Þessi færsla er meira en ársgömul.

Skópu Gyðingar nútímann?


Fræg er sú kenning Max Webers að kapítalisminn hafi orðið til sem óætluð afleiðing af mótmælendatrú.

Annar þýskur fræðimaður, Werner Sombart,  skrifaði mikinn doðrant um Gyðinga og efnahagslífið, Die Juden und das Wirtschaftsleben.

Gyðingarnir skópu nútíma kapítalisma, staðhæfði hann og  var þó ekki Gyðingur (fremur hið gagnstæða, hann snerist á sveif með Hitler 1933).

Hann benti á að Gyðingar hefði ekki fengið að vera með í handverksgildum miðalda.  Það hafi verið  lán í óláni, því þeir tóku þá að versla með kapítalískum hætti, óbundnir af reglum gildanna um hámarksverð o.s.frv.

 Einnig hefðu hirðgyðingarnir (þ. die Hofjuden) leikið mikilvægt hlutverk við sköpun kapítalismans. Hirðgyðingarnir voru viðskiptamenn sem lánuðu aðalsmönnum og konungum peninga og uppskáru fyrir vikið stöðu við konungshirðir, sumir voru aðlaðir.

Ástæðan fyrir því að Gyðingar stunduðu lánastarfsemi var sú að lengi var þeim bannað að eiga jarðir og stunda ýmis störf en þeir gátu veitt lán með vöxtum. Kristnum mönnum var bannað að taka vexti, múslimum reyndar líka, Gyðingum ekki.  

Ekki skal lagður dómur á hvort kenning Sombarts er sönn. En athyglisverð er hún. Er ekki líklegast að kapítalisminn eigi sér margar rætur, sumar kannski hjá Gyðingum, aðrar í mótmælendatrú, þær þriðju í tækniþróun? 

Gyðingar og menning

Heimsmynd nútímans er að  ekki óverulegu leyti  sköpuð af Gyðingum. Eðlisfræðingar á borð við Albert Einstein, Niels Bohr (sem reyndar var bara hálfur Gyðingur), Max Born   og Ernst Schrödinger áttu þátt í að bylta  heimsmynd eðlisfræðinnar, þriðjungur allra nóbelshafa er af Gyðingakyni (nefna ber að all nokkur fjöldi þessara megineðlisfræðinga voru ekki Gyðingar, t.d. Werner Heisenberg og Max Planck).

Segja má að eðlisfræðingar af Gyðingaættum hafi skapað kjarnorkusprengjuna og kjarnorkuverin. Reyndar með drjúgri aðstoð eðlisfræðinga sem ekki voru Gyðingar, t.d. Enrico Fermi. 

Heimspekingar á borð við Ludwig Wittgenstein, Jacques Derrida  og Saul Kripke áttu mikinn þátt í að breyta heimsmynd heimspekinnar (aftur vantaði ekki aðstoð fræðimanna  sem ekki voru Gyðingar, t.d. Bertrand Russell og Martin Heidegger).

Noam Chomsky hefur haft mikil áhrif á málvísindi, sálfræði, heimspeki og pólitíska umræðu. Karl Marx hefur verið áhrifamikill í  pólitík og stjórnmálaumræðu, Sigmund Freud á sýn okkar á manninn.

Ekki skortir snjalla rithöfunda af Gyðingaættum, Franz Kafka og Marcel Proust voru meðal forsprakka nýstefnu í bókmenntum. Gyðingurinn Arnold Schönberg skóp nýja gerð tónlistar, tólftónamúsik og þar með nýstefnutónlist.

Það er einna helst í myndlist og óperusöng sem Gyðingar hafa ekki átt marga listamenn í fremstu röð. Lengi var myndlist ekki stunduð meðal þeirra af trúarlegum ástæðum en það breyttist á síðustu öld, þá komu fram myndlistamenn á borð við Marc Chagall.

Merkilegt nokk hafa Gyðingar verið mjög áhrifamiklir í skemmtanaiðnaðnum. Kvikmyndaverin í Hollywood voru flest stofnuð af Gyðingum, þeir ráða enn miklu þar í borg.  

Helstu teiknimynda-ofurhetjurnar voru skapaðar af Gyðingum, Shuster og Siegel Súpermann, Finger og Kane Batman, Lee Falk skugga (the phantom), og Stan Lee Köngulóarmanninn.

Án Brian Epsteins hefðu Bítlarnir kannski aldrei orðið svona frægir og áhrifamiklir. Í ofan á lag stóðu fjórir piltar af Gyðingaættum fyrir Woodstock-tónleikunum.

Meðan ég man: Jólalagið White Christmas var samið af Gyðingi, einnig Lili Marleen sem nasistaherinn kyrjaði á stríðsárunum síðari.

Og dægurlagasöngkonan Olivia Newton-John var barnabarn Max Born, nóbelshafa í eðlisfræði og Gyðings. 

Hæfileikar og hatur

Hvernig stendur á þessu? Eru Gyðingar hæfileikameiri en aðrir hópar manna? Skyldi vera tilviljun að meira en þriðjungur allra heimsmeistara í skák eru Gyðingar?

 Þetta kann að einhverju leyti að vera áskapað, alla vega standa Austur-Gyðingarnir (Ashkenasim)  sig betur á greindarprófum en annarra ættflokka kvikindi.

En frammistaða á greindarprófum segir ekkert um uppruna greindar, hvort hún er ásköpuð og/eða áunnin (þess utan mæla slík próf ekki sköpunargáfu og standa því vart undir nafni).

Alltént er gömul hefð hjá Gyðingum fyrir virðingu fyrir lærdómi, þegar í forneskju var Gyðingapiltum gert að læra að lesa til að geta stautað sig fram úr helgiritum. Á tímum þegar almenningur víðast hvar var ólæs. 

Þess utan  drekka þeir lítið, það er tiltölulega lítið um alkóhólisma meðal Gyðinga, sumir telja það meðfætt. Meðal goyim (ekki-Gyðinga)  er ekki óalgengt að hæfileikafólk eyðileggi sig með drykkjuskap og dópi, slíkt er fátítt meðal Gyðinga.

Hverrar  rótar er Gyðingahatrið? Eitt fyrir sig er hið trúarlega Gyðingahatur, kristnir menn töldu margir hverjir að Gyðingar bæru ábyrgð á dauða Jesúsar. Annað er hið ekki-trúarlega Gyðingahatur, t.d. hið  kynþáttabundna Gyðingahatur nasista.

Fyrir utan allt annað sem er að hinu nasíska Gyðingahatri þá er ekkert sem bendir til kynþáttalegs hreinklega meðal Gyðinga. Rannsóknir sýna að þeir hafa blandast þeim þjóðum sem þeir bjuggu með þótt finna megi vissa genetíska fasta, ættaða frá landinu helga. 

Öfund hefur sjálfsagt leikið mikið hlutverk, Gyðingarnir voru oft andlegir afrekamenn og slyngir viðskiptamenn.

Önnur ástæða kann að vera sú að þeir voru ekki auðflokkanlegir. Franski heimspekingurinn Michel Foucault hélt því fram að  á upplýsingaröld (hann talar um klassíska skeiðið) hafi  Vesturlandabúar gerst flokkunarlega þenkjandi. Allt og allir áttu að vera flokkanleg(ir)  í gefin flokk, t.d. trúflokk eða þjóð.

Foucault nefnir ekki Gyðingahatur en ég spyr:  Gyðingar voru ekki bara trúflokkur og tæpast þjóð en höfðu einkenni beggja.  Getur verið að þeir hafi með því  truflað  flokkunarkerfin, kristnum Vesturlandabúum til armæðu og leiðinda?

Hráskinnaleikur örlaganna er slíkur að Gyðingar hafa skapað mörg þeirra vopna sem notuð hafa verið gegn þeim. Fyrst skal fræg talin kristnin, í nafni hennar hefur ótölulegur fjöldi Gyðinga verið myrtur.

 Bæta má við að Isak Bashevis Singer segir í skáldsögu sinni Þrællinn að járnsmiðir Gyðinga hafi smíðað sverðin sem kósakkarnir notuðu til að drepa þá og trúbræður þeirra.

Um þetta  skal ekki dæmt en víst er um að Gyðingurinn Fritz Haber fann upp cyklon B, eiturgasið sem nasistar notuðu til að drepa Gyðinga í milljónatali.

Lokaorð

Margt bendir til þess að nútímahagkerfi og menning eigi sér ýmsar gyðinglegar rætur. Gyðingar hafa verið afreksmenn (afrekarar?) á mörgum sviðum, kannski verið öfundaðir þess vegna. Einnig rekast þeir illa í flokka. 

P.S. Í augnablikinu er óljóst hvort framhald verður á þessum bloggskrifum eftir sameiningu Kjarnans og Stundarinnar. Ljúki þeim skrifum vil ég nota tækifærið til að þakka lesendum samfylgdina.

 

Athugasemdir (3)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
 • SVS
  Stefán Valdemar Snævarr skrifaði
  Ég bætti ýmsu við og gerði staðhæfingar mínar hófstilltari, þær voru ögn öfgakenndar.
  0
 • KEG
  Kristján Einar Gíslason skrifaði
  Við verðum að trúa því að hinn bragðvísi heimsandi tryggi okkur lesendum áframhaldandi skrif þín Stefán.
  0
  • SVS
   Stefán Valdemar Snævarr skrifaði
   Svo virðist vera, honum er ekki alls varnað!!
   0
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni