Þessi færsla er meira en ársgömul.

BANAÐ Í BANHEIA Enn um norræn sakamál og sitthvað um óritrýnda skruddu

Ég mun hefja mál mitt á að ræða nokkra dóma í  norskum morðmálum, dóma sem teknir hafa verið upp á ný. Svo mun ég bera þessi mál saman við G&G málið íslenska og benda á að bók Jóns Daníelssonar um málið er  óritrýnd og því tæpast marktæk.

Réttarhneyksli í Noregi

 Á dögunum afhjúpaðist eitt mesta réttarhneyksli í sögu Noregs, dómurinn yfir Viggo nokkrum Kristiansen sem dæmdur var fyrir að nauðga og myrða tvær barnungar stúlkur á stað sem heitir Banheia.

Annar maður (Jan Helge Andersen) hafði játað annað morðið en borið á Kristiansen að hafa banað hinni stúlkunni, hann hafi verið aðalsprautan í níðingsverkunum.

Rétturinn tók hann trúanlega þótt Kristiansen hefði harðneitað sekt. Erfðavísar komu við sögu og töldu þeir sem þá rannsökuðu víst að báðir piltarnir hefðu átt þátt í morðunum.

En síðar kom í ljós að rannsóknin var illa framkvæmd, að rannsakendur höfðu gefið sér að um tvo aðila væri að ræða (erfðafræðingum getur brugðist bogalistin eins og öðrum).

Einnig kom eitt og annað í ljós varðandi símanotkun Kristiansens.  Kristiansen hafði notað símann sinn á morðstund en ekki var hægt að nota gemsa á þessum afvikna stað þar sem ódæðið var framið.

Strákurinn hafði setið í 21 ár í fangelsi er honum var sleppt á dögunum. Eftir að hafa sótt fjórum sinnum um endurupptöku málsins og verið synjað þrisvar.

Þetta er ekki eina réttarhneykslið sem rætt er um Noregi. Annað var morðið á Birgittu Tengs árið 1995. Frændi hennar var handtekinn og játaði hann morðið eftir að hafa verið þrjár vikur í einangrun og áköfum yfirheyrslum.

Lögreglan er sögð hafa logið að honum, sagt að vitni hafi séð til hans á morðstað. Einnig að  oft gerðist að menn bældu minningar um ódæði sem þeir fremdu.

Fændinn hafa trúað og játað þess vegna, í sjónvarpi var hljóðupptaka frá réttarhöldunum þar sem hann segir grátklökkur að hann hafi framið ódæðið þótt hann myndi það ekki. Líklega hefði hann bælt minninguna um morðið.

 Síðan  dró hann játninguna tilbaka. Hann áfrýjaði málinu og var sýknaður á æðra dómstigi en samt dæmdur til að greiða fjölskyldu Tengs skaðabætur!!

Nýlega var maður handtekinn fyrir morðið  m.a. vegna þess að erfðavísar, sem fundust á stúlkunni, bentu til sektar hans. Tekið skal fram að ekki er búið að dæma í málinu, maðurinn harðneitar sekt.  Hann  telst saklaus uns sekt hans er sönnuð.

Lögreglan er sögð hafa á sínum tíma velt því fyrir sér hvort hann var sekur en komist að þeirri niðurstöðu að svo væri ekki. Það þótt hann hafi hvað eftir annað gert sig sekan um  kynferðislegt ofbeldi.

Hvað sem því líður var  búið eyðileggja líf frændans, rétt eins og líf Viggo Kristiansens. Frændinn og fjölskyldan sóttu um skaðabætur en rétturinn sagði nei. Réttarhneykslið var þar með fullkomnað.

Það er sem sagt víða pottur brotinn í réttarkerfum. En þrátt fyrir öll þessi mál dettur Norðmönnum ekki hug að búa til samsæriskenningar um þau.

Menn hafa bent á að á síðustu öld höfðu dóms- og lögregluyfirvöld á Vesturlöndum (að Íslandi meðtöldu) oftrú á játningum.

Væru sakborningar þreyttir með þrýstingi í intensívum yfirheyrslum myndu þeir fyrr eða síðar segja sannleikann, samanber frænda Birgittu Tengs.

Yfirheyrslur voru sem sagt játninga-miðaðar og hið sama gilti um dóma. Talið var að þótt sakborningur dragi játningu tilbaka þá gæti það fullt eins þýtt að hann reyndi að bjarga sínu eigin skinni.

Norskur sérfræðingur í þessum málum, Karl Asplund að nafni, skrifaði nýlega kjallaragrein í Aftenposten (Asplund 2022).

Hann segir að í Banheiamálinu hafi í yfirheyrslum verið beitt „minimaliseringsteknikk“. Hún felist í að búa til ramma þar sem sektin var borin á annan aðila  (Kristiansen) en þann sem yfirheyrður var (Andersen).

Yfirheyrendur bjuggu þannig í haginn fyrir að Andersen gæti lýst sjálfum sér sem fórnarlambi Kristiansens, sá hafi dekstrað hann til óhæfuverksins.

Asplund segir að þessi tækni hafi víða um lönd leitt til falsjátninga.

Til að koma í veg fyrir slíkt og draga úr oftrú á játningar hafi nýlega  verið samþykktar hinar alþjóðlegu Méndez meginreglur (e. Méndez principles) fyrir yfirheyrslum (Asplund 2022).

Vænisýki og G&G málið.

Víkur nú sögunni til hins vænisjúka Íslands og Guðmundar og Geirfinns  málsins.

Eins og Jón Daníelsson viðurkennir höfðu lögreglu- og dómsyfirvöld sömu oftrú á játningum og norsk starfssystkini þeirra, reyndar starfsystkini alls staðar á hnettinum.

Langvarandi einangrun og mikill þrýstingur í yfirheyrslum fengi  menn til að leysa frá skjóðunni (Jón Daníelsson 2016: 134–135).  

Mikilvægt atriði í Guðmundarmálinu voru eiðsvarin skýrsla Erlu  og játningar Sævars (Jón Daníelsson 2016: 28–29, 36). Svipað gilti um Geirfinnsmálið.

En nú telja ýmsir sérfræðingar með Gísla Guðjónsson í broddi fylkingar að það að þreyta sakborninga og halda þeim í einangrun geti haft þveröfug áhrif.

Þau áhrif að gerviminningar verði til í hugum þeirra og þeir játi þótt saklausir séu, samanber játning frændans í Tengsmálinu.

Köllum þetta „rangminningarkenninguna“, einn helsti talsmaður hennar er bandaríski sálfræðingurinn Elizabeth Loftus. Rangminnissinnar hafna bælingarkenningunni  (Loftus 2014/6).

Rangminningakenningin er ný af nálinni, menn vissu ekki á áttunda tug síðustu aldar að sá möguleiki væri fyrir hendi að yfirheyrslur gætu skapað rangminningar.

Dómarar voru að líkindum í góðri trú er þeir dæmdu sakborningana  í G&G málinu aðallega með tilvísun til játninga. Þar á meðal játninga Erlu sem hún dró ekki tilbaka fyrr en nokkru áður en Hæstaréttardómur féll.

Reyndar var Erla hvorki í einangrun né í fangelsi er hún undirritaði eiðsvarna skýrslu sína.  

En hún  segir í viðtali við norska blaðið Aftenposten að hún hafi verið í fæðingarþoku þegar hún játaði.  Í slíkri þoku hugsa konur ekki skýrt.  Hún var alla vega með barn á brjósti svo þetta kann að vera satt.

En skyldu rannsóknarlögreglumenn þeirra tíma hafa skilið slíkt? Taka ber fram að Erlu gæti hafa misminnt,  einnig gæti verið um að ræða gerviminningu. 

Hvað um það, samkvæmt rangminniskenningunni er minni okkar ekki upp á marga fiska og margt annað en intensívar yfirheyrslur geta skapað rangminni.

Ekki er hægt að útiloka að annars konar rangminni hafi orðið til í hugum sakborninga, þeir hafi verið sekir en minnt ranglega að þeir væru saklausir. En þetta eru hreinar vangaveltur, engar sannanir eru til fyrir þessu.

Nefna ber að rangminniskenningin er umdeild, sumir segja hana byggja á veikum reynslugrunni. Þeir hinir sömu segja einatt að gamla kenningin um bældar minningar sé í góðu lagi (sjá t.d. Cheit 1998: 141–160).

Þeir sem yfirheyrðu frændann í Tengsmálinu trúðu augljóslega á bælingarkenninguna.

Sé þessi kenning sönn má spyrja hvort sakborningar í G&G málinu hefðu  bælt óþægilegar minninga (aftur verður að minnast þess að ekki eru til neinar haldbærar sannanir fyrir því).

Um eðli minninga  deila hinir lærðu, ég hef enga ákveðna skoðun á málinu.

Víkjum aftur að Jóni Daníelssyni. Hann ber á Hæstaréttardómara að niðurstaða dómanna hafi verið fyrirfram ákveðnir (og þar með liður í samsæri)  en hefur engar sannanir fyrir máli sínu (Jón Daníelsson 2016: 210). 

Hann reynir ekki einu sinni að sanna það enda getur hann það ekki.

Hver tók ákvörðunina og hvenær? Jón hefur engin svör.

Hann má prísa sig sæla yfir því að dómararnir  séu allir dauðir, þeim hefði verið í lófa lagið að fá hann dæmdan fyrir meiðyrði.

Jón sér ekki að leggja verður fram sannanir fyrir því að samsæri eigi sér stað. Við höfum t.d. sannanir fyrir samsæri nasista gegn Gyðingum, heimildir (fundargerð) fyrir ákvarðanatöku nasista um þjóðarmorðið á þeim á Wannseeráðstefnunni 1942

(þegar ég tala um sannanir á ég ekki við alöruggar sannanir heldur sönnunargögn sem benda sterklega til sektar).

Einnig  upptöku af ræðu Himmlers þar sem hann talar beinum orðum um málið, nema sú upptaka hafi verið fölsun sem hún nánast örugglega ekki var (kannski telur einhver að fundargerðin sé fölsun).

Ekkert slíkt er fyrir hendi í G&G málinu.

Sé í lagi að setja fram samsæriskenningar án sannana eins og Jón virðist halda má fullt eins setja fram þá kenningu að skrif Jóns séu liður í samsæri (trúi ég því? Nei, ég hef engar sannanir fyrir þessu).

Þannig grefur hann undan eigin málflutningi.

Sennilegt er að sakborningar hafi verið saklausir en oftrú á játningar og getuleysi illa menntaðra rannsóknarlögreglumanna ollið því að þeir voru dæmdir (um reynslu- og menntunarleysi þeirra, sjá Jón Daníelsson 2016: 132–133. Honum er ekki alls varnað!).

Annars skal vísað til fyrri og mun ítarlegri skrifa minna um kver Jóns  en vil bæta einu við: 

Bók hans er ekki ritrýnd og þar af leiðandi ekki víst að hann fari rétt með. Sú staðreynd að bókin er ekki ritrýnd rýrir mjög gildi hennar.

Verkefni ritrýnis er m.a. að kanna hvort rétt er farið með heimildir í ritinu og engum heimildum er  sleppt. 

Þar eð bókin er óritrýnd höfum við enga tryggingu fyrir að Jón  vitni rétt í heimildir. Heldur ekki að hann hafi tekið tillit til allra heimilda sem máli skipta. Ekki ýtt til hliðar heimildum sem ekki töluðu máli hans.

Til að gera illt verra reynir hann ekki einu sinni að vitna í heimildir þegar hann hamast að sýna fram á að samsæri hafi verið gert gegn sakborningum.

Jón segir óskaplega hneykslaður að dómararnir hafi velt sönnunarbyrðinni á sakborninga í harðræðismálinu  (Jón Daníelsson 2016: 185–6). 

En hér opinberar hann ámátlega vanþekkingu sína á lögum, harðræðismálið var annað mál en G&G málið. Í harðræðismálinu voru sakborningar í G&G málinu ákærendur, lögreglumennirnir sakborningar.

Samkvæmt lögum hvílir sönnunarbyrðin á ákærendum, í þessu tilviki sakborningum í G&G málinu.

Ekki bætir úr skák þegar Jón rekur upp skaðræðisvein og ásakar dómarana 2018 fyrri hálfgildings spillingu vegna þess þeir dæmdu ekki löngu dauða Hæstaréttardómara (Jón 2018).

Það er ekkert í lögum sem kveður á um að hægt sé dæma dauða menn. Núverandi Hæstaréttardómarar hefðu hæglega getið fengið Jón dæmdan fyrir meiðyrði.  

Nú kann einhver að segja „klifar þú nokkuð mannfýla“, ég sé búinn skrifa of oft um þetta rit Jóns og norræn sakamál.

Því er til að svara að mér yfirsást að bókin er öldungis óritrýnd, þess utan hefur ýmislegt gerst í norskum sakamálum á síðustu vikum. Atburðir sem tengja má G&G málinu.

Mig langar að bæta einu við: Stéttagjammarar tala einatt eins og sakborningar hafi verið fulltrúar kúgaðrar alþýðu, dómararnir vondir yfirstéttamenn.

Vandinn er sá að a.m.k. tveir af Hæstaréttardómurunum voru aldir upp í mikilli fátækt og brutust til mennta. Þeir voru stéttbræður sakborninga!

Stéttgjömmurum væri nær að einbeita sér að raunverulegum stéttavanda, t.d. ofurveldi sægreifanna.

Lokaorð

Réttarhneyksli eiga sér stað víðar en á Fróni, meira að segja í hinum siðmenntaða Noregi hafa verið framin dómsmorð. En Norðmenn hafa heilbrigða skynsemi og skilja því að sjaldnast er ástæða til að ætla að samsæri hafi um vélt.

Það skilja ekki Íslendingar af vænisjúku gerðinni. Þeir skilja ekki að séu ekki til  sannanir fyrir samsærum eru samsæriskenningar einskis virði. Þess utan er lítið að marka óritrýndar bækur og greinar.

Oftrú á játningar og intensívar yfirheyrslur er rauði þráðurinn í dómsmálum frá síðustu öld, í Noregi,  á Íslandi og örugglega víðar á Vesturlöndum.

Menn vissu ekki að slíkar yfirheyrslur gætu leitt til þess að saklausir menn játuðu sekt sína. Nýjar reglur um yfirheyrslur, kenndar við Méndez, eru sjálfsagt til bóta.

Þetta verður vonandi það alsíðasta sem ég skrifa um G&G málið. Og síðasta færsla fyrir jól, ég óska lesendum gleðilegrar hátíðar.

Heimildir:

Asplund, Knut D. 2022: „Nye metoder for etterforskning og avhør vil kunne redusere risikoen for feil», Aftenposten 13/11.

The Banheia Murders  (Wikipedia) https://en.wikipedia.org/wiki/Baneheia_murders  Sótt 17/11 2022.

Cheit, Ross E. 1998: “Consider This, Skeptics of Recovered Memory“, Ethics & Behavior, 8:2, pp. 141–160.

East, Michael “Unsolved Mysteries: the Possible Serial Killing of Birgitte Tengs https://truecrimedetective.co.uk/unsolved-mysteries-the-possible-serial-killing-of-birgitte-tengs-11a1604c784 Sótt 17/11 2022

Jón Daníelsson 2016: Sá sem flýr undan dýri. Reykjavík: Mýrún.

Jón Daníelsson 2018: „Aumingjalegasta hænufet sögunnar“, Stundin 1 október, https://stundin.is/grein/7536/   Sótt 8/7 2019

Loftus,  Elizabeth 2014/2016: The Malleability of Memory. Open Agenda Publishing (Kindle útgáfa).

Principles of Effective Interviewing. The Méndez Principles. https://www.apt.ch/en/mendez-principles-effective-interviewing

Um fundinn á Wannsee https://en.wikipedia.org/wiki/Wannsee_Conference

Athugasemdir (2)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
 • KEG
  Kristján Einar Gíslason skrifaði
  Það er sama hvernig menn snúa uppá roðið með Erlu Bolladóttir , það breytir ekki þeirri staðreynd að rannsakendur í keflavík komu fyrstir með tenginguna við Magnús Leopoldsson og Klúbbmenn, fóru meira að segja með ljósmynd af honum til teiknara á Suðurnesjum sem síðan rataði á borð Leirfinnsgerðarinnar. Ég þekkti vel til þessa teiknara og lögreglumanna í Keflavík á þessum árum og það verður að segjast eins og er að erfitt er að finna upp svo lygilega atburðarrás að hún verði ekki toppuð með gjörðum þess liðs sem kom að frumrannsókn Geirfinnsmálsins.
  Að Erla Bolladóttir hafi loks fengið smáræðilega uppreisn æru af hendi íslenskra yfirvalda, það er jólagjöfin í ár fyrir mig, þótt ég þekki hana ekki neitt.
  Gleðilega hátíð Stefán og takk fyrir margar góðar greinar.
  0
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni