ÞRjÚ MEGINVERK HUNDRAÐ ÁRA: Tractatus, Ulysses og The Waste Land
Á þessu ári eru hundrað ár liðin síðan þrjár af áhrifamestu bókum síðustu áratuga komu út. Fyrsta skal fræga telja skáldsögu James Joycse Ulysses, þá ljóðabálk T.S.Eliots The Waste Land og að lokum heimspekiskruddu Ludwigs Wittgenstein, Tractatus Logico-Philosophicus.
Tractatus eða lógíska ljóðið
Síðastnefnda ritið kom strangt tekið út ári fyrr, þá á þýska frummálinu Logisch-philosophische Abhandlung. En frægust varð hún í tvímála útgáfu sem kom út 1922.
Wittgenstein bryddaði upp á ýmsum nýjungum í táknrökfræði í ritinu og varð það Biblía greiningarspekinga (e. analytical philosophers).
Landar Wittgensteins í Vínarborg, menn sem kenndu sig við rökfræðilega raunhyggju, tóku ritinu fagnandi enda misskildu þeir það gróflega.
Bókin hefst reyndar með hætti sem virðist fremur raunhyggjulegt: „Die Welt is alles was der Fall ist“ (Veröldin er allt það sem er tilvikið). Og síðar „Heimurinn er heild staðreynda, ekki hluta“ (Wittgenstein 1922: 31 (§1–1.1).
Meinið er að þetta eru frumspekilegar staðhæfingar en raunspekingar voru henni andsnúnir.
Ég held að Wittgenstein hafi með þessu viljað sýna að raunspekin hefði frumspekilegan þátt þótt fylgjendum hennar hafi verið það hulið.
Svo segir hann í þeirra anda að frumspeki sé þekkingarlega inntakslaus, segi ekkert. En það þýðir að frumspeki raunspekinnar sé inntakslaus og þar með öll raunspeki.
Í síðari hluta bókarinnar gerist hann æ dularfyllri og segir að þýðing (þ. Sinn, e. sense) heimsins sé handan hans enda séu gildi og .þar með gildismat handan hans (Wittgenstein 1922: 182–183 (§ 6.41–6.241).
Hann virðist hafa í huga „þýðingu“ í svipaðri merkingu og „tilgangur“ í „tilgangur lífsins“.
Mér sýnist sem Wittgenstein hafi haft siðferðilegt og estetískt gildismat í huga og litið svo á að þau séu mælikvarðar á fullkomna breytni og fegurð, ekki breytni og fegurð sem finna má í raunheimum.
Vísindaleg athugun á staðreyndum geti því ekki sagt okkur neitt um þýðingu heimsins. En það sé aðeins hægt að staðhæfa eitthvað um staðreyndir, um þýðingu heimsins sé ekkert hægt að segja, það verður að sýna, það birtist.
Wittgenstein greinir milli þess að sýna og segja. Þótt sönn staðhæfing deili röklegu formi með staðreyndunum sem hún fjallar um þá geti hún ekki gert grein fyrir því í hverju tengslin milli hennar og staðreyndanna sé.
Tengslin milli staðhæfinga og staðreynda verða á endanum ekki sögð (tjáð í staðhæfingum) heldur bara sýnd. Og rökfræðin sé sýningartækið (Wittgenstein 1922: 79 (§4.12–4.1212).
Athugið línurit sem sýnir þróun hita tiltekins sjúklings. Sé línuritið rétt þá deilir það röklegu formi með hita sjúklingsins. En við getum ekki tjáð formið sjálft í línuritinu, það er bara hægt að sýna það. Hið sama gildi um tengsl staðhæfinga og staðreynda.
Rökfræðin er sýningartækið og hún ásamt stærðfræðinni er handan heimsins að hyggju Wittgensteins. Rökleg sannindi ráðast ekki af staðreyndum.
Sýningarþátturinn vísar líklega út fyrir þá heild staðreynda sem heimurinn sé, vísi til handanheima, þar sem siðfræði, fagurfræði, rökfræði og stærðfræði búa.
Alla vega segir hann að hið dularfulla sé ekki hvernig heimurinn sé, heldur að hann sé (Wittgenstein 1922: 186–187 (§ 6.44).
Og sá sem skilji sig rétt skilji að orð hans séu án merkingar, þau beri að nota sem stiga og henda honum niður þegar upp er komið (spurt er: Hvert?) (Wittgenstein 1922: 188–189 (§ 6.54).
Í blálokin: „Um það sem ekkert er hægt að segja ber manni að þegja“ (Wittgenstein 1922: 188–189 (§ 7). Ef til vill sýna eitthvað þegjandi, íhuga það í þögn.
Finna má sérkennilega, ljóðræna hrynjandi í Tractatusi, því er engin furða þótt sumir vilja lesa ritið sem ljóð. Kannski það sé lógískt ljóð.
Ulysess eða hin nýi Oddiseifur
Ulysses er eitt af meginverkum módernismans eða nýstefnu í fagurbókmenntum. Sagan (eða söguleysan) gerist á einum degi í Dyflinni í byrjun tuttugustu aldarinnar.
Gyðingurinn Leopold Bloom er á leiðinni heim til sín á virkum degi og er ferðinni líkt við ferð Oddiseifs á heimleið um Miðjarðarhafið. Hið hverdagslega er mesta ævintýrið virðist höfundur segja.
En sagan er miklu flóknari en þetta, hún er full af útúrdúrum, lýst er vitundarflaumi (stream of consciousness) sumra persóna og er margt skrítið í þeim flaumi.
Hugmyndin um vitundarflaum er ættuð frá bandaríska heimspekingnum William James sem sagði hina verstu firru að við hugsuðum alltaf í heilum setningum, þvert á móti væri hugsunin einatt losaraleg og flæðiskennd.
Joyce reynir að lýsa þessu flæði og má ætla að hann hafi talið þær lýsingar raunsæislegar, lýsingar á hugsunin eins og hún eiginlega sé.
Svona hefst bókin: „Stately, plump Buck Mulligan came from the stairhead, bearing a bowl of lather on which a mirror and a raxor lay crossed“ (Joyce 1960: 9).
Fantavelskrifað en Buck Mulligan er einn æðimargra aukapersóna í bókinni. Molly, kona Blooms, er mikilvægari, hennar vitundarflaumur skiptir söguna miklu.
Waste Land eða eyðimörk nútímans
Eyðilandið, ljóðbálkur T.S.Eliots, er eitt af meginverkum þess sem Íslendingar kölluðu „atómkveðskap“ en er helst kenndur við módernisma:
"April is the cruellest month, breeding
Lilacs out of the dead land, mixing
Memory and desira, stirring
Dull roots with spring rain." (Eliot 1948: 51).
Hver mælir? Ljóðmælandinn, jafnvel Eliot sjálfur eða Marie, hin þýska frá Litháen sem nefnd er nokkrum línum síðar? Alltént er ljóðabálkurinn fjölradda og belgfullur af tilvísunum í allra handa bókmenntaverk, lagatexta og annað. Svo lítið eins og lög rappara.
Brugðið er upp napurri mynd af mannlífi og samfélagi. Örvænting, tilgangsleysi og firring eru meginstefin í veröld sem enn var í rústum eftir fyrri heimsstyrjöld.
Þó er gefið í skyn að lækningar megi vænta og þá helst í krafti trúar, hvort sem það er kristni eða búddasiður.
Lokaorð (fjölröddun)
Öll þrjú ritinu er fjölradda, í Ulysses heyrist rödd Mollyar af og til, stundum rödd annarra persóna, stundum rödd sögumanns.
Í Tractatusi talar fyrst rökfræðilegur raunspekingur, í lokin tekur dulhyggjumaður til máls.
Þessi fjölröddun gerir að verkum að ritin hafa enga gefna miðju, ekkert eitt stef eða boðskap.
Þau eru margræð enda einkenni módernismans að lesendur skuli taka þátt í sköpun verksins með sinni eigin túlkun. Mínar túlkanir á þessum verkum eru engan veginn sjálfsagðar.
Kannski lesendur hafi túlkað þau með öðrum hætti.
Heimildir:
Eliot, T.S. 1948: „The Waste Land“, í Selected Poems. London: Faber&Faber, bls . 51-74.
Joyce, James 1960: Ulysses. Harmondsworth: Penguin.
Wittgenstein, Ludwig 1922: Tractatus-Logico Philosophicus (þýð. C.K. Ogden). London: Routledge & Kegan Paul.
Rökfræðin er sýningartækið og hún ásamt stærðfræðinni er handan heimsins að hyggju Wittgensteins. Rökleg sannindi ráðast ekki af staðreyndum.
Sýningarþátturinn vísar líklega út fyrir þá heild staðreynda sem heimurinn sé, vísi til handanheima, þar sem siðfræði, fagurfræði, rökfræði og stærðfræði búa.