Í nýliðinni viku voru 27 hælisleitendur sendir af landi brott, þar af tvær albanskar fjölskyldur með langveik börn. Hefur það vakið mikil viðbrögð hjá almenningi, enda hljótum við að þurfa að staldra við þegar táknmynd óréttis er 5 ára gamalt langveikt barn.
Umrætt barn er albanski drengurinn Kevi sem haldinn er slímseigjusjúkdómi. Íslenskur læknir sem daglega meðhöndlar börn með þann lífshættulega sjúkdóm óttast að Kevi muni ekki ná 10 ára aldri, enda muni hann líklega ekki hljóta fullnægjandi læknismeðferð í Albaníu. Annar íslenskur læknir, sá sem áður meðhöndlaði hinn rétt rúmlega 1 árs gamla Arjan, sem er með gat á milli hjartahólfa, segir skömm af því að senda börn með alvarlega sjúkdóma af landi brott.
Samkvæmt svörum forstjóra Útlendingastofnunar kom aldrei til greina að veita albönsku fjölskyldunum tveimur, sem hér um ræðir, hæli á Íslandi. Ástæður sem forstjórinn hefur nefnt eru almenns eðlis og vísa til þess að Albanía sé friðsælt lýðræðisríki. Forstjórinn hefur auk þess skýrt ákvörðun Útlendingastofnunar á þá leið að starfsmenn stofnunarinnar fari að lögum og reglum sem Alþingi setji og að ekki sé forsenda til að endurskoða ákvarðanir sem byggjast á þeim lögum og reglum.
Hins vegar, þegar ástand heilbrigðiskerfisins í Albaníu var borið undir forstjóra Útlendingastofnunar í viðtali á RÚV svaraði forstjórinn að hún kæmi „bara af fjöllum“. Nánar tiltekið hafði forstjórinn ekki hugmynd um stöðu heilbrigðismála í Albaníu og afsakaði þá vanþekkingu sína með vísan til þess að hún væri ekki „inni í öllum málum“.
Svör forstjóra Útlendingastofnunar eru með öllu óásættanleg.
„Þar er vankunnátta forstjórans óafsakanleg.“
Í fyrsta lagi þar sem allar ákvarðanir sem teknar eru af Útlendingastofnun eru teknar í nafni forstjórans eða af hennar undirmönnum. Það er sjálfsögð krafa að forstjóri ríkisstofnunar kynni sér af eigin raun aðstæður í þeim ríkjum sem stofnunin kannar við mat á því hvort veitt skuli hæli eða dvalarleyfi hérlendis. Einkum og sér í lagi í þeim málum sem varða mikilsverð mannréttindi barna. Þar er vankunnátta forstjórans óafsakanleg.
Í öðru lagi stoðar ekki fyrir Útlendingastofnun að skýla sér á bakvið almenn sjónarmið og almennar skilgreininingar á stöðu mála í Albaníu til réttlætingar á framkvæmd þessa tveggja mála. Það verður að skoða sérhvert mál með hliðsjón af staðreyndum þess og sérstökum aðstæðum. Það virðist ekki hafa verið gert með fullnægjandi hætti hér enda ríkir óvissuástand um hvað tekur við hjá langveiku drengjunum tveimur í Albaníu.
Áreiðanlegar heimildir gefa til kynna að ástand heilbrigðisþjónustu í heimaríki drengjanna sé ófullnægjandi. Í úttekt World Bank frá árinu 2013 kemur fram að mikils ójöfnuðar gæti um aðgengi að heilbrigðisþjónustu í Albaníu. Í nýlegri skýrslu UNICEF er tekið undir þetta sjónarmið og greint frá því að viðkvæmir hópar, þ.m.t. börn, eigi undir högg að sækja í þessum efnum. Ekki sé hægt að líta svo á að nauðsynleg heilbrigðisþjónusta sé tryggð veikum börnum í Albaníu. Ástæður sem nefndar hafa verið fyrir því eru þær að borgarar ríkisins greiða fyrir heilbrigðisþjónustu úr eigin vasa, með örfáum undantekningum. Efnaminni einstaklingar eigi því ekki ætíð kost á heilbrigðisþjónustu.
Í þriðja lagi þýðir ekki að skella skuldinni á löggjafann. Ástæða þess er sú að rétt beiting lagaheimildar í 12. gr. f. útlendingalaga hefði getað tryggt drengjunum tveimur og fjölskyldum þeirra öruggt skjól. Ákvæðið er kýrskýrt og mælir fyrir um að heimilt sé að veita útlendingi dvalarleyfi hér á landi af mannúðarsjónarmiðum geti hlutaðeigandi „sýnt fram á ríka þörf á vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum […].“ Áfram greinir frá því að sérstaklega skuli taka „tillit til þess ef um barn er að ræða og skal það sem barni er fyrir bestu haft að leiðarljósi við ákvörðun.“
Ákvæðið kom nýtt inn í lögin árið 2010 og því er ætlað að samræma ákvæði íslenskra laga við alþjóðlegar skuldbindingar á borð við Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Orðalaginu samkvæmt er því ætlað að tryggja að langveik börn verði ekki send af landi brott í óvissuástand, svo sem hér hefur verið gert. Er ákvæðinu þannig ætlað að vernda mikilsverð mannréttindi barna. Útlendingastofnun bar auk þess að túlka það til samræmis við ákvæði stjórnarskrár og mannréttindasáttmála Evrópu um vernd friðhelgis fjölskyldna og um bann við mismunun á grundvelli þjóðernis. Allt framangreint hefði átt að tryggja að drengjunum og fjölskyldum þeirra yrði veitt dvalarleyfi af mannúðarástæðum enda ber að skýra mannréttindaákvæði einstaklingum í hag.
Stjórnvöld verða hins vegar að hafa vilja og hugrekki til þess að beita mannréttindaákvæðum á borð við 12. gr. f. útlendingalaga. Hvorugu var fyrir að fara hjá Útlendingastofnun í tilviki albönsku fjölskyldanna. Með hliðsjón af því sem hér hefur verið reifað virðist hugleysi, vankunnátta á lögum og skortur á vilja til að sýna mannúð hafa stýrt þeirri ákvörðun.
Samandregið tel ég því að skömm heilbrigðisstarfsfólks og reiði almennings vegna þessa máls sé fyllilega réttlætanleg. Stjórnvöld standa einfaldlega ekki í lappirnar fyrir sjálfsögðum mannréttindum. Ég tel einboðið að íslensk þjóð tryggi að langveik börn sem hingað leita fái fullnægjandi heilbrigðisþjónustu, svo samræmist því sem þeim telst vera fyrir bestu hverju sinni, og séu ekki gerð brottræk. Ég tel að okkur beri lagaskylda til þess, bæði samkvæmt íslenskum lögum og alþjóðlegum skuldbindingum, sé ekki fyllilega ljóst að þau fái lífsnauðsynlega meðferð hið ytra.
Komum í veg fyrir að mannréttindabrot af þessum toga eigi sér stað að nýju og munum að það er aldrei of seint að skipta um skoðun.
Athugasemdir