1 Rækta vináttu
Ég á margar góðar vinkonur og er þakklát fyrir þær allar. Þær sem ég hitti oftast eru æskuvinkonur mínar úr Vesturbæjarskóla og Hagaskóla en við höfum alla tíð haldið góðu sambandi. Ég hef alltaf upplifað mikinn styrk frá þeim og verið meðvituð um hvað ég er heppin að eiga þær að.
Ég lærði síðar, þegar ég fór að læra sálfræði og svo jákvæða sálfræði að félagsleg tengsl eru gríðarlega mikilvæg fyrir geðheilsu okkar og hamingju og mér finnst gott að hafa það í huga þegar mér finnst ég ekki hafa tíma til þess að hitta vinkonurnar.
2 Æfingin: 3 góðir hlutir með fjölskyldunni
Þetta er hamingjuaukandi æfing sem ég kynntist í náminu. Ég byrjaði að gera þessa æfingu fyrst fyrir um ári síðan, fékk svo karlinn minn og fimm ára son okkar fljótlega með.
Æfingin felst í því að í lok hvers dags rifjar maður upp þrjá góða hluti sem áttu sér stað yfir daginn. Við gerum þetta oftast saman fjölskyldan annað hvort við matarborðið eða uppí rúmi eftir kvöldsöguna. Sonur okkar er orðinn svo vanur þessu að hann leyfir okkur ekki að komast upp með að gleyma æfingunni.
Að enda hvern dag á því að rifja upp þrjá góða hluti hefur jákvæð áhrif á lundina, við förum að taka betur eftir því jákvæða í kringum okkur og verðum jafnvel bjartsýnni.
3 Leika í sundi með syninum
Ég og strákurinn minn erum mikið fyrir að fara í sund saman. Stundum sæki ég hann í fyrra fallinu í leikskólann og hjóla með hann í laugina. Við skemmtum okkur alltaf vel og ég fæ hlýju í mömmuhjartað yfir því að eiga svona góða stund með syninum. Ég fór alltaf mikið í sund áður en hann fæddist og fór að taka hann með þegar hann var nokkurra mánaða.
Það að fara í sund og hreyfa sig utandyra, hvort sem við syndum eða leikum við krakkana okkar, er gott fyrir líkama og sál. Svo getur oft verið auðveldara að spjalla við ókunnuga í pottinum og börnin eru oft góð í því að brjóta ísinn og byrja að spjalla en það er alltaf gaman að tengjast öðrum mannverum.
4 Hreyfing utandyra
Mér finnst rosalega gaman að línuskauta, þá skauta ég oftast hringinn meðfram sjónum út á nes og fram hjá Gróttu. Ég byrjaði að línuskauta á unglingsárum og hef tekið nokkra ára hlé inn á milli en mér finnst þetta svo gaman að það er aldrei erfitt að byrja aftur. Verst að þetta er aðalega sumarsport.
Svo hjóla ég líka mikið þar sem ég og maðurinn minn ákváðum að selja bílinn okkar fyrir nokkrum árum. Við erum mjög ánægð með þá ákvörðum, þar sem hún ýtir undir það að við hreyfum okkur meira, erum umhverfisvæn og spörum líka pening á því.
Líkamleg hreyfing er mjög góð fyrir geðheilsuna, bæði vegna þess að hún lyftir upp lundinni en líka vegna þess að hún dregur úr einkennum þunglyndis. Það sem skiptir mestu máli er að við höfum gaman af hreyfingunni, því þá erum við líklegri til þess að viðhalda henni og njótum hennar meira.
5 Núvitund – Mindfulness
Ég kynntist núvitund í Hollandi þegar ég var við nám þar í félags- og heilsusálfræði fyrir rúmum tveimur árum síðan. Ég skellti mér á átta vikna námskeið og byrjaði að stunda núvitund daglega. Ég fann að það hafði mjög jákvæð áhrif á líðan mína meðal annars með því að draga úr einkennum kvíða sem hefur oft háð mér í gegnum tíðina.
Það er hægt að stunda núvitund á mismunandi hátt, en algengasta aðferðin er líklega að hugleiða. Það eru til mismunandi tegundir að núvitundar-hugleiðsluæfingum en grunnæfingin felst í því að sitja með lokuð augu og beina athyglinni að andardrættinum. Svo fer hugurinn alltaf á flakk en galdurinn er að verða ekki fúl út í sjálfa sig yfir því heldur að draga athyglina bara í rólegheitunum að andardrættinum aftur og aftur og aftur.
6 Þakklæti
Ég byrjaði að prófa að gera þakklætisæfingar í vetur með náminu og fannst þær vera öflugar og hafa mjög jákvæð áhrif á mig. Eftir að hafa gert æfingarnar upplifði ég mig oft sem mjög lánsama konu.
Ein tegund af þakklætisæfingu nefnist þakklætisbréf og felst í því og fannst þær vera öflugar og hafa mjög jákvæð áhrif á mig. Eftir að hafa gert æfingarnar upplifði ég mig oft sem mjög lánsama konu. að skrifa einhverjum sem þér finnst hafa haft mikil og jákvæð áhrif á líf þitt þakkarbréf þar sem þú lýsir því fyrir viðkomandi hvaða áhrif hann/hún hafði á líf þitt og þakkar þeim fyrir það. Sumir ganga svo langt að mæta með bréfið heim til viðkomandi og lesa það fyrir þá... það er fyrir þá hugrökku. Við hin getu látið nægja að senda bréfið í pósti eða með tölvupósti. Svo hefur meira að segja verið sýnt fram á að svona þakkarbréf hefur jákvæð áhrif á fólk jafnvel þótt það sendi aldrei bréfið.
Þessi æfing hefur margþætt árif, meðal annars erum við í raun að gera fallegt góðverk fyrir þann sem fær bréfið og gleðja viðkomandi mikið – og það hefur jákvæð áhrif á okkar eigin líðan að gera góðverk. Svo erum við líka að rifja upp góða minningu og smjatta aðeins á henni en það er líka hamingjuaukandi aðferð sem kallast að njóta (savoring). Önnur leið til þess að rækta með sér þakklæti er að rifja reglulega upp tvo til þrjá hluti sem við erum þakklát fyrir.
7 Stefnumót með karlinum
Okkur Friðgeiri manninum mínum finnst alltaf gaman að fara saman á stefnumót og njóta þess að vera tvö saman. Við fáum stundum aðra hvora ömmuna eða afann til þess að passa fyrir okkur og röltum þá gjarnan niður í bæ, förum út að borða á góðum veitingastað og fáum okkur svo góðan göngutúr um miðbæinn og vesturbæinn. Það eru alltaf notalegar stundir sem tengja okkur betur saman.
Það að leggja rækt við makasambandið er eitthvað sem fólk á til að láta sitja á hakanum en það er svo mikilvægt að hlúa vel að sambandinu líkt og við hlúum að heislunni. Og það sama gildir um makasambandið eins og heilsuna, það er miklu betra að rækta það dags daglega þegar ekkert amar að heldur en að reyna að laga það þegar komið er í óefni.
8 Gera lítil (og stundum kjánaleg) góðverk
Að gera góðverk er ein af þessum æfingum sem lætur okkur líða vel, vekur líka upp vellíðan hjá þeim sem góðverkið beinist að og getur jafnvel eflt félagsleg tengsl milli þess sem gerir góðverkið og þess sem það beinist að.
Ég hef einhvernveginn ósjálfrátt tamið mér að gera flest litlu góðverkin mín í stórmörkuðum, þegar ég er að versla inn fyrir vikuna. Það eru allskonar hlutir sem hægt er að gera þar, svo sem að bjóða góðan daginn, hleypa einhverjum framfyrir sig á kassann, bjóðast til að hjálpa einhverjum sem virðist vera ráðvilltur og ganga frá auka kerrum og körfum. Ég tek oftast með mér auka kerru til þess að ganga frá þegar ég er búin að versla og verð alltaf svolítið kátari við það. Svo fæ ég smá kjánahroll yfir því hvað ég er montin yfir því að ganga frá einni auka kerru.
9 Jóga
Ég byrjaði fyrst að stunda jóga reglulega þegar ég var ólétt fyrir rúmlega fimm árum og fór í meðgöngujóga til Auðar jógakennara og naut þess mikið. Eftir það hef ég stundað jóga í törnum. Nú er ég nýbyrjuð aftur eftir um tveggja ára hlé og stunda nú jóga í jógastöðinni Sólir sem er úti á granda og kann mjög vel við mig þar.
Eins og öll önnur hreyfing þá er jóga líka gott fyrir okkur, bæði líkamlega og andlega. Það sem heillar mig líka við jóga er að flestir tímarnir enda á hugleiðslu og hún hefur svo góð áhrif á líðan mína.
10 Hlusta á góðar bækur
Ég á svolítið erfitt með að sitja kyrr og lesa í bók (eins skammarlegt og það er) en það á mjög vel við mig að hlusta á hjóðbók og gera þá eitthvað einfalt á meðan. Ég hef aðalega verið að hlusta á bækur sem tengjast jákvæðri sálfræði, núvitund, velvild og hamingju. Ég hlusta helst á hljóðbækur meðan ég hjóla milli staða, geri húsverk eða prjóna.
Það er gott fyrir hugann að halda endalaust áfram að læra og það að hlusta á áhugaverðar bækur getur verið hluti af því. Svo er líka hamingju-aukandi að sinna því sem maður hefur áhuga á og ástríðu fyrir.
Athugasemdir