Og þau spyrja sig guðlaus hver tilgangurinn með þessu öllu sé. Hlaupa áttatíu hringi um sólina og grípa í öll hálmstráin. Fá sér búðing og ríða og ala upp börn til að hlaupa með sér og deila eymdinni. Gefa sorgina áfram. Geispa.
Og þau gráta og fara í kirkju og knúsast og lesa best-of slagorð spámanna. Elska og hata og spyrja sig djúpra spurninga og humma. Verða þreytt í fótunum og fara í hringi, fyrst á hækjum og svo hjólastólum.
Svo dýpkar eymdin. Fullkomlega. En leitin að svarinu er ekki okkar.
Get ekki náð til botns. Tærnar krafsa í botnleðjuna og sökkva smám saman dýpra. Munnur og svo nef fara undir yfirborðið. Undirborðið undir yfir yfirborðið. Lungun fyllast af vatni. Augun lokast mjúklega og aldan slær létt á hnakkann á meðan sjálfið sameinast stjörnunum. Gráar krullurnar bærast í þyngarleysi vatnsins til og frá.
Og þó allt hverfi þá heldur allt áfram. Öll svörin fást ef tilraunin er gerð nógu oft. Þú færð samt aldrei að heyra það. Hefur bæði rétt og rangt fyrir þér á sama tíma.
Öll þessi fallegu andlit sem aldrei sáu spegil. Aldrei fundu lygnan poll. Aldrei hittu neinn sem sagði þeim. Orðin að mold.
Öll þessi fallegu orð. Ástarjátningar fyrir tíma prentmáls. Ljóðabálkarnir í munnlegri geymd sem urðu að vindhviðum í logni. Goðsagnir gleymdar. Fjölguðir horfnir. Ódýrkaðir í árþúsundir. Andvarp í vindi.
Öll þessi sólsetur sem við sáum aldrei. Dýrategundirnar sem dóu út. Eyjur sem risu og sukku í sæ. Heimsveldi sem trónuðu og hurfu eins og tif í klukku. Tikk takk.
Snertu sannleikann og hann hverfur eins og aska. Segðu satt og þú gerir ekkert nema skapa litla vindhviðu. Leyfum þeim að leika sér. Reiðmennirnir eru mættir.
Athugasemdir