„Mikil verðmæti fólgin í fagurfræðinni,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson í viðtali við Morgunblaðið árið 2007. Hann sagði það skipta allt bæjarfélagið máli að miðbærinn væri aðlaðandi. Rannsóknir sýndu að ástand í úthverfum væri einnig betra í þeim bæjum, fólki liði betur og húsnæðisverð væri hærra þar en ella.
Tveimur árum síðar er Sigmundur Davíð enn ferð á síðum Moggans, en nú er tilefnið sigur hans í formannskjöri Framsóknarflokksins. Blaðið segir í umfjöllun sinni að Sigmundur hafi stigið inn í sviðsljósið í kjölfar innleggja hans til skipulagsumræðunnar. Þar hafi hann þótt tala af mikilli yfirsýn og þekkingu.
Í fyrri umfjölluninni er Sigmundur Davíð titlaður doktor í skipulagsfræðum en í seinna skiptið er lítillega dregið í land varðandi menntunina. Þar segir: „Nú standa mál svo að hann hefur lokið við að skrifa doktorsritgerð um þessi mál á sviði skipulagshagfræði og bíður þess eins að finna tíma til að verja hana fyrir Oxford-háskóla.“
Fréttatíminn hnaut um þetta ósamræmi og gerði í kjölfarið athyglisverða uppgötvun. Formaðurinn ungi var fjórsaga um menntun sína. Auk doktorsgráðunnar hafði hann lokið framhaldsnámi í hagfræði og stjórnmálafræði, menntað sig í hagrænni landafræði og titlaði sig sem skipulagshagfræðing eða „independent architecture and planning professional“.
Þessu svaraði Sigmundur Davíð á heimasíðu sinni og gerði með sæmilegum hætti grein fyrir skólagöngunni. Við sama tækifæri gagnrýndi hann vinnubrögð Fréttatímans og sagði ritstjórann hafa andúð á sér. Hann skoraði loks á aðra fjölmiðla að hafa samband við sig þegar um er að ræða „álitamál af þessum toga“.
Þetta væri allt gott og blessað ef öll spilin hefðu verið lögð á borðið. Svo er hins vegar ekki; hann heldur enn nokkrum spilum þétt að sér. Sigmundur Davíð hefur nefnilega í tvígang neitað fjölmiðlum um aðgang að upplýsingum um námsferilinn í Oxford-háskóla.
Hann segir reyndar í svari sínu til Fréttatímans að hann hafi verið fimm ár í námi við Oxford án þess þó að hafa lokið þar doktorsgráðu. En hvað þýðir það? Fullyrðing gæti átt við um alla sem ekki hafa lokið doktorsgráðu og segir ekkert um framvindu námsins.
Fjölmiðlar eiga heimtingu á þessu samtali við Oxford-háskóla í ljósi þess hve margsaga forsætisráðherra hefur verið um skólagöngu sína – námsferillinn er nefnilega ekki álitamál og yfirleitt er frekar auðvelt að gera grein fyrir honum. Oxford gæti til dæmis svarað því hvort að hann hafi verið í doktorsnámi og hversu langt hann var kominn. Átti hann virkilega bara eftir að verja ritgerðina?
Enginn á þó meiri heimtingu á svarinu en íslenska þjóðin. Hann verður – eins og allir aðrir opinberir starfsmenn – að gera grein fyrir menntun sinni á fullnægjandi hátt. Öðruvísi vitum við ekki hvort hann sé hæfur til þess að taka ákvarðanir í þeim risastóru skipulagsmálum sem hann lætur sig varða.
Það er nefnilega ekki víst að allir átti sig á framgöngu forsætisráðherrans í skipulagsmálum frá því hann tók við embætti árið 2013. Eitt af fyrstu verkunum var að færa Minjastofnun undir forsætisráðuneytið og þar með öðlaðist hann áhrifavald til húsfriðunar. Seinna tók hann sér vald (frá sveitarfélögunum) til að úrskurða hvaða svæði í byggð skyldi vernda, en ákvörðunin byggir meðal annars á huglægu mati hans sjálfs um hvað telst menningarlega mikilvægt.
Hér mætti spyrja fjölmargra spurninga: Hvers vegna í veröldinni ættu þessi mál að heyra undir forsætisráðherra? Hvers vegna stoppaði þessi glórulausa tilfærsla á völdum ekki einhvers staðar á leið sinni í gegn um stjórnsýsluna? Og hvað ætlar Sigmundur Davíð sér að gera með öll þessi völd í skipulagsmálum?
Skoðum nú nokkrar embættisfærslur í þessu ljósi og spyrjum hvort þær endurspegli hagsýni og góða starfshætti. Eru þetta ákvarðanir skipulagshagfræðings?
1. Ríkisstjórnin hefur áformað að dreifa flugumferð um landið og henni má vel hrósa fyrir það. Til þess að ná þessu góða markmiði væri langbest að færa Reykjavíkurflugvöll til Keflavíkur og búa þannig til „tengistöð“ fyrir alla innanlandsflugvellina. Ljóst er að öll sveitarfélög landsins myndu hagnast mikið á þessari lausn.
Ríkisstjórnin undir forystu Sigmundar Davíðs hefur hins vegar valið aðra leið. Hún ætlar að nota opinbert fé til þess að niðurgreiða flugmiða frá útlöndum til Egilsstaða.
2. Forsætisráðherra lætur skyndifriða steinhleðslu sem alla tíð hafði verið hulin mannanna augum; fyrstu tíu árin undir sjó og næstu sjötíu undir mold og malbiki. Ekki er hægt að segja að hún hafi verið mjög gömul, bara nokkrum árum eldri en Ólafur Ragnar Grímsson.
Sigmundur Davíð ákvað að færa hleðsluna stein-fyrir-stein og hætta á að kostnaðurinn félli á ríkissjóð. Þessi heimskulegi steinaburður gæti kostað þjóðina hálfan milljarð króna, en upphæðina mætti til dæmis bera saman við þann 300 milljón króna niðurskurð sem nú bíður Rúv.
3. Forsætisráðherra áformar að reisa nýja skrifstofubyggingu Alþingis samkvæmt hundrað ára gamalli teikningu Guðjóns Samúelssonar. Með þessu, sagði hann við blaðamann Vísis, munu nýjar kynslóðir arkitekta samtímans fá einstakt tækifæri til þess að vinna með Guðjóni og reisa þetta glæsilega hús.
Stjórn Arkitektafélags Íslands hefur bent á að tillagan um að „hanna með Guðjóni“ sé ófagleg og hefur ítrekað skorað á stjórnvöld að fá að vera með í ráðum. Stjórnarmeirihlutinn hefur hins vegar kosið að hlusta ekki á sérfræðingana og samþykkti nýlega að veita 75 milljónum króna til verksins.
Andri Snær Magnason rithöfundur dregur fram fáránleika málsins í nýlegum skrifum og segir meðal annars: „Að forsætisráðherra ákveði sjálfur útlit og hönnun opinberrar byggingar er fáheyrt og fordæmalaust í vestrænu lýðræðisríki. Að hugmyndin sé þó komin svo langt sýnir algeran dómgreindarskort í hans nærumhverfi og afhjúpar alvarlega veikleika í stjórnsýslu Íslands.“
Mörg spurningarmerki hanga yfir ákvörðunum Sigmundar Davíðs í skipulagsmálum og þar virðist sérviska hans ráða för öðru fremur og tilhneiging til að geyma allt sem honum finnst sögulegt og sérstakt. Hann sniðgengur sérfræðingana og eyðir himinháum fjárhæðum á óábyrgan hátt í gæluverkefni. Í þessu ljósi berast því böndin aftur að menntuninni.
Sigmundur Davíð verður hreinlega að gera hreint fyrir sínum dyrum og veita fjölmiðlum heimild til þess að grennslast fyrir um námsferil sinn í Oxford-háskóla. Öðruvísi getur hann ekki gefið sig út fyrir að hafa kennivald í þessum fræðum; orð hans endurspegla í besta falli skoðanir áhugamanns.
Athugasemdir