Við erum að gefast upp á honum syni okkar,“ sögðu hjónin eiginlega einum rómi. Eiginmaðurinn var á miðjum aldri, rafvirki hjá einhverjum verktaka, konan hjúkrunarfræðingur á Landakoti. Þau sátu hjá mér á bráðamóttökunni til að ræða um soninn. „Hann vildi alls ekki koma, enda segir hann að ekkert sé að sér.“ Smám saman lá sagan fyrir. Sonurinn var 19 ára gamall, hættur í skóla og atvinnulaus. Hann sat öllum stundum í tölvuleikjum, netvafri eða dularfullum samskiptum. „Hann er búinn að snúa sólarhringnum við. Sefur á daginn, vakir um nætur,“ sagði móðirin. „Hann borðar ekki lengur með fjölskyldunni, tekur diskinn með sér inn í herbergið sitt svo að hann missi ekki af neinu.“ „Reykir hann kannabisefni?“ sagði ég. „Já, hann reykir talsvert,“ sagði pabbinn, „en aðalmálið er að hann hefur ekki áhuga á neinu lengur nema tölvunni og sinnir ekki gömlum vinum sínum eða áhugamálum. Og þetta fer versnandi. Hann er farinn að sitja 16-18 tíma á sólarhring yfir þessu rugli. Stundum finnst mér eins og þessir tölvuleikir séu verkfæri andskotans.“
Umbreyting heilans
Heilinn er ákaflega merkilegt líffæri. Billjónir taugaþráða liggja saman í þéttriðnu neti með ótal tengingum og kjörnum þar sem alls kyns starfsemi fer fram. Minningar og tilfinningar byggja á taugatengingum og boðefnum sem rata ákveðna braut. Heilinn er í stöðugri þróun allt frá getnaði til endaloka lífsins. Barnið lærir á sjálft sig og umheiminn. Hver dagur ber með sér ný ævintýri og nýjar uppgötvanir fyrir heilann að vinna úr. Á kynþroskaskeiðinu verða gífurlega miklar breytingar á heilanum. Hormónaflæðið skellur yfir eins og þung hafalda og breytir barninu í ungling og fullorðinn einstakling. Foreldrar rífa í hár sitt yfir þessum breytingum og tala um unglingaveikina. Á þessum mótunarárum kemur munurinn á kynjunum vel í ljós. Testósterónið gerir strákana óstýriláta, spennusækna og árásargjarna. Östrogenið breytir litlu stelpunum í leitandi og forvitnar unglingsstúlkur. Kynþroskinn rís upp úr öskustó æskunnar eins og fuglinn Fönix og tekur öll völd.
Maðurinn er eins og öll önnur dýr merkurinnar og hegðun hans stjórnast af mörg þúsund ára gömlum eðlisávísunum. Kynlífi og viðhaldi tegundarinnar er stýrt af frumstæðum hlutum heilans sem hafa engum breytingum tekið frá því að risaeðlurnar voru og hétu. Allir fullorðnir karlmenn muna eftir unglingsárunum, spennunni, greddunni, æsingnum og þránni eftir ævintýrum og tryllingi. Testósterónið flæddi um æðarnar eins og dularfullt eiturlyf sem breytti allri skynjun og upplifunum.
„Allir fullorðnir karlmenn muna eftir unglingsárunum, spennunni, greddunni, æsingnum og þránni eftir ævintýrum og tryllingi.“
Þegar tölvan sinnir þörfum
Framleiðendur tölvuleikja hafa hannað leiki sína fyrst og fremst með markhópinn unga karlmenn í huga. Þeir reyna að svala þörf þeirra fyrir spennu, nýjungar og umbun. Iðkandinn fer af einu borði á annað í leit sinni að nýjum ævintýrum sem hann finnur í sífellu. Leikurinn er eins og vísindaskáldsaga þar sem alls konar karakterar og furðuverur skjóta upp kollinum. Sumir leikir hafa kynferðislegt innihald sem höfðar enn frekar til markhópsins. Endalausir töfraheimar ljúkast upp þar sem reynir á snerpu og hugvit iðkandans. Hann tekur áhættu, drepur og stelur og kemur sér undan á hættulegum flótta. Tölvan verður eins og raðfullnæging unglingsins þar sem öllum þörfum og löngunum fyrir spennu, trylling og ævintýri er sinnt.
Þegar ég var að vinna á göngudeild geðdeildar hafði ég oftsinnis afskipti af þessum strákum sem voru algjörlega týndir í þessari furðuveröld. Þeir höfðu engan áhuga á neinu öðru en ákveðnum karakterum í World of Warcraft eða svipuðum leikjum. Þeir áttu enga vini aðra en spilafélaga í tölvunni sem bjuggu um víða veröld. Smám saman voru þessir piltar eins og gengnir í björg. Þeim fannst daglegt líf einskis virði miðað við tölvuheima. Kynlífi gátu þeir líka sinnt í tölvunni endu biðu þeirra fallegustu konur heims allsnaktar í heimi klámsins. Ekkert vakti áhuga þeirra á öðru. Margir þeirra reyktu kannabis sem venjulega gerði þá bæði metnaðar- og áhugalausa. Af einhverjum ástæðum hafa ungar konur ekki sama áhuga á tölvuleikjum og ungir karlmenn svo að sennilega er um testósterónáhrif að ræða.
„Smám saman voru þessir piltar eins og gengnir í björg. Þeim fannst daglegt líf einskis virði miðað við tölvuheima.“
Vímuefni CCP
Íslenski tölvurisinn CCP framleiðir vinsæla leiki sem eiga sér marga iðkendur. Árlega er stefnt hingað fólki sem hittist til að leika saman og dveljast í heimi óraunveruleikans eina helgi. Fjölmiðlar gera mikið úr þessum fundum og tala um sigur íslensks hugvits. Ég sé þetta á hinn bóginn sem íslenska framleiðslu á hættulegu vímuástandi sem eyðileggur líf á svipaðan hátt og önnur eiturlyf. Aldrei nokkru sinni hef ég fyrirhitt foreldri eða eiginkonu sem er stolt af afrekum sonar eða eiginmanns í tölvuleik. Aðstandendur líta á leikina sem verkfæri djöfulsins eins og maðurinn sagði þótt fæstir þori að viðra slíkar skoðanir.
Meðferðin var erfið og flókin enda vildu þessir drengir sjaldnast breyta neinu. Ég ráðlagði hjónunum að setja drengnum sínum einhver mörk og reyna að stjórna þannig tölvunotkuninni. Þau yrðu að ráða á sínu heimili og gera ákveðnar kröfur til fullorðins karlmanns. Enginn getur lifað af því að spila tölvuleiki 16 tíma á sólarhring. Mestu skipti auðvitað að ungi maðurinn skildi hversu tilgangslaust þetta líf væri og fengi einhvern metnað til að breyta því.
Leikurinn sem yfirtekur lífið
Þau gengu útaf bráðamóttökunni eftir langt samtal. Ég horfði á eftir þeim og velti því fyrir mér að allar merkilegustu uppgötvanir mannsins hafa skuggahliðar. Tölvan hefur gjörbreytt lífi nútímamanna og smám saman tekið völdin. Foreldrar treysta tölvunum fyrir börnum sínum og setja þau fyrir framan skjáinn í tíma og ótíma. Börnin sem tölvan elur upp eru enn líklegri til að falla fyrir trylltum tölvuleikjum þegar þau verða kynþroska.
„Þetta er sigur sálfræðinnar,“ sagði ég heimspekilega við sjálfan mig. „Mönnum tókst að kortleggja hverjar væru frumþarfir ungra manna og koma til móts við þær. Verst að leikurinn snerist upp í óleik og gerði lífið bæði innihaldslaust og tilgangslaust. Er það ekki ansi hátt verð fyrir þessa skemmtun?“
Athugasemdir