Við erum búin að ybba svo mikinn gogg undanfarin ár að nú er kominn tími á snúa blaðinu við og líta á bjartari hliðar tilverunnar. Þurfum við ekki öll á hrósi að halda?
Þegar við vorum að kaupa í matinn fyrir nokkrum árum, þurftum við að byrja á því að teygja okkur í skilrúm við afgreiðsluborðið og leggja það aftan við vörur þess sem var á undan okkur í röðinni, áður en við gátum byrjað að tína okkar vörur upp úr körfunni. Skyndilega datt einhverjum í hug að setja skilrúm aftan við sínar vörur, svo að við gætum byrjað strax að setja okkar vörur á borðið. En sú gleðifregn í íslensku þjóðlífi! Þetta breiddist út eins og eldur í sinu og nú er sjaldgæft að fólk setji ekki skilrúm á eftir vörunum sínum.
Mig langar að knúsa þennan sem byrjaði. Þetta er snilld. Þetta litla tiltæki er nefnilega örlagaþrungnara en það virðist við fyrstu sýn. Það kallar fram bros, stundum bara innra bros, en það gerir okkur ósjálfrátt glaðari í sinni, af því að einhver hefur hugsun á því að gera okkur lífið léttara. Margt smátt gerir eitt stórt. Bros leiðir af sér bros, jafnvel þótt það sé bara innra bros. Mesta snilldin er að allir hafa hag af þessu, líka sá sem byrjaði á því; hann er nefnilega stundum næsti maður í röðinni líka! Þessu áttuðum við okkur á, eitt af öðru.
Tökum hann til fyrirmyndar. Verum breytingin sem við viljum sjá með góðu fordæmi, í stað þess að vera fúl út af því hvað náunginn er ókurteis. Það er auðvelt að sitja í dómarasæti og agnúast út í aðra. Hver hefur ekki setið við stýrið og hugsað með sér: Sjá hvernig þetta fífl keyrir! Ég skal vera fyrstur til að játa að hafa setið með samanherpta þjóhnappa og fjargviðrast við sjálfan mig út af álfunum sem kunna ekki að keyra. Flísin í auga náungans og allt það ... Sannleikurinn er sá að það kemur engum í koll nema okkur sjálfum. Apakötturinn í umferðinni hefur ekki hugmynd um hvað við erum að tuða, en axlir okkar sjálfra stífna og blóðþrýstingurinn hækkar. Gagnrýni okkar á aðra í umferðinni er vafalaust oft réttmæt, en meinið er að við leyfum þeim að hafa áhrif á okkur og þar með öðlast þeir vald yfir tilfinningum okkar, án þess að þeir hafi hugmynd um það. Af hverju ættum við að leyfa þeim það?
Lengi hefur okkur verið bent á að svokölluð tannhjólaaðferð greiðir fyrir mikilli umferð, en eitthvað höfum við verið treg í taumi að taka þessa snjöllu aðferð upp, þar sem tvær bílaraðir mætast og einn bíll úr hvorri röð fer í einu inn á akrein. Auðvelt! Um helgina fór ég í Borgarleikhúsið. Þar gerðust undur og stórmerki. Að lokinni leiksýningu þurftu þeir sem komu af miðju bílastæðinu ekki að bíða eftir þeim sem óku hringinn til að komast út, heldur virtust allir sammála um að hleypa einum bíl í einu á útakstursakreinina.
Byltingin er hafin! Við erum ekki eins vitlaus og við sýnumst. Við þurfum bara að hafa augu og eyru opin fyrir því að allt í kringum okkur er fólk sem hefur sömu þörf og við sjálf fyrir að aðrir sýni því þolinmæði og léttleika. Ef allt um þrýtur, er heimsins besta ráð að fara í húmorgírinn og skemmta sér yfir því hvað við getum verið klaufsk. Það er til dæmis óborganlega fyndið þegar við erum að flýta okkur í umferðinni, æðum fram úr til þess eins að lenda á rauðu ljósi og svo læðist bíllinn sem við tókum fram úr upp að okkur, þar sem við sitjum hnípin og múlbundin gegnt sama rauða ljósinu.
Öll langar okkur til að breyta heiminum til betri vegar, en það getur virst óvinnandi verkefni fyrir eina manneskju. Það er ótrúlegur léttir þegar við hættum að ergja okkur á náunganum, tökum málin í okkar eigin hendur og gerum okkur grein fyrir að við höfum vald til að breyta, þótt í litlu sé. Við getum ekki borið ábyrgð á öðrum, en við getum borið ábyrgð á sjálfum okkur. Það býr kraftur í þessari þjóð. Ef við trúum því að við getum látið til okkar taka með með góðu fordæmi, með bros á vör og staðfestu, er næsta víst að við höfum víðtæk áhrif - saman -, kemst þótt hægt fari. Gerum lífið skemmtilegra og glaðlegra. Ekki bara fyrir aðra, heldur líka fyrir okkur sjálf. Þetta byrjar allt hjá okkur sjálfum.
Bergþór Pálsson hefur um árabil verið einn fremsti óperusöngvari landsins. Hann er einnig höfundur bókarinnar Vinamót sem kom út árið 2007 og hefur haldið fyrirlestra um borðsiði og það hvernig góða veislu gjöra skal.
Athugasemdir