Fljótlega hlýtur að mega segja að núverandi ríkisstjórn hafi slegið einhvers konar met í spillingu. Við erum eina ferðina enn komin á þann stað að ráðherrar hafa verið gripnir með buxurnar á hælunum.
Fyrst var það Hanna Birna Kristjánsdóttir og lekamálið, en hún þrjóskaðist við í stöðu sinni og gerði aldrei neitt rangt þrátt fyrir að gerast margoft sek um að ljúga bæði að þingi og þjóð. Þessi skrípaleikur hélt áfram í heilt ár, eða þangað til að hún sagði loksins af sér sem ráðherra. Hún er þó áfram þingmaður þótt lítið hafi heyrst af hennar störfum eftir að hún yfirgaf ráðherraembættið.
Næst var það Illugi Gunnarsson sem notfærði sér stöðu sína til þess að redda leigusala sínum viðskiptatækifæri í Kína. Hann þrjóskast enn við og heldur því fram að hann hafi ekki gert neitt rangt.
Gunnar Bragi Sveinsson ákvað að sniðganga þingið og tók þá ákvörðun nánast upp á sitt eindæmi að hætta viðræðum við ESB. En platan var þegar orðin rispuð og auðvitað gerði hann ekkert rangt frekar en þau hin. Nú er það búið að koma í ljós að þrír ráðherrar til viðbótar hafa í besta falli verið óheiðarlegir um fjárhagslegu stöðu sína. En rétt eins og með hina ráðherrana þá halda þeir því að sjálfsögðu fram að þeir hafi ekki gert neitt rangt.
Öll þessi mál eiga það sameiginlegt að ef þetta hefði komið fyrir í öðru vestrænu lýðræðisríki væri ekkert sjálfsagðara en að viðkomandi ráðherra segði af sér. Slíkt er einfaldlega mjög heilbrigt fyrir lýðræðislegt samfélag. Það gerir það að verkum að a.m.k. vottur af virðingu skapast gagnvart stjórnmálum, gagnvart stjórnmálaflokkum sjálfum og að almenningur treysti því að hann búi í réttlátu samfélagi.
Spilling er eins og sýra sem eitrar allt út frá sér og gerir fólk í samfélaginu almennt óöruggara og líklegra til að hegða sér á sama óheiðarlega hátt og ráðamennirnir.
Það virðast ekki vera nein takmörk fyrir vafasömum málum sem tengjast þessari ríkisstjórn en samt sem áður lætur hún eins og allt sé í góðu lagi. Stóra spurningin er þá hvað í ósköpunum myndi eiginlega þurfa til þess að fá eina verstu ríkisstjórn Íslandssögunnar til að segja af sér? Þarf ennþá stærra spillingarmál? Þarf ennþá stærri leka á trúnaðarupplýsingum? Stjórnmálastéttin á ennþá eftir að endurheimta traustið sem tapaðist eftir hrun. Vinstri stjórnin var ekkert til að hrópa húrra fyrir en það virðist sem svo að þessi ríkisstjórn leggi sig beinlínis fram við það að láta þjóðina vantreysta sér.
En hvað er til ráða? Vantraust mun ekki skila neinu nema ríkisstjórnarþingmenn ákveði hreinlega að vantreysta sjálfum sér. Er fólk ekki komið með nóg af spillta litla Íslandi? Er ekki kominn tími til þess að landið endurheimti stöðu sína sem vestrænt lýðræðisríki?
Þessi spillta ríkisstjórn er búin að sitja við völd í þrjú ár og virðist hegða sér eins og árin 2008-2013 hafi hreinlega aldrei átt sér stað. Það er kominn tími til þess að hætta að meðvirkninni. Það er kominn tími til þess að hætta að sitja á rassgatinu og láta okkur hafa þetta. Það er kominn tími á kosningar, helst í gær. Það er kominn tími til þess að labba niður á Austurvöll og sparka þessari ríkisstjórn út af þingi í eitt skipti fyrir öll.
Athugasemdir