Það er frábært að vera karlmaður. Í heimi sem er skapaður af körlum fyrir karla og stjórnað af körlum sem ráða frekar karla og gefa þeim betri störf, hærri laun og meiri tíma í fjölmiðlum. Auk þess virðist körlum ganga betur í prófkjörum, minni útlitskröfur eru gerðar til þeirra, við förum ekki á blæðingar og enginn krefst þess að við séum á pinnahælum.
Þegar allt þetta er tekið saman þá er stingur sú staðreynd að karlmenn eru rúmlega þrefalt líklegri til þess að fremja sjálfsvíg talsvert í stúf. Ætti feðraveldið ekki að vera að gera okkur hamingjusamari? Við sem erum svo svakalega harðir og sterkir og skeggjaðir og víkingar og húh!
Mín karlmennska liggur rotnandi í illa hirtri gröf sinni og ég heimsæki hana sárasjaldan, yfirleitt fyrir slysni og aldrei með blóm. Ólíkar kröfur og væntingar samfélagsins (og athugaðu að VIÐ, ég og þú, erum samfélagið) til þess hvernig fólk á að hegða sér eftir kyni koma nefnilega ekki aðeins niður á konum. Rétt eins og konur geta verið talsmenn feðraveldisins þá geta karlmenn líka verið fórnarlömb þess.
Mér finnst gaman að sauma út, slúðra, vera í hringum börn og elda mat. Allt eru þetta hlutir sem hefðbundið er að kvengera. Þegar ég var barn vildi ég frekar sofa í náttkjólum en pabba var illa við það. Kannski var hann hræddur um að ég yrði hommi? Eitthvað: "Mmm, gott a'ðofa í náttgjól, nú vil é þjúga tittling." Ég hef unnið á vinnustöðum þar sem aðeins störfuðu konur; á leikskóla, við hjúkrun og í íbúðarkjörnum fyrir fatlaða. Ég er enn í virku sambandi við vinkvennahóp sem ég var hluti af í gaggó Mos.
"Mmm, gott a'ðofa í náttgjól, nú vil é þjúga tittling."
Eftir því sem ég klæddi mig meira úr þeirri skilyrðingu að sem karlmanni þá ætti mér að finnast ákveðnir hlutir skemmtilegir og áhugaverðir en aðrir ekki af því þeir eru kvenlægir varð lífið skemmtilegra. Ég hætti að neita sjálfum mér um áhugaverðar upplifanir af því ég væri ekki með réttu kynfærin í þær. Ég hætti að reisa veggi og fór að vökva blóm.
Einn steingerving karlmennskunnar reyndist mér hins vegar erfiðara að uppræta. Þögnina um neikvæðar tilfinningar mínar. Munaði ekki miklu að sú þögn færi með mig í snöruna. Ég ræddi aldrei neitt. Mér fannst samræður um neikvæða líðan mína jafngilda tapi. Skammaðist mín fyrir þunglyndið og reyndi án árangurs að hugsa mig út úr því. Það er vonlaust, því lausnin felst í heiðarleika.
Samkvæmt rannsóknum þá virðast kynin gráta jafn mikið fram eftir aldri, en upp úr 13 ára aldri þá hætta strákar að gráta. Þeim er kennt að þeir eigi ekki að vera að þessu væli. „Ertu algjör kerling? Grenjandi eins og stelpa!“ Mjög oft er það tengt við kynferði; að vera hommalegur. Kvenlegur. Veikburða. Ekki-karlmaður.
Þannig okkur er kennt að gráta ekki. Vera ekki að gaspra um það þó okkur líði soldið illa. Afleiðingin er sú að karlmenn loka þessar neikvæðu tilfinningar sínar ofan í kistu. Setja keðju utan um og lás á keðjuna. Henda kistunni í sjóinn, hnykla svo vöðvana og drepa sig.
Athugasemdir