Ég er af þeirri kynslóð að þann 17. júní klæddi mamma okkur systkinin í spariföt og við fengum pappírsfána og fórum í skrúðgöngu til að fagna Íslandi.
Og ég stóð á Arnarhóli og það var sama hve rigningin var mikil, alltaf fylltist ég stolti þegar ég sá stóru fánana blakta.
Íslenski fáninn var fallegasti fáni í heimi og ekkert land í víðri veröld jafnaðist á við Ísland og ég fann það svo vel þar sem ég stóð í stoltum mannfjöldanum hvað ég var heppinn að hafa fæðst á Íslandi.
Ég var stoltur Íslendingur.
Síðan hefur gengið á ýmsu í sambandi mínu við Ísland. Ótrúlega lengi trúði ég því í barnslegri einlægni að Ísland væri vissulega besta land í heimi. Svo rjátlaðist smátt og smátt af mér sú trú - auðvitað var Ísland ekkert „betra“ en ýmis önnur lönd - en áfram lifði samt þjóðarstoltið góðu lífi.
Hvað sem á gekk og hvaða stóru skandala sem þeir gerðu, valdsherrarnir misvitru á voru landi, þá var ég alltaf stoltur af að vera Íslendingur. Og bjóst ekki við að það myndi breytast.
En nú hefur það gerst að í fyrsta sinn á ævinni, þá skammast ég mín fyrir að vera Íslendingur.
Og satt að segja dauðkvíði ég þeirri stund þegar ég sé næst íslenskan fána.
Reyndar langar mig aldrei framar að veifa íslenskum fána.
Þetta tókst Ólöfu Nordal.
Og líklega ætti ég að þakka henni fyrir. Ef það er þá ekki göfugra en þetta að vera Íslendingur, já, þá ætti ég sennilega að þakka fyrir að hafa verið sviptur þessari blekkingu.
Þeirri blekkingu að á Íslandi þekkist samlíðan með Ástu Sóllilju á jörðinni.
Þeirri blekkingu að á Íslandi yrðu veik lítil börn aldrei send úr landi út í algjöra óvissu.
En það hefur nú gerst og það er þá líklega bara gott að vita að Ísland er slíkt land.
Takk, Ólöf Nordal.
Jájá, ég veit að þú segist ekki hafa haft vald til að skipta þér af ákvörðun Útlendingastofnunar.
En við vitum bæði ósköp vel að það er bara kattarþvottur - þú hafðir bæði vald og áhrifavald til að leyfa börnunum að vera - og ég vona að þú ætlir ekki að þumbast áfram við að halda þessu fram.
Og svo grípurðu í ómerkilegustu hálmstrá Hönnu Birnu - ferð að tala um að einhver „við“ þurfum að læra af þessu og það þurfti að „skoða verkferla“.
Jahérna hér.
En þú máttir og gast og áttir að beita þér í málinu - strax og það rann upp fyrir þér hvað var að gerast.
En þú kaust að gera það ekki. Svo einfalt er það, Ólöf Nordal.
Þú kaust að gera það ekki.
Og málið átti reyndar aldrei að komast á þetta stig. Þú ert búin að vera yfirmaður Útlendingastofnunar nógu lengi til að þú áttir að vera búin að átta þig á að forstjórinn Kristín Völundardóttir er algjörlega óhæf.
Það sannaði hún eftirminnilega í Kastljósi þegar hún upplýsti að hún hefði ekki hugmynd um að í Albaníu sé heilbrigðiskerfið einkavætt.
Ég skal trúa þér fyrir því, Ólöf, að mig sundlaði þegar ég heyrði þetta. Að forstjóri Útlendingastofnunar „kæmi af fjöllum“ varðandi þetta stórkostlega mikilsverða atriði.
Atriði sem snýst um líf og heilsu skjólstæðinga Útlendingastofnunnar.
Átta mánaða og þriggja ára gamalla skjólstæðinga Útlendingastofnunar, í guðs almáttugs bænum!
Mann hafði svo sem grunað að pottur væri brotinn í starfi Útlendingastofnunar. En að vanhæfni forstjórans væri svona brjálæðisleg, það hefði ég þó aldrei látið mér detta í hug.
En ég er bara maður út í bæ. Þú ert æðsti yfirmaður þessarar stofnunar sem sinnir um einhver viðkvæmustu mál samfélagsins, og þú áttir fyrir löngu að vera búin að grípa til aðgerða.
En aftur:
Þú kaust að gera það ekki.
Og því þurftum við - þjóð þín - að horfa upp á að fulltrúar okkar væru sendir til að vísa úr landi tveimur fjölskyldum með lítil og veik börn.
En þú, þegar þú ljáðir loks máls á viðtali, þá minntist þú ekki á líðan hinna albönsku fjölskyldna og ekki sinni barnanna sem höfðu verið send burt að næturþeli.
Nei, þú hafðir aðeins áhyggjur af þinni eigin líðan: „Mér finnst vont að lesa að ég sé ómanneskjuleg ...“
Nú legg ég til að fjölskyldurnar tvær verði þegar í stað sóttar til Albaníu aftur.
En þú munt náttúrlega ekki ljá máls á því.
Þú munt segja: Computer says no.
Það væri samt alveg hægt, við vitum það bæði.
En þú munt kjósa að gera það ekki.
Guð hvað ég skammast mín nú fyrir að vera Íslendingur.
Athugasemdir