Þessi færsla er meira en ársgömul.

GERSKA ÆVINTÝRIÐ 2.0. Erna Ýr í austurvegi.

Á dögum Stalíns fór Halldór Kiljan Laxness til Moskvu að fylgjast með „réttarhöldum“ yfir fyrrum stórbolsévíkum.

Er ekki að orðlengja að hann kokgleypti sovéska áróðurinn, skildi ekki að réttarhöldin voru farsar, liður í hrikalegri kúgun og ofbeldi alræðisherrans.

Laxness sá Sovétríkin í rósrauðu ljósi en skildi  ekki að hann var blekktur af áróðursvél hins morðóða Stalíns.

Lofsöngurinn um Sovétríkin og ruglið um réttarhöldin birtust í bók hans Gerska ævintýrið. Skömmu síðar orti hann lofkvæði um  Kremlarbóndann Stalín:

„En nú er annar uppi

öld nýtur snilldarmanns,

það er líbblegur litur í túni

og laukur í garði hans.“

GerZka ævintýrið

Erna Ýr Öldudóttir hefur mér vitanlega ekki ort lofkvæði um Kremlarbóndann Pútín. Alltént  fór hún til hernumdu svæðanna í Úkraínu að „fylgjast“ með „kosningunum“ þar.

Er ekki að orðlengja að rétt eins og Laxness kokgleypti hún áróðri Moskvuvaldsins.

Hún fór til bæjar í hernumda hluta Donetsk-fylkis og mærði mjög  „kosningarnar“ um innlimun í Rússland.

Að hennar sögn var mikil stemning fyrir því að ganga í Rússland vegna tákna og slagorða á götum úti en borgin sé tómleg. En það gefur augaleið að sé hún tómleg er erfitt að ákvarða hvort mikil eða lítil stemning er meðal fólks.

Og kunni Erna Ýr  hvorki rússnesku né úkrainsku er hún tæpast fær um að ræða við fólk á þessum slóðum.

Eftir ölum sólarmerkjum að dæmi er einræði og harðræði á  hernumdu svæðunum. Væntanlega sér  hernámsliðið  um slagorð og hið faZíska Z tákn. Tala má um hið  gerZka ævintýri Ernu Ýrar.

Erna Ýr  virðist ekki skilja að bókstaflega ekkert bendir til þess að kosningarnar hafi verið lýðræðislegar:  

Í fyrsta lagi voru kosningarnar boðaðar með fáeinna daga fyrirvara og engin kosningabarátta var möguleg.

Í öðru  lagi voru kjörkassarnir gegnsæir þannig fylgjast mátti með því hvað menn kusu.

Í þriðja lagi er erfitt að sjá hvernig lýðræðislegar kosningar geta farið fram á svæðum þar sem stríð geisar.

Í fjórða lagi  fékk  sá mikli fjöldi,  sem flúði frá  þessum héröðum til hinna héraða Úkraínu,  ekki að kjósa.

Í fimmta lag fékk  hálfgildings Rússavinur, Júrí Bojkó,  í  fyrstu umferð forsetakosninganna í Úkraínu 2019 um 40% atkvæða í Donbass en undir 20% í Kherson og Zaporisisha  (Bojkó  var ekki meiri Rússavinur en svo að hann snerist eindregið gegn innrásinni).

Zelensky vann yfirburðasigur í öllum fylkjunum í síðari umferðinni.  Láta menn sér detta í hug að alger sinnaskipti hafi orðið á þremur árum, sérstaklega eftir að Rússar höfðu farið eyðandi eldi um héröðin?

Þetta bendir sterklega til þess að brögð hafi verið í tafli, að úrslít kosninganna hafi verið falsaðar. Atriði 1-5 ætti að vera nægjanleg sönnun þess að kosningarnar hafi ekki verið lýðræðislegar.

En fleiru má bæta við sem bendir í sömu átt: Í fjölmiðlum var sagt að  vopnaðir hermenn hafi farið  með gegnsæja kjörkassa hús úr húsi, nær má geta hvort auðvelt hafi verið að fylgjast með því hvað heimilismenn kusu.

Viðmælendur vestrænna fréttastofa staðhæfðu að fólki hafi verið hótað með atvinnumissi ef það kysi ekki rétt. Ég sé enga ástæðu til að véfengja það þar til annað sannara reynist.

Ástæðan er m.a. hefð  handlangara Pútíns fyrir kosningasvindli, margt bendir til þess að stórfellt svindl hafi átt sér stað í forseta  t forsetakosningunum 2012.

Væri stjórn hans svona vinsæl í héröðunum hernumdu má velta fyrir sér hvers vegna 92% stjórnenda á þessum svæðum eru frá Rússlandi, ekki innfæddir. Þetta staðhæfir alltént rússneska andófssíðan Meduza.  

Timothy Snyder segir að hópur ráðamanna  á þessum svæðum hafi viðurkennt að vera meðlimir rússnesku herleyniþjónustunnar GRU og rússneskir ríkisborgarar (Snyder 2018: 169).  

Reyndar má búast við því að allnokkur hluti íbúa Donbasssvæðana sé fylgjandi sameiningu við Rússland. Prófessor við Harvardháskóla, Serhyi Plokhy,  segir að skoðanakönnun fyrir 2014 hafi sýnt að 30% íbúanna voru fylgjandi því (Plokhy 2015).

Samkvæmt heimildum Sameinuðu þjóðanna frá 2017 höfðu 1.2 milljónir manna flúið frá Donbass til hins hluta Úkraínu, 600000 til Rússlands. Íbúarnir greiddu atkvæði með fótunum gegn innlimun en fengu ekki að kjósa í innlimunar-"kosningunum".

Um leið þýðir þessi landflótti að stór hluti þeirra sem eftir eru í Donbass eru að líkindum hliðhollir Rússum. Hið sama gildir líkast til  um Krímskagann.

En jafnvel þótt meirihluti þeirra, sem enn búa á þessum svæðum, séu fylgjandi innlimun í Rússland þá eru kosningarnar eftir sem áður ólýðræðislegar.

Lítill vafi er á að meirihluti Þjóðverja studdi Hitler árið 1936, samt var þjóðaratkvæðagreiðslan það ár ólýðræðisleg. Kjósendur gátu aðeins krossað við nafn Hitlers og öll gagnrýni var bönnuð.

  Samsæriskenningar

Nú kann Erna Ýr að segja að allt tal um einræði á hernumdu svæðunum, kosningasvindl  og yfirgang Rússa séu falsfréttir.

Staðhæfingar um fjöldamorð í Bútsjar og fleiri rússnesk ofbeldisverk séu bara falsfréttir og lygar.

En er líklegt að hver einasti blaðamaður,  sem var á þessum slóðum,  sé í því að ljúga um málið?

Þeim ber saman um þessi ofbeldisverk og önnur sem Rússar hafa drýgt, að viðbættu kosningasvindlinu. 

Væri ekki líklegt að a.m.k. einn slíkur sæi hér færi á að öðlast heimsfrægð með því að afhjúpa meintar lygar um ofbeldi Rússahers og harðræði á hernumdu svæðunum?

Eru allar sjónvarpsmyndir af þessum ofbeldisverkum falsaðar? Geta Pútínistar sannað það? Sönnunarbyrðin er þeirra. 

Önnur meginheimild um þessi ofbeldisverk og kúgun á hernumdu svæðunum  eru fórnarlömbin sjálf. Hvert á fætur öðrum vitna þau um ofbeldisverk Rússa í  sjónvarpi. Sé þetta fólk að ljúga þá er það meðal bestu leikara á jarðarkringlunni. 

Er líklegt að tugþúsundir Úkraínumanna séu leikarar í æðsta Óskarsklassa? (hér getur að líta  dæmi um slíkan  snilldarleik). Ekki vantar heldur að rústirnar leiki vel!

Fyrrum hermaður í innrásarhernum, Filatev að nafni, staðfestir það sem sagt hefur verið um gripdeildir og annan yfirgang rússneska hersins.

Og í bók Önnu Politkovskaju um Tséténu stríðið er sama mynd dregin upp af framferði Rússahers. Politkovskaja ferðaðist um Tséténu á stríðsárunum og lýsti því sem helvíti, helvíti sem Rússar báru ábyrgð á (Politkovskaja 2001).

Fyrir þessi skrif galt hún með lífi sínu, hún var myrt, vel mögulega af flugumönnum Pútíns. Hún tók sem sagt mikla áhættu með skrifum sínum um Tséténustríðið, er líklegt að hún logið um reynslu sína af því?

Hvað um það, Pútínistar grafa undan boðskap sínum: Ef falsfréttir eru svona útbreiddar þá eru miklar líkur á að rússneskar fréttir um að hér séu á ferðinni falsfréttir séu sjálfar falsfréttir! Eða að íslenskir Pútinistar  dreifi meðvitað falsfréttum og ljúgi, hver veit?

 Lokaorð

Karl Marx sagði að vissulega endurtæki sagan sig, fyrst væri hún harmleikur svo farsi. Skrif Laxness voru liður í harmleik. Skrif Ernu Ýrar eru farsakennd en um leið vitni um harmleik, harmleik manneskju sem lætur blekkjast af áróðri hins rúSSó-faZíska einræðis.

Heimildir:

 

Halldór Laxness 1949:  „Kremlbóndinn“, Kvæðakver. Reykjavík: Helgafell, bls. 97.

Plokhy, Serhij 2015: The Gates of Europe. A History of Ukraine. Harmondsworth: Penguin. 

Politkovskaja, Anna 2001:  En reise til helvete. En rapport fra krigen i Tsjetjenia. Ósló: Pax forlag.

Snyder, Timothy 2018: The Road to Unfreedom. Russia, Europe, America. New York: Tim Duggan Books.

Auk þess urmull af netheimildum. 

Athugasemdir (2)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
 • Ásgeir Överby skrifaði
  Halldór Laxness sagði að Stalín væri "með hærri mönnum". En Stalín var 165 cm! Það var Lenín líka en íbúar sovétríkjanna ímynduðu sér þá með hæðstu mönnum.
  1
  • SVS
   Stefán Valdemar Snævarr skrifaði
   Það er velþekkt að fólki sýnist valdamiklir menn vera hærri en þeir eiginlega eru.
   0
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni