„Stjórnmálin eru þess eðlis að þau þurfa á hverjum tímapunkti að vera til fyrirmyndar, bæði á borði og í orði. Þegar raunin er önnur þurfa þeir sem því valda að axla ábyrgð sína með viðeigandi hætti,“ sagði José Manuel Soria, fyrrverandi iðnaðar- og ferðmálaráðherra í ríkisstjórn Spánar, í yfirlýsingu á föstudaginn þegar hann sagði af sér í kjölfar upplýsinga úr Panamaskjölunum svokölluðu um að hann hefði verið stjórnarmaður í fyrirtæki sem tengdist í skattaskjólinu Jersey á Ermarsundi.
Soria sagði hins vegar ekki af sér vegna upplýsinga um að hann tengdist fyrirtækinu á Jersey - faðir hans var kaupsýslumaður frá Kanaríeyjum sem flutti ávexti þaðan og til Bretlands og hafði stofnað fyrirtækið þess vegna - heldur vegna þess hvernig hann hafði brugðist við upplýsingum um að hann tengdist félaginu. Ráðherrann fyrrverandi þvertók upphaflega fyrir það í byrjun síðustu viku að hafa tengst fyrirtæki í skattaskjóli með beinum hætti þegar á hann var gengið en síðan kom í ljós skjal með hans eigin undirritun sem stjórnarmanns í viðkomandi fyrirtæki.
„Frá og með deginum í dag hætti ég öllum afskiptum af stjórnmálum“
Þegar þetta skjal kom fram var ljóst að Soria hafði í reynd ekki sagt satt en hann hefur sjálfur sagt að hann hafi ekki gert það gegn betri vitund. Hann sagðist einfaldlega ekki hafa munað eftir því að hafa verið skráður stjórnarmaður í viðkomandi félagi, Mechanical Trading Limited, en Soria var stjórnarmaður þess á árunum 1995 til 2002. Soria varð sama ár - 1995 - borgarstjóri í Las Palmas á Kanaríeyjum og var því orðinn kjörinn fulltrúi þegar hann settist í stjórn aflandsfélagsins. Soria virtist sannarlega hafa þótt miður að hafa sagt ósatt og þess vegna sagði hann af sér. „Þegar maður gerir mistök þá þarf maður að borga fyrir það því ég hef skaðað ríkisstjórnina mikið, ég hef skaðað formann flokks míns á viðkvæmum tímapunkti, en stærstu mistök mín voru þau að gefa útskýringar á hlutum sem ég mundi ekki vel eftir…“ Og Soria var mjög ákveðinn að hætta öllum afskiptum af stjórnmálum með afsögn sinni. „Frá og með deginum í dag hætti ég öllum afskiptum af stjórnmálum,“ sagði hann.
Soria varð með afsögn sinni 23 ráðherrann til að segja af sér eftir að lýðræðisfyrirkomulag var tekið upp á Spáni í kjölfar áratuga valdatíðar einræðisherrans Francisco Francos sem lést árið 1975. Lýðræðisfyrirkomulagið er því ekki nema rétt um 40 ára gamalt á Spáni, jafnvel yngra ef miðað er við að lýðræði hafi ekki verið formlega fest í sessi í landinu fyrr en árið 1982 þegar Sósíalistaflokkurinn var kjörinn til valda í lýðræðislegum kosningum. Saga lýðræðisins á Spáni er því langt í frá löng og hefur landið glímt við ýmsar afleiðingar af fasískri arflefð sinni síðustu áratugina.
Stjórnmálamenningin á Spáni er hins vegar þannig þrátt fyrir þessa stuttu lýðræðishefð að ráðherra eins og Soria átttar sig á því að það er ófært að hafa logið í viðtölum við fjölmiðla - jafnvel þó ósannindin hafi verið ómeðvituð. Hann áttaði sig á því að svör hans við spurningum um tengsl sín við félög í skattaskjólum voru slæm fyrir flokkinn hans, slæm fyrir ríkisstjórnina sem hann sat í og slæm fyrir Spán sem land. Þess vegna sagði hann af sér og hætti alfarið í stjórnmálum. Auðmýkt Soria var talsverð og margir í spænsku pressunni hafa hælt honum fyrir afsögnina jafnvel þó hann hafi líka undirstrikað að hann hafi ekki brotið lög með setu í stjórn félagsins á Jersey.
„Ég? Nei, nú... Íslensk fyrirtæki, og ég hef starfað hjá íslenskum fyrirtækjum, höfðu tengsl við aflandsfélög...“
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra Íslands og núverandi formaður Framsóknarflokksins, brást hins vegar við með allt öðrum hætti en Soria eftir að sænska ríkisútvarpið og Reykjavík Media höfðu spurt hann um fyrirtækið Wintris á Bresku Jómfrúareyjum þann 11. mars. Sigmundur Davíð sagði ekki satt í viðtalinu þegar hann var spurður um félagið og viðurkenndi ekki að hann hefði átt hlut í því. Fyrsta svar hans við spurningu um tengsl hans við aflandsfélög var: „Ég? Nei, nú... Íslensk fyrirtæki, og ég hef starfað hjá íslenskum fyrirtækjum, höfðu tengsl við aflandsfélög, jafnvel – hvað heitir það nú, verkalýðsfélögin... Svo það hefði verið í gegnum slíkt fyrirkomulag en ég hef ætíð gefið upp allar mínar eignir og fjölskyldu minnar upp við skattinn svo að það hefur aldrei verið svo að eigur mínar séu faldar nokkurs staðar. Þetta er óvenjuleg spurning fyrir íslenskan stjórnmálamann að fá. Það er næstum eins og verið sé að ásaka mann um eitthvað. En ég get staðfest það að ég hef aldrei leynt neinum eigna minna.“
Ef horft er á forsendur Sorias á Spáni þá hefðu bara þessi viðbrögð Sigmundar Davíðs í viðtalinu átt að nægja til afsagnar hans: Hann sagði ósatt. Og öfugt við Soria þá virðist Sigmundur Davíð ekki hafa sagt rangt frá af því að hann vissi ekki betur. Sigmundur Davíð vissi betur en viðurkenndi samt ekki að hafa átt aflandsfélagið Wintris. Á þessu er grundvallarmunur: Soria laug kannski ekki en hann sagði ósatt af því að hann vissi ekki betur. Sá sem hins vegar segir ósatt gegn betri vitund lýgur. Sigmundur Davíð hefur skaðað flokkinn sinn, hann hefur skaðað ríkisstjórnina og hann hefur skaðað ímynd Íslands. Svo var það allt hitt sem líka hefði átt að ýta undir afsögn Sigmundar Davíðs.
Umræðan um Ísland í erlendum fjölmiðlum eftir þetta viðtal snýst meðal annars um það að Ísland virðist vera spilltara, meira bananalýðveldi, en löndin sem landið ber sig saman við. Soria sagði ósatt og sagði strax af sér þegar hann áttaði sig á því; Sigmundur Davíð sagði ósatt í viðtali og sagði ekkert um að hann hefði farið í viðtalið og ekki sagt allan sannleikann í þrjár vikur þar á eftir. Þess í stað hóf hann einhvern ömurlegasta spuna sem sést hefur í íslenskum fjölmiðlum þegar fyrstu viðbrögð hans við viðtalinu voru að láta konuna sína stíga fram á Facebook fjórum dögum eftir það og tala um að hún hefði heyrt slúður - „Gróu á leiti“- um að hún ætti félag „erlendis“ með eignum. Ekki var minnst á að Gróa á leiti var sænska ríkisútvarpið og íslenskur fjölmiðill; ekki var minnst á að fyrirtækið væri ekki bara erlendis heldur í skattaskjólinu Tortólu; ekki var minnst á Sigmundur Davíð hefði átt hlut í fyrirtækinu eftir að hann settist á þing árið 2009; ekki var minnst á fyrirtækið hefði átt kröfur í íslensku bankana þrjá sem voru að nafnverði rúmlega hálfur milljarður króna.
Eftir stendur að fagráðherra í ríkisstjórn Spánar segir af sér sem ráðherra og þingmaður fyrir að hafa sagt ósagt um tengsl sín við félag í skattaskjóli fyrir 14 árum síðan. Forsætisráðherra Íslands segir hins vegar ósatt um eignarhald sitt á félagi í skattaskjóli fyrir 6 árum síðan og hann segir bara af sér sem ráðherra en heldur áfram að vera formaður flokks síns og þingmaður þrátt fyrir þann skaða sem hann hefur valdið og þrátt fyrir allar hinar ástæðurnar fyrir því að hann eigi líka að segja af sér formennsku í Framsóknarflokknum og þingmennsku.
Nú geta kröfur um að stjórnmálamenn og ráðherrar sýni pólitíska ábyrgð í störfum sínum farið út í öfgar. Þetta gerist til dæmis stundum í Svíþjóð þar sem nú á sér til dæmis stað umræða um að húsnæðismálaráðherrann Mehmet Kaplan þurfi að segja af sér eftir að hann sat sama kvöldverðarboð og ráðamaður úr ungliðaarmi tyrkneskra öfgasamtaka í fyrrasumar. Kaplan segist ekki hafa vitað að maðurinn hafi einnig verið á kvöldverðinum sem var fjölmennur og að þeir hafi ekki talast við. Hann segir líka en að ef hann hefði vitað að þessi maður ætti að vera á kvöldverðinum hefði hann ekki mætt á hann.
Mér finnst krafan um afsögn Kaplans vera ósanngjörn af því að hún byggir á því að ráðherrar verði alltaf að vita nákvæmlega hverjir aðrir verði líka í sömu samkvæmum og þeir í öllum tilfellum, alveg óháð því hvort ráðherrarnir muni ræða við þá eða ekki. Krafan byggir á því að Kaplan hefði átt að grennslast fyrir um aðra boðsgesti og neita að mæta í samkvæmið af því þessi maður var líka á boðslistanum. Þessi krafa í garð stjórnmálamanna er óeðlilega ströng og erfið í framkvæmd. Finna þarf einhvern milliveg í því hvað telst vera eðlilegt að ætlast til af stjórnmálamönnum og hvað þeir þurfa að hafa á samviskunni til að sanngjarnt sé að krefjast þess að þeir stígi til hliðar.
Sú krafa að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson segi af sér sem formaður Framsóknarflokksins og þingmaður er eitt dæmi um stjórnmálmann sem er í þeirri stöðu að eðlilegt er að ræða um algjöra afsögn hans frá pólitískum störfum. Krafan er eðlileg á svo margan hátt í lýðræðisríki eins og Íslandi sem vill vera og segist vera eitthvað annað og meira en bananalýðveldi. Ef stjórnmálamenningin á Spáni er þannig að ráðherra þar í landi áttar sig á því að hann getur ekki verið fulltrúi almennings eftir að hafa sagt ósatt opinberlega um félag sitt í skattaskjóli þá hlýtur slíkt hið sama að eiga við á Íslandi og í öllum öðrum lýðræðisríkjum með sæmilega siðaða stjórnmálamenningu.
Sigmundur Davíð kýs hins vegar að gera ekki neitt - afsögn hans sem ráðherra var afsögn að 1/3 hluta og í reynd kattarþvottur - og þingmenn Framsóknarflokkksins leyfa honum að komast upp með þetta þrátt fyrir að hann valdi þessum aðilum óbætanlegu pólitísku tjóni fyrir vikið. Sigmundur Davíð, ólíkt Soria á Spáni, þekkir bara ekki sinn vitjunartíma og setur eiginhagsmuni ofar flokkshagsmunum og almannahagsmunum. Sigmundur Davíð hefur ekki sagt af sér fyrr en hann segir af sér til fulls; það sem hann hefur gert núna er svona eins að biðjast afsökunar á einhverju að þriðjungi: Merkingarlaust og bendir ekki til neinnar eftirsjár.
Athugasemdir