Í alheiminum eru svo margar sólir og svo margar reikistjörnur að ég gæti klippt út töluna einn og stungið í stóran eldspýtnastokk og svo fyllt hann af núllum og samt væri ég ekki einu sinni kominn nálægt hinni réttu tölu.
Það segir sig sjálft að í öllum þessum grúa hlýtur líf að leynast á ansi mörgum reikistjörnum, þótt þeir séu til sem enn vilja trúa því að við séum einu lífverurnar í alheiminum.
Það er fáránleg hugmynd - því ekki aðeins er fjöldi reikistjarna svo mikill að tölfræðilega væri ómögulegt að líf hefði ekki kviknað á einhverjum X fjölda þeirra, heldur hefur líf þróast við svo ólíkar og erfiðar aðstæður á jörðinni að það væri kjánalegt að trúa því að líf gæti ekki kviknað annars staðar líka.
Og raunar aukast nú smátt og smátt líkurnar á því að líf kunni jafnvel að hafa þróast á öðrum hnöttum hér í okkar sólkerfi. Það mundi enginn detta af stólnum sínum af undrun ef það fyndust örsmáar örverur oní jarðveginum á Mars.
Og ýmislegt bendir til þess að í undirdjúpum íshafsins sem umlykur tunglið Evrópu við Júpíter sé ekki óhugsandi að finna líf.
En nú hafa vaknað hugmyndir um að líf kunni jafnvel að hafa kviknað á enn einum stað í sólkerfinu.
Á Venusi.
Venus er önnur reikistjarnan frá sólinni okkar, eins og allir vita. Hún er ögn minni en Jörðin og hulin þykku skýjakófi. Hitinn á yfirborði Venusar er að meðaltali 462 gráður og andrúmsloftið er þykk kássa af koltvíoxíði. Eldfjöll spúa eitraðri eimyrju sínkt og heilagt út í loftið undir skýjafarganinu og það er því ekki vistlegt um að litast á plánetunni.
Og skilyrði fyrir lífi eru ekki fyrir hendi - er líklega óhætt að segja, þrátt fyrir allt.
En nú hafa vísindamenn komist að því að í árdaga hafi verið allt öðruvísi um að litast á Venusi.
Með því að nýta reiknilíkön sem hafa verið þróuð til að spá fyrir um gróðurhúsaáhrif á jörðinni, þá hafa menn komist að því að frá því fyrir 2,9 milljörðum ára og þangað til fyrir aðeins 715 milljónum ára hafi yfirborðshitinn á Venus verið að meðaltali aðeins 11 gráður á Celsius.
Og þar hafi verið haf sem sums staðar náði allt að tveggja kílómetra dýpi.
Niðurstöðurnar benda til þess að mjög hafi verið skýjað á Venusi og rigningar tíðar, en aðstæðum hafi í rauninni svipað býsna mikið til aðstæðna á hitabeltissvæðum jarðar á rigningarskeiði.
Á rúmlega tveggja milljarða ára tímabili hafi hitastig og umhverfisaðstæður á Venus breyst mjög lítið - það hafi sem sé ríkt þar nægilegur stöðugleiki til að smágert lífi gæti vel hafa þróast.
Þetta segja vísindamennirnir af því þeir eru varkárir og bera ábyrgð á túlkun vísinda sinna. Við sem ekki berum neina ábyrgð getum hins vegar leyft okkur að spekúlera í hvort tíminn hafi ekki bara verið alveg nægur til að líf á Venusi gæti hafa þróast frá örverum og upp í flóknari lífsform.
Jafnvel Hvell-Geira, en hann hélt til á Venusi um tíma, eins og aðdáendur þeirrar góðu persónu vita.
Nú bíða aðdáendur Venusar og Hvell-Geira bara eftir því að einhverjir geimvísindamenn finni leið til að smíða nógu hitaþolið geimfar sem gæti lent á yfirborði plánetunnar og sent þaðan upplýsingar - þar á meðal um hvort einhverjar leifar af hugsanlegu lífi kunni að geymast í römmu andrúmsloftinu.
Fáein ómönnuð geimför hafa þegar lent á Venusi en þau hafa ævinlega bráðnað á örfáum klukkutímum og því ekki náð að afla neinna upplýsinga af viti.
En áhuginn á Venusi er altént að aukast á ný, og hafi raunverulegir möguleikar verið á lífi þar fyrir ekki svo löngu, þá er það semsé enn ein vísbending um að líf sé líklega nánast um allan hinn þekkta geim.
Athugasemdir