Þessi færsla er meira en ársgömul.

Skattar, fortíð og uppruni auðs

Frjálshyggjumenn tala einatt um skattheimtu sem e.k. rán, það gerir t.d. William Irwin í bók sinni The Free Market Existentialist.

En forsenda þeirrar hyggju er sú að sérhver einstaklingur sé uppsprettulind  alls þess sem hann þénar og á, nema sá auður sem honum áskotnast vegna frjálsra samninga við aðra.

Þetta er alrangt, allar tekjur og auður eiga sér margar og miklar rætur í starfsemi milljóna manna í nútíð og ekki síst fortíð.

Ég hyggst hér beina sjónum mínum að fortíðinni: Hefðu steinaldarmenn ekki fundið upp á akuryrkju væri nútímafólk mun fátækara en ella.

Hefðu trúarfrömuðir fortíðarinnar ekki boðað að vinnusemi væri Guði þóknanleg væri heimur nútímans snöggtum verr stæður en hann er nú.

Hið sama væri uppi á teningnum  ef milljónir foreldra fyrri tíma  hefðu ekki alið börn sín upp í heiðarleika og vinnusemi.

Og ef milljónir bænda og verkamanna liðinna  alda hefðu ekki unnið af samviskusemi og dugnaði.

Og ef ekki hefði notið snjallra athafnamanna og dugmikilla atvinnurekennda. Og hugkvæmra uppfinningamanna.

Hefði Thomas Alva Edison ekki fundið ljósperuna upp værum við öllu fátækari en við erum nú.

Hefði Einstein ekki sett fram almennu afstæðiskenninguna væru ekki til GPS tæki en þau auðga vafalaust nútímafólk.

Fólk nútímans hefur auðgast á þessum afrekum milljóna löngu dauðra  manna  og það án þess að hafa gert frjálsa samninga við þá.

Það er ögn erfitt að semja við löngu dautt fólk.

Kannski má líta á þann auð sem fólk fortíðarinnar skóp sem fé án hirðis og telja rétt að ríkið geti nýtt sér það fé með skattheimtu, það er að segja svo fremi ríkisvaldið sé lýðræðislegt og sæmilega siðmenntað.

Þá væri afskaplega erfitt að halda því fram að ríkið rændi menn. Sú kenning er vond af öðrum ástæðum sem ég hef þegar rætt í bloggi og nenni ekki að endurtaka  (sjá hér).

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni