Þessi færsla er meira en ársgömul.

Kristrún F, frelsaraformúlan og samvinnan

                                                                      "Don't follow leaders

                                                                         watch parking meters"

                                                                           Bob Dylan

Alltof margir Íslendingar hneigjast til að dýrka stjórnmálaforingja sem þeir halda að séu frelsarar. Þeir muni bjarga öllu. Minnast má þess að bæði Davíð Oddsson og Sigmundur Davíð voru á sínum tíma dýrkaðir sem frelsarar. Svo kom allt annað hljóð í strokkinn.

Kristrún Frostadóttir er nú dýrkuð af mörgum, hún er þeim hinn eini sanni pólitíski frelsari. En þeir athuga ekki að lítil reynsla er kominn af stjórnmálastarfi hennar. Hún hefur aðeins setið eitt ár á þingi og verið flokksformaður í fáeina mánuði.

Ekki þar fyrir að hún er margs góðs makleg, rökföst og fylgin sér. Ég var sérstaklega ánægður með þá áherslu sem hún lagði í ræðu á mikilvægi samvinnu.

Samvinnuskortur er einn helsti þjóðarlöstur Íslendinga. Þeir geta  ekki einu sinni unnið saman í umferðinni heldur frekjast og svína hver á öðrum með þeim afleiðingum að allir tapa.

Norska samvinnan

Þeir gætu lært margt  af hinum tillitsömu Norðmönnum. Líffræðingurinn David Sloan Wilson segir að hæfni Norðmanna til samvinnu og traust þeirra hver á öðrum sé lykillinn að efnahagslegir velgengni þeirra.

Þessa kenningu megi efla þróunarlíffræðilegum rökum, lífverur sem vinna saman með þessum hætti hafi að jafnaði forskot fram yfir aðrar lífverur (Sloan Wilson og Hessen 2014).

Hvað traust varðar þá segir hagfræðingurinn Alexander Cappelen að gagnkvæmt traust sé helsta auðlind Noregs. Ef  Rússar treystu hver öðrum jafn mikið þá væru þeir 70-80% ríkari en þeir eru í dag (Cappelen 2014).

Þetta gagnkvæma traust hafi gert olíusjóðinn mögulegan, í stað þess að heimta peningana strax séu Norðmenn tilbúnir til að spara fyrir komandi kynslóðir (Íslendingar hefðu heimtað féð strax í gær).

Ein meginskýring traustsins og samvinnunnar sé hin tiltölulega mikli efnahagslegi jöfnuður, Norðmönnum finnist þeir vera í sama báti. Þeir myndu tæpast hugsa þannig ef hinir ríku væru miklu ríkari en meðaljón, þá lifðu þeir ríku og hinir fátæku hvor í sínum heimi.

Ég vil bæta einu við um þróunarlíffræði: Í dýraríkinu getur eiginleiki sem er kostur í lífsbaráttunni á einu tímaskeiði breyst í ókost á öðru tímaskeiði.

Hinir risavöxnu írsku hirtir höfðu mjög stór horn, þeir sem stærstu hornin höfðu fjölguðu sér meira en aðrir og unnu því sigur í lífsbaráttunni.

En þetta leiddi til þess að smám saman urðu hornin svo stór að þeir gátu vart borið þau. Afleiðingin varð sú að dýrategund þessi dó út. Að breyttu breytanda er traust Norðmanna mikil auðlind á margan hátt en getur verið skaðvænlegt  fari  traustið úr böndum.

Alla vega er mín reynsla af Norðmönnum sú að þeim hættir til oftrausts.

Lokaorð

Íslendingar þyrftu að læra þá eðlu list að vinna saman. Án þess að gleyma því að ekkert er einhlítt í þeim táradal,  sem mannskepnan byggir,  engin ein gefin formúla fyrir því hvernig leysa eigi efnahags- og samfélagsvanda.

Ekki einu sinni samvinnuformúlan, hvað þá  frelsaraformúlan.

 

Heimildir:

Cappelen, Alexander 2014: “Høy tillit er god økonomi», viðtal í Aftenposten 15 september.

https://www.aftenposten.no/okonomi/i/oQmK/hoey-tillit-er-god-oekonomi  Sótt 29/10 2022.

Sloan Wilson, David og Hessen, Dag 2014: „A Blueprint for the Global Village“, Ciodynamics 5 (1), https://escholarship.org/uc/item/6xw505xh Sótt 29/10 2022.

 

Athugasemdir (4)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
 • Örn Bárður Jónsson skrifaði
  Vel mælt. Við getum margt lært af Norðmönnum.
  0
 • SSS
  Sigurjón Smári Sverrisson skrifaði
  Þetta stendur upp úr í þessu fína bloggi.
  "Samvinnuskortur er einn helsti þjóðarlöstur Íslendinga. Þeir geta ekki einu sinni unnið saman í umferðinni heldur frekjast og svína hver á öðrum með þeim afleiðingum að allir tapa."
  Og
  "Þeir gætu lært margt af hinum tillitsömu Norðmönnum. Líffræðingurinn David Sloan Wilson segir að hæfni Norðmanna til samvinnu og traust þeirra hver á öðrum sé lykillinn að efnahagslegir velgengni þeirra."
  0
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni