Stöð 2 misbauð mér í kvöld með ósvífnum hætti. Ég veit ekki hvað fréttastofunni og Íslandi í dag gekk til, en það er hvorki siðlegt né til eftirbreytni.
Bankaræningjar voru dæmdir í fangelsi, dómurinn var svo harðorður og afdráttarlaus að annað eins hafði ekki sést hér á landi. Einbeittur brotavilji, þaulskipulögð svikamylla og ótalmargir misstu aleiguna. Í hæstaréttardómnum sagði meðal annars:
„Háttsemi ákærðu... fól í sér alvarlegt trúnaðarbrot gagnvart stóru almenningshlutafélagi og leiddi til stórfellds fjártjóns.“
og...
„Brotin [...] beindust í senn að öllum almenningi og fjármálamarkaðinum hér á landi í heild og verður tjónið sem leiddi af þeim beint og óbeint ekki metið til fjár.“
og...
„Þessi brot voru stórum alvarlegri en nokkur dæmi verða fundin um í íslenskri dómaframkvæmd varðandi efnahagsbrot.“
og...
„[Brotin] voru þauskipulögð, drýgð af einbeittum ásetningi og eindæma ófyrirleitni og skeytingarleysi.“
Þarna sátu þrír af fjórum brotamönnum og tjáðu sig um hvað þeir ættu bágt, einn talaði um börnin sín og allir voru sannfærðir um sakleysi sitt. Sögðust ekki hafa verið dæmdir eftir „alvöru lögum“. Mennirnir sem rændu Ísland og eiga að öllum líkindum milljarða í skattaskjólum. Og - ef ég man rétt - hafa verið dæmdir fyrir fleiri glæpi. Ekki vottaði fyrir neins konar iðrun. Engri.
Fréttamaðurinn spurði svo leiðandi spurninga að ég hrökk hvað eftir annað í kút. Hann lagði föngunum til skoðanir og tilfinningar og spurði svo „er það ekki?“ Brotamennirnir voru að sjálfsögðu sammála fréttamanninum, sem mærði þá og vitsmuni þeirra eftir viðtalið. Var þetta erindi Jóns Ásgeirs þegar hann heimsótti þá nýverið?
Og ég segi bara guði sé lof fyrir Ríkisútvarpið - almannaútvarpið og -sjónvarpið okkar allra. Getið þið ímyndað ykkur fréttirnar sem við fengjum ef Þjóðarútvarpið/sjónvarpið væri markaðsvætt og undir hæl auðmanna?
Pistill Láru Hönnu birtist á Facebook-síðu hennar í gær og er hér endurbirtur.
Athugasemdir