Eftirfarandi grein er eftir Jón Viðar Jónmundsson, doktor í búfjárerfðafræði sem var landráðunautur hjá Bændasamtökum Íslands um árabil og hefur jafnframt starfað sem sérfræðingur við Rannsóknarstofnun landbúnaðarins, setið í nefndum á vegum landbúnaðarráðuneytisins og tekið að sér ýmis verkefni fyrir Framleiðsluráð landbúnaðarins. Jón gagnrýnir harðlega forystu Bændasamtakanna og segir að ekki hafi verið vilji til að birta skrif hans í Bændablaðinu.
Sindri! Þú hefur verið fremur athafnasamur það sem af er þessu ári í margháttuðum afkáraskap. Leiðari sem þú skrifar í síðasta Bændablað (9. júní 2016) er ágæt skrautfjöður á þann feril þinn. Um þessi skrif langar mig að skiptast á við þig nokkrum orðum.
Sindri! Nú vil ég biðja þig að fara í vissa hugarleikfimi, veit ekkert um færni þína á því sviði. Gerðu nú ráð fyrir að það hafi runni upp fyrir þjóðinni meira og meira á síðustu vikum, þrátt fyrir mjög takmarkaða umræðu, að samningarnir sem þú gerðir í febrúar séu hálfgert voðaverk og landbúnaði sem og allri þjóðinni fyrir bestu að þeir verði stöðvaðir. Meira að segja að þessi hugsun hafi náð inná Alþingi þó að reynslan sýni að þangað er leiðin oft þröng fyrir ný sjónarmið. Gerðu meira að segja ráð fyrir að Bjarni og Sigurður Ingi hafi uppgötvað að þú blekktir þá að einhverju leyti til að setja stafina sína undir samningana í febrúar. Með þessa sviðsmynd í huga skaltu síðan setjast niður og lesa leiðaratetrið.
Sindri! Ert þú ekki sammála því að út frá þessari sviðsmynd eru þessi skrif þín nánast óvífni og þvæla? Þú talar um lýðræðisleg vinnubrögð Alþingis sem „nánast ósvífni“ og viðhefur fleiri kjarngóð ummæli um löggjafastofnunina.
Þá skulum við ræða ögn nánar meginástæður þessa að ekki er útilokað að það hafi runnið upp fyrir fleiri og fleirum meðal þings og þjóðar hvaða óhófsgerðir voru hjá þér við gerð samninganna. Höldum okkur samt aðeins við örfá aðalatriði.
Í leiðaranum notar þú stórt orð, hugmyndafræði. Hún á að felast í að opna samningana meira og gera þá almennari. Skýrðu tilgang þess. Mér er hann með öllu óljós. Ég held að bændur vilji opin, einföld, fyrirsjáanleg og skýr ákvæði í sínum samningum. Síst að öllu opið flot uppá 20% sem lagt er í hendur fámennrar lokaðrar og ég held misjafnlega þokkaðrar framkvæmdanefndar búvörusamninga. Formaðurinn reyndist þér að vísu þægur ljár í þúfu við samningagerðina.
Stærsta stefnumálið segir þú að stíga út úr kvótakerfinu í nautgripa- og sauðfjárframleiðslunni. Síðar segir þú að vísu að þau hafi engin áhrif haft á framleiðslu síðustu ára, sem er rétt. Eru þetta ekki aðeins skondnar fullyrðingar í samhengi? Fjármagnsbinding og flutningur fjármagns út úr atvinuveginum vegna kvótakaupa hafa verið með stærri vandamálum landbúnaðarins. Niðurfelling kvóta þurrkar ekki upp þegar gerðar skuldbindingar og brottfall kvótans léttir víst ekki fjárhagsstöðu þeirra sem verst standa af þessari ástæðu. Hefði nú ekki verið meira í samræmi við jafnréttissjónarmið að skoða breytingu á kvótakerfinu þar sem hugað hefði verið að slíkum atriðum en ekki i niðurlagningu þess? Er þetta ef til vill bara ein afleiðing algers skort á vinnu hjá ykkur í undirbúningi hjá BÍ fyrir samningana? Ég varð að vísu var við þau sjónarmið formanns LS á kynningarfundum ykkar að búvörusamningarnir ættu að vera allstórt happdrætti. Var það ef til vill ykkar samningatækni?
Sindri! Bíddu nú aðeins. Var það ekki þannig að í janúar unnuð þið mest að mjólkursamningi? Síðan barst sú umræða út til kúabænda og þið létuð gera skoðanakönnum meðal mjólkurframleiðenda, sem þið að vísu birtuð aldrei niðurstöður úr. Hins vegar var það til þess að þið slóguð öllum vandamálum mjólkurfarmleiðslunnar á frest. Mér vitanlega hljóða núverandi samningsdrög upp á að frestað verði til atkvæðagreiðslu árið 2019 að taka endanlega afstöðu til kvótakerfisins í mjólkurframleiðslunni þó að leiðara þinn megi ef til vill skilja þannig að þú gefir þér úrslitin. Svo valdamikill ert þú Sindri minn ekki enn.
Hér er full þörf á að stoppa við eitt mikilvægasta atriði búvörulaga sem ég hef drjúgan grun um að þú hafir aldrei skilið og skiljir ekki enn, í öllu falli ef taka á mark á orðum leiðarans. Það er þetta að framleiðslukvóti sem greiddur er á ríkisstuðningur og heimildir til framleiðslustýringar eru tveir aðskildir hlutir þó að við hér á landi, ég vil í dag segja því miður, glöptustum á sínum tíma til að setja nánast jafnaðarmerki á milli. Innan LK hefur um alllangt skeið verið allstór, ekki endilega fjölmennur kór, sem kallað hefur á alfrjálsan mjólkurmarkað hér á landi. Ég held að allir sem eitthvað þekkja til slíkrar framleiðslu í öðrum löndum viti vel hverskonar bábilja þetta er. Segja má samt að þetta ástand hafi ríkt hér í mjólkurframleiðslunni um nokkur ár gagnvart framleiðendum, þeim til hagsbóta meðan þeir voru réttu megin á kúrfunni. Nú bið ég þig Sindri að upplýsa bændur um hvað ætla megi að umframframleiðsla á mjólk komi til með að kosta mjólkurframleiðendur og mjólkuriðnaðinn á árinu 2016. Þetta eru einhverjar mikilvægustu upplýsingar sem bændur geta núna fengið í sambandi við mótun á framleiðslustefnu á komandi árum í mjólkurframleiðslunni. Bendi þér, Sindri, á að leita til Egils Sigurðssonar sem lengi hefur verið kórstjóri hugmyndanna um frjálsa mjólkurframleiðslu innan LK. Ykkur köppunum verður líklega ekki skotaskuld úr því að koma þessum upplýsingum á framfæri skýrum og greinargóðum.
Reynum að halda okkur við aðalatrið í samningunum áfram. Að mínu viti þá eru mestu nýmæli samninganna ákvæðin um landgreiðslur. Nú veit ég að þetta er þarna komið að frumkvæmi ráðherra og hafi hann heiðurinn af, en Sindri og BÍ voru í byrjun andvíg þessum hugmyndum. Þannig er eins og allir þekkja að landnotkun hér á landi er verulega frábrugðin því sem gerist í flestum nágrannalöndum. Þess vegna hefði verið meiri ástæða hér en nokkurs staðar að skoða viðmiðanir og framkvæmd vandlega. Þessum hugmyndum hafði verið veifað í skýrslum sem ráðherra hafði lagt fram í undirbúningi samningaviðræðna. Þar var að vísu greinilegt að skýrsluhöfundar vissu yfirleitt ekki neitt um hvað þeir voru að ræða. BÍ hefði þó samt átt að vita að þetta kæmi til umræðu. Samt var ekki hreyft litafingri í að reyna að skoða mismunandi form á slíkum stuðningi. Nútíma tækni leyfir nánast óteljandi möguleika á slíku.
Ég þykist vita að Sindri hafi samþykkt þetta með því að segja við gerum þetta þá bara sí svona. Þetta er orðalag sem hann notar títt. Ég vil benda bændum á að þegar svo er þá er hann nánast alltaf að fjalla um mál sem hann veit ekkert um eða hefur ekki nennt að leiða hugann að. Lærir sá sem lifir.
Sleppum ekki landgreiðslum strax vegna þess að í þeim held ég að mögulega felist besti grunnur að samkomulagi landbúnaðarins við samfélagið um stuðning við þessa atvinnugrein í framtíðinni. Það er því með öllu óafsakanlegt að þeir aðilar sem telja sig verja hagsmuni landbúnaðarins hafi ekki skoðað grunninn nákvæmar. Í núverandi samningi er þessi stuðningur alfarið bundinn landi sem uppskorið er til fóðurframleiðslu. Tekið sérstaklega fram að ekki sé greitt á land sem aðeins er nýtt til beitar. Undarlegt í ljósi þess að lögð er sérstök áhersla á eflingu nautakjötsframleiðslu í samningnum um nautgriparækt, einn samninganna fjallar um sauðfjárframleiðslu og að lokum er búgrein sem kölluð er hrossarækt. Hún hefur víst í meginatriðum gleymst í þessum almennu samningum Sindra. Mín skoðun er að með landstuðningi hefði með góðum vilja mátt vinna ákvæði um sérstakan bústuðning. Með því sé ég t.d. að mögulega hefði mátt opna á farsælar leiðir út úr kvótakerfinu. Þar hefði einnig mátt opna sýn fyrir sértækan byggðastuðning sem allir hljóta að viðurkenna að þarf að koma til á komandi árum eigi að halda landbúnaðarframleiðslu sem byggir á nytjum landsins. Jafnvel hefði mátt horfa til tengsla við ferðaþjónustuna sem er og verður enn meira á næstu árum hluti af landnytjum, byggðaþróun og landbúnaði hér á landi.
Þá skulum við næst snúa okkur að gripagreiðslunum. Samningarnir gera ráð fyrir því að þær verði stórauknar á samningstímanum. Öllum sem til þessara framleiðslugreina þekkja er kunn sú staðreynd að nær ávallt munu slíkar greiðslur draga verulega úr hagkvæmni í viðkomandi framleiðslugrein. Í 1. gr. búvörulaga er samt kveðið á að stuðla beri að aukinni hagkvæmni í framleiðslunni. Þig munar ekki um smá brauðmola gagnvart broti á lögunum, þeir verða fljótlega stærri og meiri. Meginmálið er þó að í desember á síðasta ári gerður þjóðir heims með sér samkomulag í loftlagsmálum. Gripagreiðslur ganga eins þvert á hugsun þá sem þar var sameinast um og má vera. Nú eru búvörusamningar m.a. rammi um nýtingu landbúnaðar á landinu. Sindri! datt ykkur aldrei til hugar að láta meta umhverfisáhrif eða kolefnisspor samninganna?
Snúum okkur þá að sauðfjársamningnum og þar vil ég reyna að vera stuttorður þar sem ég hef áður rætt fjölmörg atriði. Um hann verður aldrei hægt að hafa vægari orð en voðaverk, sem eitt og sér nægir til stöðvunar samninganna í heild.
Þennan samning skal víst gera samkvæmt búvörulögum. Áður hef ég bent á að ykkur tekst samt að brjóta nær alla töluliði 1. gr. laganna um tilgang þeirra í þessum samningi. Dável að verki staðið þar. Þið skerið umfram aðra niður stuðning við þau sauðfjárbú, sem frá náttúrunnar hendi hafa bestu framleiðsluskilyrðin, komast lengst í að stunda sjálfbæra framleiðslu eru með hagkvæmustu framleiðsluna hafa bestu beitarsvæði landsins og þannig má áfram telja. Ég hélt að andi laganna væri að auka hagkvæmni, koma á lífvænlegri atvinnugrein og láta neytendur njóta hagkvæmari framleiðslu í lægra verði. Gengið er þvert á öll slík markmið með samningnum. Frekar nánast tekinn upp dulinn útflutningsstuðningur, hlutur sem margir héldu að hefði góðu heilli verið horfið frá fyrir áratugum.
Sú tilfærsla stuðnings sem byggð er upp í þessum samningi er með ólíkindum sérstaklega þegar þetta er unnið af hagsmunaaðilum greinarinnar. Öll jafnréttissjónarmið er látin sigla sinn sjó. Alþekkt er „lekamál“ þitt í sambandi við samninginn, sem er siðferðilega forkastanlegt þó að þú tilheyrir að vísu þeim hluta þjóðarinnar sem ekki skilur slíka hugsun. Þetta mál afhjúpar hins vegar annað atriði í vinnubrögðum ykkar sauðfjársamninganefndarmanna. Sem samningsaðilar virðist þið ekki hafa skoðað einföldustu sviðsmyndir af áhrifum samninganna. Bændur verða aðeins að skoða hvort slíkum aðilum sé treystandi til að fara með samningamál þeirra. Margt fleira vekur athygli í sambandi við þessa samninganefnd. Stjórnmálaleg hnapphelda hennar er áður rædd og verður ekki endurtekin. Nefndin er eingöngu skipuð karlmönnum þó að ég þekki vel að mörg fjárbúanna byggja meira á vinnuframlagi konunnar en karlsins. Í eldri samninganefndum hafði kynjaskipting verið tekin upp. Sindri! er þessi breytinga þín núna hluti af framkvæmd sjálflofaðrar jafnréttisstefnu BÍ? Enn einn subbuskapur sauðfjársamningsins gagnvart hinum almenna þjóðfélagsþegn má ekki dauður liggja. Það er tilfærsla stuðnings frá eigendum kvóta til þeirra sem eiga lítinn eða engan slíkan rétt. Ég nota subbuskap um þetta og á því eru fleiri hliðar. Undanfarar þínir í forystu bænda hafa við fyrri samninga hvatt bændur til að nýta tilfallandi bætur í eldri samningum til að styrkja rekstur sinn með kvótakaupum. Nú gerir þú þessa ágætu menn, sem allir stóðu þér samt ótrúlega mikið framar, nánast að ómerkingum. Hin hlið subbuskaparins er sú að þegar við skoðum hvaða aðilar eru meginhópur þeirra sem eiga lítinn eða engan kvóta þá eru það aðilar sem seldu fyrir einum til tveim og hálfum áratugum þennan stuðningsrétt sinn annað tveggja til ríkisins eða stéttarbræðra. Hluti uppkaupa með ríkisfé. Þessi aðferð að færa þeim sem afsöluðu sér rétti hann aftur til þeirra með að „stela“ honum frá virkari bændum er líklega hlutur þíns siðferðisboðskapar?
Nú ert þú vonandi Sindri búinn að sjá nægar ástæður þess að vomur komi á fólk að samþykkja þessa endaleysu frá þér í vetur. Ótalmörgum minni atriðum mætti þó bæta á þennan lista. Er nokkur furða að Alþingi stoppi við endaleysuna?
Sem betur fer hafa samningarnir ekki verið samþykktir og þannig enn forðað því stórtjóni sem þeir mundu valda bændastéttinni og þjóðfélaginu. Þegar betur er að gáð þá er hins vegar ljóst að brölt þitt hefur þegar valdið bændum óbætanlegu tjóni.
Með því á ég við það stóra feilspor sem þú steigst með að ganga ekki til samninga við ríkið á þeim grunni sem Sigurður Ingi bauð bændum við setningu búnaðarþings 2015. Þess í stað mætir þú aðeins með fortíðarsýn, gersamlega án allrar undirbúningsvinnu og stefnu til samninganna síðastliðið haust. Bændur hafa aldrei haft betri samningsstöðu enn við setningu búnaðarþings 2015. Stuðningur þjóðarinnar var einnig með landbúnaðinum. Þetta hefur þér nánast tekist að eyðileggja allt með að hafa enga stefnu og því miður enga framtíðarsýn. Slíkur aðili tapar alltaf samningum.
Landbúnaðurinn hefur að ýmsu leyti aldrei átt glæstari framtíðarsýn en nú. Hún kallar hins vegar á ný viðhorf og framfaravilja. Menn lifa í breyttri veröld, veröld sem er að breytast hraðar en nokkru sinni áður. Hlutur landbúnaðar verður þar meiri en flestra annarra atvinnugreina, eigi mannkynið að komast af. Það liggur á að landbúnaðurinn fari að takast á við og móta sér stefnu gagnvart þessari nýju framtíð. Unga fólkið hefur margt miklar hugmyndir og margir eldri bændur mikla reynslu sem ætíð er gott veganesti til framtíðar kunni menn að nota það.
Sindri! Þú hefur þegar sýnt að þú hefur ekkert að færa íslenskum landbúnaði. Eins og bent hefur verið á hefur þú ef til vill þegar valdið óbætanlegum skaða. Gott verk getur þú samt enn unnið. Þú ættir að segja af þér öllum forystustörfum fyrir íslenska bændur. Reyndu líka að láta pjakkana sem unnu sauðfjársamninginn með þér fylgja þér. Þannig kemst nýtt fólk og nýjar hugmyndir fyrr á svið hjá samtökum bænda. Tíminn kallar á það.
Gerir þú þetta, Sindri, þá mun á ný birta yfir íslenskum landbúnaði.
Athugasemdir