„Þetta er auðvitað mál sem við verðum að skoða frá öllum hliðum áður en ráðist verður í aðgerðir og stefnan hlýtur að vera að finna lendingu sem hugnast öllum, eða í það minnsta sem flestum. Reynslan sýnir okkur að ef rétt er á málum haldið ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að stöðugleiki náist. Ef við berum okkur saman við nágrannalöndin kemur bersýnilega í ljós að við höfum verið á réttri leið undanfarin misseri og ár, en betur má ef duga skal. Það verður auðvitað að segjast að hin þverpólitíska samstaða sem við stefndum að á sínum tíma hefði hjálpað okkur við úrvinnsluna á þessum málum en við höldum að sjálfsögðu bara áfram að sinna því góða verki sem þegar hefur unnist. Að halda því fram að við höfum með einhverju móti séð okkur hag í að tefja framkvæmdir eða seinka ferð þess í gegnum þingið er ekkert annað en fráleitt og í raun ómögulegt að sjá hvernig okkur hefði átt að verða einhver hagur af því. Við viljum þvert á móti, rétt eins og landsmenn allir, flýta fyrir framgangi málsins svo allir geti fengið sitt.
Það er okkar stefna að málið komi úr nefnd ekki síðar en á þriðja ársfjórðungi og í framhaldi af því verður útkoman kynnt opinberlega og síðan tekin til kastanna í viðeigandi ráðuneyti ef allar forsendur standast. Það er ekkert launungarmál að margir hafa misst spón úr aski sínum síðustu ár og áratugi vegna misræmis í reglugerðum og þetta er eitthvað sem við höfum lengi barist fyrir að leiðrétta. Nú sjáum við loksins lausn í sjónmáli og unum okkur ekki hvíldar fyrr en við náum þessu takmarki. Ég hef alltaf sagt það að við sem þjóð eigum að nýta okkur tækifærin sem standa okkur svo nærri í þessum málaflokki og þá er það mannauðurinn sem mestu máli skiptir. Hagsmunir einstakra einstaklinga er svo bara eitthvað sem við verðum að skoða þegar fram líður en það er mín einlæga trú að við komum sterkari út úr þessu á endanum. Við höfum nú þegar farið gegnum ansi mörg mögur ár og þurft að eiga við hluti sem mörgum hafa þótt ósanngjarnir, en með gengi krónunnar eins og það var á þessum tíma, gjaldeyrishöft og lífeyriskröfur verður að segjast að okkur hefur gengið vel að greiða niður þær skuldir. Ef við berum tölur dagsins í dag saman við ástandið fyrir fjórum árum kemur í ljós að við erum á mjög góðu róli og ekkert sem bendir til þess að það eigi eftir að breytast. Allar spár sérfræðinga endurspegla þessa skoðun mína og þar með sjáum við það í hendi okkar að geta borgað niður skuldir mun hraðar en áður.
„Það er okkar stefna að málið komi úr nefnd ekki síðar en á þriðja ársfjórðungi og í framhaldi af því verður útkoman kynnt opinberlega“
Það er nú einu sinni svo að ástandið hefur ekki verið betra frá því að samningurinn var undirritaður og þó hafa forsendur gjörbreyst frá þáverandi mynd hans. Það sem stendur upp úr er árangurinn sem hin þrotlausa vinna síðustu vikna er nú að skila og í raun ótrúlegt að fólk hafi leyft sér að draga orð okkar í efa þegar frumvarpið kom fyrst fram. Eiginfjárstaða og eignamyndun er vitanlega tvennt ólíkt en þó er ekki loku fyrir það skotið að annað styðji við hitt og við verðum að vera undir það búin. Vísitölukostnaður framfærsluáætlana bætist svo ofan á þetta allt saman og þá horfum við á það vandamál að núverandi spár gera ekki ráð fyrir skattaívilnunum erlendra fjárfestingabanka. Þegar allt er talið má því gera ráð fyrir gríðarlegri þenslu verið ekki gripið til aðgerða. Það er okkar að grípa í taumana og morgunljóst að þáverandi ráðamenn vogunarsjóða sváfu hreinilega á verðinum. Það er gríðarlega mikilvægt að við lærum af reynslunni og látum þetta ekki endurtaka sig. Varðandi tímann sem þetta tekur þurfum við að passa okkur að fara okkur ekki of hratt en þó er einnig varhugavert að bíða of lengi. Við höfum nú þegar náð árangri á öðrum sviðum, bæði á sviði velferðarmála og ekki síður í menntakerfinu. Þegar allt þetta kemur saman hljótum við þess vegna að sjá í hendi okkar að áhættan er mun minni en ávinningurinn. Við vöruðum við nákvæmlega þessu á miðju síðasta kjörtímabili en á það var ekki hlustað. Í dag erum við að súpa seyðið af því.
Markmið okkar í þessu máli hefur alltaf verið skýrt: Að minnka álagið á heimilin í landinu og færa skuldabyrðina yfir á fleiri hendur. Þær breytingar sem urðu á umsýslukerfinu við síðustu yfirferð sjóðanna var ef til vill til einhverra bóta en hér verður að ganga lengra. Og þá meina ég mun lengra. Það þýðir ekki að sýna linkind þegar við ætlum að rétta skútuna við og auðvitað er ljóst að við verðum að skera niður á einhverjum sviðum. Við erum þess þó fullviss að með þessum aðgerðum eigi færri eftir að finna fyrir niðurskurðinum og þar koma til hinar arðtengdu bætur sem fylgdu kjarasamningi síðasta tímabils. Nú, fari svo að gengið styrkist höfum við þá nægan tíma til að taka í taumana og veita þá fjármagninu inn í kaupmáttarsjóðina, styrkja þar með vísitölur og gefa eftir vaxtabætur og verga landsframleiðslu. Það er ekki langt síðan að iðnaðurinn þurfti sjálfur að standa straum af kostnaði ríkisbréfa af þessu tagi en það er eitthvað sem við breyttum með lagasetningu núna í vor. Við viljum gera það sama núna með aflandsstuðulinn og þar með gengur þessi þróun til baka. Takk.“
Þetta er auðvitað allt saman helbert kjaftæði, en við vissum það nú svo sem.
Athugasemdir