Við lifum merkisárið þar sem staðleysutíminn festist í sessi og mun vara lengi. Á fyrri staðleysutímum voru nornir og Gyðingar brenndir í stórum stíl, á sitthvorri öldinni þó. Þetta er árið þar sem Bretar létu ljúga sig til að kjósa um útgöngu úr ESB sem þegar hefur slegið 20% af verðmæti Sterlingspundsins og mun mögulega leiða til nærri 10% samdráttar í landsframleiðslu. Brexit markar stóraukningu hatursglæpa gegn öllum minnihlutahópum, meira að segja hefur orðið mest aukning í hatursglæpum gagnvart hommum. Það er rökleg afleiðing því kosningar um Brexit voru ekki drifnar áfram af ígrunduðum staðreyndum heldur hatri og þegar þú magnar það í pólitískum hráskinnaleik, flæðir það í alla gamla farvegi sem áður voru næstum uppþornaðir. Bæld viðurstyggð og brenglun fær útrás undir þeim formerkjum að það sé sjálfsagt og eðlilegt „að taka umræðuna“.
Þegar staðleysan tekur völdin af upplýsingunni spretta fram á hið pólitíska svið allskyns gargandi Savonarolur sem hlaða bálkesti. Aðrar bullur fá skyndiframa í pólitík. Boris Johnson er utanríkisráðherra Bretlands.
Þetta er líka árið sem Vesturlandabúar tóku loksins eftir skelfingunni í Aleppo í Sýrlandi. Það þurfti eina mynd af umkomulausum dreng til að hreyfa við fólki, þó að skelfilegt umsátursástand hafi ríkt í Aleppo síðan 2012. Sú mynd mun þó engu skila nema í hinni pólitísku refskák, ekki fremur en myndin af drukknaða flóttadrengnum fyrir ári; flóttamenn halda áfram að drukkna, minna velkomnir í Evrópu en nokkru sinni fyrr og Sýrlandsher, með rússneskum stuðningi, mun áfram láta sprengjum rigna yfir austurhluta Aleppo.
Svo það sé á hreinu þá eru engir góðir gæjar undir vopnum í Sýrlandi því góðir gæjar eru sjaldnast undir vopnum. Lífið er ekki Hollywoodmynd en það er auðveldara að blekkja fólk til að halda það, þegar staðleysurnar deyfa öld upplýsingarinnar. Það er varasamt að fara að halda með liði í Mið-Austurlandadeildinni í frjálsum manndrápum og það hjálpar engum að útmála Assad og Pútin sem Hitler eða Stalin. Ákvarðanataka á grundvelli áróðurs og tilfinningasemi getur haft skelfilegar afleiðingar fyrir almenning, einnig sprengjurykhjúpaða drenginn í sjúkrabílnum. Jafnaldrar hans í Líbíu gætu vitnað um það - ef þeir væru ekki neðanjarðar eða múlbundnir af ógnarstjórn öfgamanna.
Hillary Clinton ætti að vita þetta. Samt stakk hún upp á flugbanni Vesturvelda vegna Aleppo. Gerði það á sunnudagskvöld í raunveruleikasjónvarpi sem ranglega hefur verið kallað kappræður. Í ræðum sem Hillary flutti bankamönnum á Wall Street og lekið var af WikiLeaks, talaði hún aftur á móti gegn aðgerð af þessu tagi. Hún sagði líka banksterunum hversu ranglátt það væri að kenna þeim um Hrunið 2008 en opnaði einnig hjarta sitt og tilkynnti þeim að stundum yrðu stjórnmálamenn að hafa eina skoðun fyrir sig en aðra til almannabrúks. Margir hafa sýnt þessari afstöðu mikinn skilning og telja sjálfsagt að menn breyti um opinbera skoðun eftir því hvernig vindar blása. Bankamenn á Wall Street klöppuðu mikið fyrir Hillary, enda voru þeir búnir að borga henni 25 milljónir króna fyrir hverja ræðu. Þeir geta líka verði vissir um að vindarnir úr Hvíta húsi Hillarys blása alltaf í þeirra segl. Og til að koma þeim skilaboðunum rækilega til skila sagði forsetaefnið að hún ætti miklu meiri samleið með þeim og millunum en millistéttinni og fátæka liðinu.
Trump er draumaandstæðingur Hillary Clintons, enda hafa nýleg lekaskjöl innan úr kosningamaskínu hennar sýnt hvernig menn ráðlögðu að lyfta honum á stall á meðan Repúblikanar voru að vandræðast með að velja forsetaefni úr tylft misólukkulegra valkosta. Fólkið í kringum Hillary vissi að líklegast væri hann eina forsetaefni Repúblikana sem hún gæti mögulega sigrað. Hún haltraði í kosningabaráttuna með þungan stein við löppina; þesskonar meðferð á trúnaðargögnum að undirmönnum hennar hefði líklegast verið stungið í steininn, ef þeir hefðu gerst sekir um hið sama. Hið eina sem gat bjargað Hillary var gargandi samhengislaus og frussandi vitleysingur. Hinn rótgróni systurflokkur Sjálfstæðisflokksins í Ameríku stóð þó þétt við bakið á Trump eða allt þar orðið „pussa“ hrökk af vörum hans í gamalli upptöku þar sem hann stærði sig af kynferðisofbeldi. Myndbandið með þessu hefur fengið álíka útbreiðslu í heiminum og Wintrisviðtalið við Sigmund Davíð. Hvorugur lætur þó bilbug á sér finna og höktir áfram í kosningabaráttu. Lýðræðið verður skrípó.
Það er þó stuðningslið Hillarys sem hefur mest apað eftir forskrift harðkjarna Sögu- og framsóknarmanna í Wintrismálinu með því að slá því föstu að lekaskjöl, sem sýna rétta andlit þeirra frambjóðanda, sé vandlega úthugsað plott Pútins Rússakeisara og WikiLeaks. Það skiptir engu máli þó engar haldbærar sannanir séu fyrir slíku og eitt hefur Hillary lært af andstæðingnum; mantraðu eitthvað nógu oft, þá breytist það í ný-staðreynd.
Staðleysutíminn sem Hollywoodmynd er lélegur bræðingur úr Apaplánetunni, 1984 og Birds. Leikararnir eru allir ömurlegir. Ofbeldið er ótæpilegt og tilgangslaust. Fullt af fjöðrum, ekkert samhengi, engin samúð. Bara garg og hávaði.
Bullið, hálfsannleikurinn og lygin er engu minni á Íslandi og rignir yfir fólk þessa dagana, jafnhraustlega og dropar himins. Fjölmiðlar hafa enga möguleika á að stemma stigu við kjaftæðinu og gera næsta jafnmikið gagn og Veðurstofan sem stoppar ekki úrhellið. Það styttir upp um síðir en staðleysuskýfallið er komið til að vera.
Þingkona, með barn á brjósti, stendur í pontu Alþingis og hvetur til þess að hælisleitendur séu í skyndi sendir út í opinn dauðann. Þjóðin fagnar.
Velkomin á Skrípaleikana.
Athugasemdir