Stutt yfirferð á ótrúlegri atburðarrás gærkvöldsins. Hér eru aðalatriðin tekin saman í óbeinum tilvitnunum.
19:34 - Financial Time (á Twitter)
Sigurður Már Jónsson, upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar: Sigmundur Davíð leggur til að Sigurður Ingi taki við forsætisráðuneytinu um „óákveðinn tíma“. Sigmundur Davíð hefur ekki sagt af sér sem forsætisráðherra.
21:05 – Kjarninn skrifar frétt um málið
21:41 – Vísir
Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmaður forsætisráðherra: Sigmundur Davíð „stígur til hliðar“ og Sigurði Ingi tekur við forsætisráðherraembættinu í „óákveðinn tíma“. Óákveðinn tími „gæti“ til dæmis verið fram að næstu kosningar, en ekki er ljóst hvenær þær verða haldnar.
Innskot: Jóhannes Þór segir að þetta „gæti“ verið tilvísun í tímasetningu næstu kosningar. Með þessu orðalagi er þeim möguleika hins vegar haldið opnum að Sigurður Ingi hafi einungis tekið við keflinu „tímabundið“ og að Sigmundur Davíð geti snúið aftur í stól forsætisráðherra seinna á þessu kjörtímabili.
Jóhannes Þór: Við erum stödd í limbói. Forsætisráðherrann hefur ekki sagt af sér. Hann ætlar hins vegar að „stíga til hliðar“. Það mun verða tilkynnt fjölmiðlum þegar hann skilar umboði sínu til forsetans.
Innskot: Jóhannes Þór bætti við á RÚV að „væntanlega“ sé verið að tala um næstu daga. Hér er möguleikanum haldið opnum að hann sitji í stóli forsætisráðherra lengur.
„Forsætisráðherrann hefur ekki sagt af sér. Hann ætlar hins vegar að „stíga til hliðar“.“
22:22 – Mogginn
Jóhannes Þór: Það má vel vera að einhverjir misskilji þetta, en þetta er orðalagið í tillögunni nákvæmlega.
Innskot: Hér vísar Jóhannes Þór í tillöguna sem Sigmundur og Sigurður Ingi sömdu og lögðu fyrir þingflokk Framsóknarflokksins, þar sem lagt er til að Sigurður Ingi taki við embætti forsætisráðherra (hana má lesa neðst í frétt Moggans).
Blaðamaður Moggans: Hvergi er talað um í tillögunni að Sigurður Ingi taki við embætti forsætisráðherra í ótilgreindan tíma.
Jóhannes Þór: Þetta er þannig sem þeir orða þetta þegar þeir koma út og ég hef ekkert heyrt neitt annað en að það hafi verið þetta sem menn sammæltust um.
Samantekt
Sigmundur Davíð og þau tungl sem honum fylgja eru með einhvers konar ráðabrugg í gangi. Tilkynnt var um afsögnina klukkan hálffjögur og hún virtist vera skýr. Fjórum klukkustundum síðar var sendur póstur á erlenda fjölmiðla (!) þar sem boðið var upp á orðaleiki og þannig opnað fyrir möguleikann að um misskilning hafi verið að ræða.
„Plottið er augljóst: Sigurður Ingi tekur við keflinu á meðan storminn lægir.“
Líklega var ætlunin að manipúlera erlendu fjölmiðlana til þess að hafa áhrif á umræðuna hér heima – eða, hvernig væri annars hægt að útskýra þetta útspil fjölmiðlafulltrúans?
Sigmundur Davíð veitti engin viðtöl í gær og það er mögulega hluti af leiknum. Hann kveður ekki þjóðina, vegna þess að hann er ekki á förum. Hann steig einfaldlega til hliðar, tímabundið.
Plottið er augljóst: Sigurður Ingi tekur við keflinu á meðan storminn lægir. Þá kemur Sigmundur Davíð með einhverja pappíra sem „sanna hið rétta“ í Tortóla-málinu og kemur sér aftur fyrir í forsætisráðuneytinu.
Auðvitað er þetta ekki í lagi – ekki frekar en að Sigurður Ingi taki við æðsta embætti landsins. Nú er komið nóg af útúrsnúningum og brellum. Þjóðin hefur verið höfð að fífli hvað eftir annað, og það er bara ekki í boði lengur. Boða verður til kosninga hið fyrsta.
Athugasemdir