Morgunblaðinu var dreift frítt inn um allar lúgur síðasta fimmtudag. Þar mátti finna viðtal við félagsmálaráðherra, Þorstein Víglundsson, þar sem hann staðhæfði að útgjöld til Landspítalans hefðu verið stóraukin á síðustu árum og yrðu aukin enn frekar í framtíðinni. Eins og sýnt verður fram á hér að neðan er málflutningur ráðherra ævintýralega rangur; ráðherra setur fram rangar fullyrðingar sem aftur byggja á röngum tölum.
Í fréttinni er vitnað í ráðherra:
„... Það er augljóst að verið er að auka raunútgjöld til spítalans og þegar horft er yfir lengra tímabil má sjá að það er búið að endurreisa fjármögnun spítalans úr þeirri miklu lægð sem var hér eftir efnahagshrun. Það hefur orðið veruleg aukning á raunútgjöldum til LSH á undanförnum árum og stefnt er að því að svo verði áfram,“ sagði ráðherra.
Þorsteinn segir að samkvæmt hans úttekt og áætlunum, sem styðjist við ársreikninga LSH frá 2006 og við ríkisfjármálaáætlun til næstu fimm ára, komi skýrt fram að áfram er verið að auka raunútgjöld til LSH. (Sjá línurit).
Línuritið má sjá hér til hliðar og fullyrt er að það sýni raunútgjöld til LSH. Það er því ljóst að gögnin eru kynnt sem raunútgjöld ríkisins til spítalans. Það samræmist alls ekki raunveruleikanum — raunverulegum raunútgjöldum ríkisins til spítalans í fortíðinni. Það er að sjálfsögðu mjög furðulegt, og Landspítalinn birti í kjölfarið frétt þar sem segir að „Landspítali kannast ekki við þær tölur sem lagðar eru til grundvallar greiningu ráðherra fyrir árin 2016 og 2017. Hin meinta hækkun ríkisframlags til Landspítala frá árinu 2015 hefur ekki átt sér stað.“ Framlög ríkisins til spítalans hafa verið mun lægri en myndin sýnir. Flóknara er það ekki.
Hluti skýringinnar á þessum furðulegheitum birtist á Facebook daginn eftir, þar sem félagsmálaráðherra opinberar að á línuritinu birtist annað en sagt var, nefnilega heildarútgjöld Landspítalans, stofnunarinnar sjálfrar:
„Spítalinn hefur gert athugasemd við þessa framsetningu mína og segist ekki kannast við þessar tölur, hvorki á undanförnum árum né í áætlunum. Tölur áranna 2006 til 2016 eru fengnar úr ársreikningum Landspítalans sjálfs og er þar horft til heildarútgjalda en ekki ríkisframlags eins og sér.“
Þorsteinn segist velja þessi gögn til að gæta samræmis við framsetningu fjárlaga og ríkisfjármálaáætlunar. Sú skýring heldur þó engu vatni, enda birtast í fjárlögum bæði heildarútgjöld Landspítala og raunútgjöld til Landspítala, en í fjármálaáætlun er hvoruga töluna að finna.
„Þorsteinn sagði einfaldlega ósatt.“
Þorsteinn skýrir ekki né biðst afsökunar á að hafa kynnt gögnin sem önnur en þau áttu að vera. Ekki er um að ræða mismunandi túlkunarmöguleika — Þorsteinn sagði einfaldlega ósatt. Þess utan snýst umræðan um þá fjármuni sem ríkið veitir Landspítalanum til að sinna hlutverki sínu, það fé sem stjórnendum er falið til að reka sjúkrahúsþjónustu. Sértekjur þýða að sjúkrahúsið er að selja vörur eða þjónustu, með tilheyrandi útgjöldum á móti, og varða ekki eiginleg fjárframlög ríkisins til rekstursins.
Þegar miðað er við heildarútgjöld Landspítala standast tölur ráðherra þó heldur ekki. Samkvæmt fjárlögum ársins 2017 nema áætluð útgjöld Landspítalans 61 milljarði króna (59 ma. skv. framlögðu frumvarpi auk 2 ma. samkvæmt tillögu fjárlaganefndar). Framangreint línurit sýnir hins vegar tölu nær 67 milljörðum króna. Útgjöld vegna byggingar nýs Landspítala nægja ekki til að skýra þennan mun, en þau nema um 1,5 milljörðum króna árið 2017. Þessi óútskýrði munur veldur því að línuritið ýkir aukninguna á fjárútlátum Landspítalans í seinni tíð. Línuritið sýnir til að mynda um 20% aukningu milli áranna 2015 og 2017, meðan raunveruleg útgjaldaaukning Landspítalans er nær 10% (núvirt með vísitölu neysluverðs) og 12,5% þegar kostnaður vegna byggingar nýs Landspítala er lagður við.
Þegar horft er til stærðar og eðlis mistakanna, hve áberandi vettvangurinn er, og alvarleika málefnisins verður ekki annað sagt en að rangfærslur félagsmálaráðherra séu alvarlegar. Þá er ekki síður alvarlegt að gangast ekki við mistökum sínum þegar á þau er bent, en þverskallast við að ásaka stjórnendur Landspítalans um óheilindi. Slíkt framferði hefði vafalaust einhverjar afleiðingar í landi með sterku stjórnmálasiðferði. Og hvar er heilbrigðisráðherra? Finnst heilbrigðisráðherra ásættanlegt að samráðherra hans í ríkisstjórn segi ósatt um heilbrigðismál?
Athugasemdir