Þessi færsla er meira en 2 ára gömul.

Kolbrún B og frelsið

Kolbrún Bergþórsdóttir gerist Heimdallarmælt í nýjum Fréttablaðspistli, vegsamar Brynjar Níelsson og Sigríði Andersen fyrir fylgisspekt við einstaklingsfrelsi („Prófkjör“ 10/6 2021).

En hvers vegna láist þeim tveimur þá að verja frelsi manna til róa til fiskjar, frelsi annarra en sægreifanna? Hvað segir frelsisunnandinn Kolbrún um það?

Frelsiskenningar.

Ekki kemur fram í pistlinum hvað Kolbrún eigi við með „einstaklingsfrelsi“. Á hún við það sem breski heimspekingurinn Isiaha Berlin kallaði „neikvætt frelsi“ eða það sem hann kallaði „jákvætt frelsi“?

“Jákvætt frelsi” sé ”frelsi til að framkvæma”. Það kallast líka “getufrelsi”, menn njóta getufrelsis svo fremi þeir hafi mátt til framkvæmda, séu sjálfráðir, njóti einhvers konar viljafrelsis.

 “Neikvætt frelsi” sé einfaldlega “það að vera laus við óumbeðin afskipti annarra”, frelsi er ekkert annað en fjarvera þvingana, frelsi frá einhverju.

Fylgjendur kenningarinnar um neikvætt frelsi segja að við séum frjáls þá og því aðeins að aðrir hindri okkur ekki í að gera það sem okkur sýnist, svo fremi við skerðum ekki frelsi annarra.

Frelsi sé  fólgið í því að fá að vera í friði, vilji menn það á annað borð, því meira svigrúm sem einstaklingurinn hefur því frjálsari er hann (Berlin 1994: 157-168).

Frjálshyggjumenn eru yfirleitt þeirrar skoðunar að frelsi hljóti að vera neikvætt. Ef ríki skiptir sér ekki af högum manna þá sé allt í góðu lagi og allir svaka frjálsir.

En sagnfræðingurinn Yuval Noah Harari segir að þrælabusiness Vesturlanda hafi verið með allra markaðsfrjálsasta lagi, samt þýddu þessi andstyggilegu viðskipti að milljónir manan voru sviptir frelsi og lífi (Harari 2014: 169-170).

Harari kann að vera undir áhrifum frá  sagnfræðingnum  Hugh Thomas,  sem skrifaði fræga bók um vestræna  þrælasölu. Hann  segir að aðstandendur hennar hafi komist að þeirri niðurstöðu að  þrælasala væri hagkvæmust ef einkaframtakið fengi að njóta sín og ríkisvaldið skipti sér sem minnst af þrælaviðskiptum (Thomas 2006: 290-291).

Markaðsfrelsi er því ekki örugg ávísun á almennt frelsi þótt stundum sé rétt að verja frelsi markaðarins. Það er alltént ekki rétt að setja jafnaðarmerki milli einstaklingsfrelsis og markaðsfrelsis í Heimdallarstílnum, svo  einfalt er málið ekki.

Nú kann einhver að malda í móinn og segja að samfélag þrælahalds geti ekki verið markaðsfrjálst samfélagi þar eð ekki allir séu frjálsir. Við því vil ég svara að ekki er hægt að gefa sér fyrirfram að markaðsfrelsi og þrælhald geti ekki farið saman.

Það er jafn vitlaust og að neita því að Sovétríkin hafi verið sósíalískt samfélag á þeim forsendum að sósíalískt samfélag sé samkvæmt skilgreiningu samfélag þar sem alþýðan hefði völdin en það hafði hún ekki í Sovét. 

Ýmsar útgáfur.

Áfram með smjörið: Til eru ýmsar útgáfur af hvorttveggja jákvæðu sem neikvæðu frelsi. Kristján heimspekingur Kristjánsson er einn mikilvægasti fulltrúi hinnar svonefndu ábyrgðarkenningar um frelsi (e. the social responsibility view).

Fylgjendur hennar  telja að frelsi hljóti að vera neikvætt en skilgreina ”tálmanir” eða ”frelsishömlur” öllu víðar en frjálshyggjumenn. Hafi foreldrar alið börn sín upp í undirgefni þá hafa þau hindrað börnin í að standa á rétti sínum. Foreldrarnir bera ábyrgð á ófrelsi barnanna en ófrelsið er neikvætt (Kristján 1992: 5-18).

Ekki skal dæmt hvort Kristjáni líki eftirfarandi dæmi: Hvítir menn í Norður-Ameríku reyndu að gera frumbyggjana til að draga úr mótþróa þeirra gegn yfirgangi hvítingjanna (samkvæmt t.d. Zinn 2003: 125-148). Hvítingjar báru þar með ábyrgð á aukinni áfengissýki meðal frumbyggjanna.

Nóbelshagfræðingurinn indverski, Amartya Sen segir að þótt neikvætt frelsi sé mikilvægt þá sé það lítils virði án hins jákvæða. Honum er reyndar tamt að kalla jákvætt frelsi ”inntaksríkt frelsi” (e. substantive freedom).

Það er sem sagt ekki bara formlegur réttur sem menn geti kannski ekki hagnýtt sér heldur felist það í getu, hæfni og möguleikum manna (e. capabililites).

Til þess að teljast fyllilega frjálsir verði  menn að hafa getu, hæfni og möguleika til að velja  lífsmáta sem þeim hugnast. Lágmarksmenntun, aðgangur að heilbrigðisþjónustu o.s.frv. eru meðal þess sem gerir mönnum kleift að ná þessu markmiði (t.d. Sen 1999: 282-298).

Sen talar sem sagt máli einhvers konar jafnaðarstefnu.

Frelsið og gildismatið

Heimspekingurinn Charles Taylor gagnrýnir hugmyndina um neikvætt frelsi. Í reynd sé fjöldi tálmana á athöfnum okkar óendanlegur en gildismat ræður hverjar við teljum mikilvægar.

Í Bretlandi eru kannski fleiri umferðarljós en í Norður-Kóreu og því fleira sem hindrar frjálsar gönguferðir. En við teljum samt Bretland miklu frjálsara land en Norður-Kóreu m.a. vegna þess að við metum trúar- og tjáningarfrelsi meir en göngufrelsi (Taylor 1996: 211-229).

Ég vil bæta við að strangt tekið fylgja boð og bönn öllu neikvæðu frelsi. Menn geta ekki verið frjálsir að ráðstafa eigum sínum nema að öðrum sé bannað að sýsla með þær án leyfis eigenda. Vegna einkaeignarréttarins eru gífurlega margar athafnir bannaðar.

En flest okkar telja eignaréttinn það mikilvægan að slík bönn eigi rétt á sér. Þetta þýðir að það að vera frelsissinni (alla vega í neikvæða skilningnum) er ekki bara spurning um að vera á móti bönnum heldur spurning um að vera andsnúinn vissum bönnum en fylgjandi öðrum. 

Spurningin um gildismat sést glögglega í deilum um frjálsar fóstureyðingar. Þeir sem fylgja þeim telja rétt konunnar til að ráða eigin líkama mikilvægari en réttur fóstursins til lífs. Andstæðingar hafa þveröfugt gildismat. 

Frelsi sem forræðuleysi.

Hvað um það, enn einn heimspekingurinn, Írinn Philip Pettit,  segir að frelsi rétt skilið sé frelsi undan forræði (e. liberty as non-domination) (Pettit 1997). Menn geti lifað lífi sínu  óáreittir en samt verið upp á náð annarra manna komnir.

Þeir síðastnefndu gætu hafa látið geðþótta sinn ráða er þeir afréðu að láta mennina í friði og gera þá þannig frjálsa að hætti frjálshyggjunnar (frjálshyggjumenn segja menn frjálsa ef enginn treður þeim um tær).

En þessir menn séu ekki raunverulega frjálsir því afskiptaleysið sem þeir búa við sé skilyrt (e. contingent), tilviljunum undirorpið. Það vildi einfaldlega svo til að ákveðnir einstaklingar ákváðu að láta þá í friði. Þeir lúti forræði þessara einstaklinga, þeir séu upp á náð þeirra komnir og frelsi þeirra sé því takmarkað.

Þetta þýðir m.a. að menn geti ekki verið frjálsir í einræðisríki, gagnstætt því sem frjálshyggjumenn halda. Þótt einræðisherrann leyfi þegnum sínum allra náðarsamlegast að valsa frjálsir um þá lúta þeir eftir sem áður forræði hans.

Kona sem býr í karlveldi gæti verið nógu útsjónarsöm til að koma í veg fyrir afskipti annarra eða svo heppin að vera gift góðum manni. Frelsi konunnar sé samt ófullkomið. Menn geti nefnilega ekki verið fyllilega frjálsir nema þeir séu gulltryggðir fyrir geðþóttakenndum afskiptum, segir Pettit.

Til dæmis voru Íslendingar á útrásarárunum vart gulltryggðir fyrir afskiptum stórauðvaldsins sem hafði hreðjatak á efnahagslífinu. Stórfyrirtækin hefðu getað hótað að flytja starfsemi sína til annarra landa ef ríkisstjórnin hefði ekki gert það sem þau buðu. Í dag hafa sægreifarnir sömu hreðjatök á samfélaginu.

Minn uppáhalds milljarðamæringur, George Soros segir um að nú (árið 1997) sé auðvaldið helsti ógnvaldur hins opna, frjálsa samfélags, ekki kommúnistar og nasistar (Soros 1997: 49-58).

En þetta var skrifað fyrir tæpum aldarfjórðungi, all mikið vatn er til sjávar runnið.  Auðvaldið er vissulega enn ógnvaldur frelsis en trumpískir hægriöfgamenn (sumir líklega auðvaldstengdir), öfgaíslamistar og ofstopafullir rétthugsendur eru nú orðnir hættulegir frelsisfjendur.

Frelsið er margþætt.

Af því sem hér segir má sjá að frjálshyggjumenn eiga engan einkarétt á frelsinu þótt þeim hafi með stöðugum áróðri tekist að fá drjúgan hluta þjóðarinnar til að trúa því.

Kolbrún kvartar yfir því að vinstrimenn séu ekki ýkja uppveðraðir yfir frelsi en skilur kannski ekki að þeir skilja frelsi með öðrum hætti en frjálshyggjumenn. Þeir skilja það líkast til  með sama  eða svipuðum hætti og Sen, Kristján, Taylor  og/eða Pettit.

Frelsi er margþætt  og margrætt hugtaka sem beita verður með varúð. Er samkomubann á drepsóttartímum frelsisskerðing eða nauðsynleg ráðstöfun til að vernda frelsi manna gegn  sjúkdómum?

Er frelsi skert ef skólakerfið er ekki að mestu einkarekið eða kemur opinbert skólakerfi í veg fyrir aukna stéttskiptingu og þar með minna frelsi hinna verst stæðu? Eru frjálsar fóstureyðingar raunverulegt frelsi eða skerðing á frelsisréttindum fóstra?

Salomónsdómur minn er sá að gildismat ráði mestu um svör við þessum spurningum.

Auk þess verður að beita upplýstri dómgreind, hún felst í skynsamlegri beitingu þumalfingursreglna. Sú dómgreind getur ekki veitt okkur pottþétt svör en kannski kennt okkur að forðast verstu rökvillurnar.

Einnig er dómur minn sá að hinn eini sanni frelsisskilningur sé ekki mögulegur en læra megi af þeim fræðimönnum sem hér eru nefndir (og mörgum öðrum) (sjá nánari umfjöllun um frelsishugtakið Stefán Snævarr  2011: 161-189).

Undir vissum kringumstæðum er rétt að verja neikvætt frelsi að hætti frjálshyggju, stundum leggja áherslu á félagslega ábyrgð, stundum á getufrelsi og stundum á  forræðisleysi. Gildismatið ræður miklu. 

Stundum er ríkið helsti ógnvaldur frelsisins, stundum einkaframtakið og markaðurinn. „Öllu er afmörkuð stund“ segir í helgri bók.

Lokaorð (lifi lágmörkun!)

Í stað þess að rembast við að verða sér út um hina einu sönnu stjórnmálaskoðun gætu  menn stundum raðað  skoðunum eftir ágæti þeirra og stunda heilbrigða hentistefnu (en stundum er rétt að taka einarða afstöðu).

Ég hef mælt með lágmörkun ídeólógíska þáttarins í pólitískum skoðunum. En lágmörkun er ekki stefnumörkun.

Alla vega er engin ástæða til að tala um frelsi í Heimdallarslagorðastíl.

 

Heimildir

Berlin, Isiaha 1994:  "Tvö hugtök um frelsi” (þýðandi Róbert Víðir Gunnarsson), í Einar Logi Vignisson og Ólafur Páll Jónsson: Heimspeki á tuttugustu öld. Heimskringla: Reykjavík, bls. 157-168.

Harari, Yuval Noah 2014: Sapiens. A Brief History of Humankind. London Vintage Books.

Kristján Kristjánsson 1992: “Sendibréf um frelsi”, Hugur, 5 ár, Bls. 5-18.

Philipp Pettit (1997): Republicanism. A Theory of Freedom and Government. Oxford: Oxford University Press.

Sen, Amartya K.  1999: Development as Freedom. Oxford: Clarendon Press.

 Soros, George 1997:  "The Capitalist Threat", The Atlantic Monthly, Vol 279, nr. 2, bls. 49-58.

Stefán Snævarr 2011: Kredda í kreppu. Frjálshyggjan og móteitrið gegn henni. Reykjavik: Heimskringla.

Taylor, Charles 1996: "What's Wrong With Negative Liberty?", í Philosophical Papers 2. Cambridge: Cambridge University Press. 

Thomas, Hugh  2006: The Slave Trade. The History of the Atlantic Slave Trade1440-1870. London. Phoenix.

Zinn, Howard 2003: A People’s History of the United States. 1492- present. New York: HarperCollins Publishers.

 

 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu