Síðustu þrjú ár hef ég unnið hart að þeim áfanga sem nálgast óðfluga. Í lok þessa mánaðar mun ég útskrifast úr framhaldsskóla með tilheyrandi veisluhöldum og húllumhæi. Ég gæti eytt heilli grein í að lofsama hvað síðustu þrjú ár hafa verið lærdómsrík; bæði á bókina og lífið almennt, en það er annað sem gnæfir yfir og skyggir á það allt. Undanfarið hef ég nefnilega ekki verið að pæla í öllu því sem ég hef afrekað á þessum þremur árum. Þvert á móti hef ég eytt mikilli orku og tíma í að stressa mig yfir útskriftardeginum sjálfum. Stressa mig yfir því hvernig í andskotanum ég eigi að vera sjúklega sæt og mjó á útskriftardaginn.
Í staðinn fyrir að læra fyrir lokaprófin hef ég eytt meiri tíma en mig langar að viðurkenna í að skoða kjóla sem henta mínu holdafari. Ég er búin að panta mér tíma í vax, litun og plokkun og klippingu svo ég verði nú alveg örugglega fallegasta útgáfan af sjálfri mér. Ég veit ekki hversu mörg förðunarmyndbönd ég hef horft á og hversu mörgum mínútum ég hef varið í að reyna að skilja hvernig ég geri þessar blessuðu skyggingar til að kinnbeinin njóti sín sem allra best. Megrunarkúrar hafa verið mér einstaklega ofarlega í huga – uppbyggilegt, ekki satt?
Ég vildi óska þess að mínar fyrstu hugsanir þegar ég hugsa til útskriftardagsins væru á annan veg. Að ég myndi minnast þeirra skipta sem ég stökk út fyrir þægindarammann og sýndi hugrekki, þegar ég prófaði mig áfram í námsgreinum sem vöktu áhuga, þegar ég massaði ritgerðir, verkefni og próf, þegar ég sýndi hvað ég er klár, útsjónarsöm og dugleg. Ég vildi óska þess að mínar fyrstu hugsanir væru hvað ég er ótrúlega stolt af sjálfri mér og hvað ég hlakka til að takast á við enn stærri verkefni og tækifæri að útskrift lokinni.
Ég á mér drauma um velgengni á ákveðnum sviðum. Mig langar að láta til mín taka og beita mér fyrir ýmsum málum. Ég á mér kvenkyns fyrirmyndir á mörgum, ef ekki öllum, sviðum atvinnulífsins. En þegar umfjallanirnar sem blasa við mér um mínar fyrirmyndir eru oftar en ekki tengdar útliti þeirra er ekki skrítið að í stað þess að máta mína hæfileika við þeirra fari ég að hugsa um útlit mitt og hvort það uppfylli kröfurnar.
„Núna er útskriftin mín að nálgast og ég hef mestar áhyggjur af því hvort ég verði nógu sæt og mjó á myndunum sem verða teknar af mér þennan merkisdag.“
Fréttaannállinn Kryddsíldin í fyrra er afskaplega gott dæmi um þetta. Þar voru samankomnir sjö fulltrúar stjórnmálaflokkanna; sex karlar og ein kona. Þau voru beðin um að hrósa sessunaut sínum, sem þau gerðu. Karlarnir hrósuðu hver öðrum fyrir atgervi og vitsmuni, konunni var hrósað fyrir útlit. Formanni Vinstri grænna var hrósað fyrir hvað hún leit vel út þann dag. Hvað segir það okkur? Sama hvar við stöndum, sama hvaða stöðu við gegnum, sama hversu klárar, duglegar og flottar við erum – það markverðasta við okkur er útlitið.
Ef skilaboðin sem við konur fáum úr umhverfinu eru á þann veg að hlutverk kvenna sé að vera sætar, flottar og fullkomnar, ef fjölmiðlar og almenningur gagnrýna konur í stjórnunarstöðum út frá útliti og verðleikar þeirra eru metnir út frá því, er eðlilegasta útkoman sú að konur sækist frekar eftir að þóknast fegurðarstöðlum en sjálfum sér. Þær eru ekki metnar að verðleikum heldur útliti og því sækja þær síður í stjórnunarstöður, menntun og að ná draumum sínum. Þær upplifa það ekki sem raunhæft nema þær séu með ákveðið útlit og þær telja útlitið skipta meira máli en eigin ástríða.
Núna er útskriftin mín að nálgast og ég hef mestar áhyggjur af því hvort ég verði nógu sæt og mjó á myndunum sem verða teknar af mér þennan merkisdag. Og djöfull gerir það mig reiða. Ég er reið út í fjölmiðla fyrir að sýna einhæfa fegurðarmynd. Ég er reið út í samfélagið fyrir að samþykkja þá hugmynd að virði fólks felist í kinnbeinum eða mittismáli. Ég er reið út í þann veruleika að manneskja geti talist meira eða minna virði eftir því hversu vel hún fellur að fegurðarviðmiðum. Síðast en ekki síst er ég reið út í sjálfa mig fyrir hvað ég er fljót að gleyma því hvað ég er frábær, dugleg og klár. Hvað ég á auðvelt með að gleyma því sem skiptir í raun og veru máli. Að ég hef lagt mig fram, sýnt dugnað og gáfur, úthald og hæfileika og náð að útskrifast. Að ég hef lært rosalega margt, þroskast á ótrúlega mörgum sviðum og ræktað svo ótal marga hæfileika.
Samfélagið er svo gegnsýrt af útlitsdýrkun og þá sérstaklega þegar konur eiga í hlut. En það er svo sannarlega margt fleira sem skiptir máli í lífinu en að vera falleg. Samfélagið kennir konum að halda kjafti og vera sætar. Að holdafar og útlit sé það sem ákvarðar virði þeirra. Það er ekki eins og við fáum ekki nógu mörg skilaboð sem halda aftur af okkur. Ekki halda kjafti og leyfa útlitsdýrkun að halda aftur af þér, við erum svo mikið meira en bara hvernig við lítum út. Ég er að minnsta kosti orðin verulega þreytt á því að keppast við megrunarkúra þegar mín ástríða liggur á allt öðrum sviðum.
Athugasemdir