rannsóknargagna (e. data).
Sé afstæðiskenning Einsteins slagferðug vísindakenning, jafnvel sönn, þá þýðir það að rökin fyrir henni séu góð, rannsóknargögnin sem styðja hana sömuleiðis.
Jafnframt verða rannsóknartækin sem beitt var til að prófa kenninguna að hafa verið í góðu lagi.
Í fjórða lagi hefði Finnur mátt gera nánar grein fyrir því sem hann gefur í skyn um að ekki sé ávallt hægt að greina skarplega milli staðhæfinga og gildisdóma.
Að segja um tiltekinn hníf „hann er bitlaus“ er bæði að setja fram raunhæfingu um hann og dæma hann. Reynslan sker úr því hvort hann sé bitlaus, það að segja hann bitlausan er að meta hann sem lélegan hníf.
Sama gildir að sjálfssögðu um öll önnur fyrirbæri með virknisgerð auk náttúrulegra fyrirbæra á borð við gras.
Sænski heimspekingurinn Tore Nordenstam segir réttilega að þótt til séu raunhæfingar og gildisdómar sem séu klárlega aðgreinanlegir þá séu líka dæmi um hið gagnstæða (Nordenstam 1984).
Til eru allra handa raunhæfingar og lýsingar á staðreyndum, sumar gegndreypa af gildismati, aðrar ekki.
Innblásin af heimspekingum á borð J.O. Urmson, David Pole og John Searle biður Nordenstam okkur um að gaumgæfi raunhæfinguna “R er gild rökfærsla”.
Er gerlegt að samsinna þessari raunhæfingu án þess að fella gildisdóm um R? Sé R gild (e. valid) rökfærsla þá er R um leið góð rökfærsla (Searle 1969: 134, Pole 1961: 67, Urmson 1960: 126-127).
Sannleiksgildi staðhæfingarinnar um R er ein hlið á blaðsíðunni, gildisdómurinn um R er hin hliðin. Sem kunnugt getur blaðsíða ekki haft eina hlið, hún verður að hafa tvær.
Ekki þarf að fara í grafgötur um mikilvægi rökfærslu fyrir vísindi og þekkingaröflun almennt. Að vita er að meta, að meta er að vita.
Gildismat og mannlíf
Þetta gildir ekki bara um vísindin, smiðurinn verður að vega og meta er hann smíðar, húsfaðirinn þegar hann kokkar og ræstir, tölvuþrjóturinn þegar hann leitar nýrra leiða til að hakka sig inn í tölvukerfi.
Gildismatið ríkir yfir öllu mannlífi.
Það ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að meta ástand og athafnir sem frjálsar eða ófrjálsar með sæmilega hlutlægum hætti. Sú staðreynd kemur við sögu þegar menn beita hugtakinu um frelsi gerir þessa beitingu ekki endilega huglæga.
En það er ekki til neitt algrím fyrir frelsi, beita verður upplýstri dómgreind enda er sú dómgreind það tæki sem við notum einna helst þegar við fellum gildisdóma.
Við beitingu þess lags dómgreindar notast menn við þumalfingursreglur sem þeir beita með yfirveguðum hætti og í ljósi víðfeðmrar þekkingar. En niðurstöðurnar verða ævinlega matsatriði með huglægum þætti.
Ástæðan fyrir þessu er m.a. sú að það er ekkert áhlaupaverk að finna út hvað sé gott fyrir mannverur sem mannverur. Við erum miklu flóknari lífverur en gras og þannig gerðar að óvíst er að eitthvað sé til sem sé gott fyrir mannverur sem slíkar.
Því veldur ekki síst að einstaklingurinn getur að nokkru leyti mótað sig sjálfan, gert sig öðruvísi en aðrar mannverur. Auk þess hefur samfélagið áhrif á okkur, gagnstætt grasinu.
Er frelsi gott fyrir okkur sem mannverur? Ef svo er hvers konar frelsi fyrir hvers konar mannverur við hvaða aðstæður? Ber að spyrja svona spurninga eða er frelsi bara eðlilegur réttur hvers og eins?
Gildisdómar um frelsi og annað því tengt geta aldrei orðið eins hlutlægir og gildisdómar um gras, samt má telja líklegt að þeir geti verið að nokkru hlutlægir.
Lokaorð
Gildismat er alls ekki ávallt huglægt. Tiltölulega hlutlægt gildismat er nauðsynlegur þáttur vísindanna og mannlífsins almennt.
Gildismat leikur lykilhlutverk um dómum frelsi og ófrelsi en þeir dómar eru ekki endilega huglægir.
Veldi gildismatsins er sannarlega mikið.
Heimildir:
Finnur Dellsén (2020): „Gildi vísinda og gildin í vísindunum-á tímum heimsfaraldurs“, Skírnir, hausthefti, bls. 251-273.
Kristján Kristjánsson (1992): "Er siðferðileg hluthyggja réttlætanleg?" Þroskostir. Reykjavík: Rannsóknarstofnun í siðfræði, bls. 17-32.
Nordenstam, Tore (1984): Fra “er” til “bør”. Etiske grunnlagsproblem i et pragmatisk perspektiv. Ósló: Solum Forlag.
Pole, David (1961): Conditions of Rational Inquiry. London: Athlone Press.
Searle, John (1969): Speech Acts. Cambridge: Cambridge UP.
Urmson, J.O. (1960): „Some Questions concerning Validity“, í Antony Flew (ritstj.): Essays in Conceptual Analysis. London: MacMillan, bls. 120-133.
Athugasemdir