Stundum er sagt að hver einasti Íslendingar gangi með lítinn rithöfund í maganum og að hvergi í heiminum komi út jafn margar bækur á ári hverju miðað við höfðatölu. Ég ákvað því að láta til mín taka og sendi eftirfarandi hugmynd mína um pólitískan reyfara á til útgefanda í Reykjavík.
Hugmyndin var á þessa leið: Ég hafði hugsað mér að láta sögusviðið vera lítið eyríki —köllum það bara Engey þangað til mér dettur betra nafn í hug— þar sem megin útflutningsatvinnugreinarnar eru fiskveiðar og stóriðja.
Sagan hefst á því að lítill hópur ungra hugsjónamanna sem kallar sig Járnbrautarhópinn er orðinn leiður á þessu staðnaða og fábrotna samfélagi. Þeir ráðgera að umbylta samfélaginu í einskonar draumaland Margrétar Thatcher, sem er í guðatölu hjá hugmyndafræðilegum leiðtoga hópsins. Nú skyldi virkja allt það fé sem hafði um aldir legið dautt og án hirðis. Grætt og grillað.
Aðalhetjasöguhetjan er einn félaga Járnbrautarhópsins. Hann er heillandi og glúrinn náungi sem er drifinn áfram af mikill metorðagirnd. Hann brýst til valda í stjórnmálaflokki, verður forsætisráðherra og óskoraður leiðtogi um langt árabil. Með hugmyndafræðinginn sér við hlið ræðst hann í að einkavæða alla banka og bitastæð ríkisfyrirtæki af kappi fremur en forsjá. Nokkrum árum síðar skipar svo sjálfan sig miðbankastjóra eyríkisins og félaga sinn úr Járnbrautarhópunum, sem hafði alla tíð verið honum handgengin, sem sinn eftirmann. Verandi miðbankastjóri kemur það í hlut hetjunnar okkar að veita ný-einkavæddu bönkunum aðhald og tryggja fjármálastöðugleika. Til slíks þarf einmitt sterka menn.
Leiðtoga sem geta tekið af skarið þegar á þarf að halda. Og þar situr hetjan okkar á skrifstofu sinni, svörtuloftum, yfir sköpunarverki sínu.
Til að skapa spennu þarf hetjan okkar auðvitað slyngan og sterkan höfuðóvin. Eftir harða baráttu í þjóðþinginu, sem hann tapar, nær óvinurinn kjöri sem forseti Engeyjar. Forsetinn er gamall vinstrimaður og fyrrverandi ráðherra sem þekktur var fyrir að velgja auðvaldinu undir uggum með háum sköttum og taldi hetjunni okkar búa yfir skítlegu eðli. Sniðugt en kannski svolítið fyrirsjáanlegt. Þess vegna datt mér í hug að koma lesandanum á óvart og koma með áhugaverðan snúning hér.
Sem forseti tekur fjandvinurinn algerum hamskiptum og verður að áköfustu klappstýru fjármála- og braskvæðingar samfélagsins, sköpunarverks hetjunnar okkar og flýgur í einkaþotum viðskiptajöfra út um allar koppagrundir. Svo alger er viðsnúningurinn að forsetinn setur fram kenningu um eðlislæga yfirburði eyjarskeggja í flestu sem þeir taka sér fyrir hendur, sérstaklega fjármálabraski af öllu tagi.
Í upphafi virðist allt leika í lyndi, byggingakranar spretta upp eins og gorkúlur, prentvélar hafa ekki undan að prenta ástarbréf og jöklabréf og skuldabréf. Vinir og sérstakir vildarvinir veita hvorum öðrum kúlúlán, skrifuð á servíettupappír og hlutabréf fara í hringekju milli viðskiptafélaga og hækka sífellt í verði. „If you say jump, we say how high“. Pastað er kryddað með gullflögum. Eyjarskeggjar byggja, kaupa nýja bíla og sjást á listum yfir ríkasta fólk heims. Allt virtist mögulegt.
En allar góðar spennusögur innihalda dramatísk jafnvel óhugnanleg augnablik. Eins og að í morðsögum verður að vera morð verður pólitískur reyfari að innihalda svik og samsæri og helst tengslum við hallarbyltingar og efnahagsáföll. Í þessari mergjuðu sögu höfum við allt þetta.
Vendipunktur sögunnar er fordæmalaust efnahagshrun eyríkisins. Fjölþjóðlegt samsæri illa innrættra útlendinga sem öfunda eyjarskeggja og undir forystu þjóðar sem á harma að hefna vegna áratuga gamallar landhelgisdeilu verður til þess að allir risavöxnu ný-einkavæddu bankarnir hrynja til grunna. Og það á meðan hetjan okkur situr vaktina í Svörtuloftum. Eyjarskeggjarnir og fólk í mörgum öðrum löndum sér fram á að tapa öllu sparifé sínu.
Við þetta rís almenningur upp gegn skósveinum hetjunnar í ríkisstjórninni og krefst þess líka að hetjan okkar verið látin taka pokann sinn í Miðbankanum. Samviskulausir og tækifærissinnaðir vinstrimenn sjá sér þá leik á borði og ganga í lið með hinum illu erlendu öflum og eru tilbúnir til að selja sál sína og þjóðina í skuldafjötra til að ná höggstað á hetjunni okkar og þegar þeir komast til valda reka láta þeir okkar mann taka pokann sinn og semja við myrkraöflin.
Ekki nóg með það. Til að réttlæta misgjörðir sínar og slá ryki í augu eyjarskeggja er samin óendanlega löng „rannsóknarskýrsla“ um þetta svokallaða hrun þar sem bönkunum eyjarskeggja, eftirlitsstofnunum og hetjunni okkar er kennt um allt saman í stað þess að fletta ofan af samsærinu. Ekkert er þeim heilagt, ekki einu sinni sjálf stjórnarskráin. Þau hefjast handa við að skrifa nýja stjórnarskrá með beinu lýðræði, þjóðareign á auðlindum, aðskilnaði ríkis og kirkju og ýmsu fleiru ætluðu til þess að brjóta áhrif Járnbrautarhópsins endanlega á bak aftur. Með hetjulegri baráttu tekst þó að afstýra þessu, í það minnsta tímabundið.
Hetjan okkar er ekki af baki dottinn. Með dyggum stuðningi gamalla samherja gerist hann ritstjóri og hefst handa við að koma vitinu aftur fyrir þjóð sína. Og hér kemur svo gamli fjandvinurinn aftur til sögunnar. Hann er enn forseti þrátt fyrir að hafa sætt harðri gagnrýni fyrir framgöngu sína eftir hamskiptin. Enn skiptir hann um ham og tekst að endurheimta fyrri vinsældir sínar þegar hann kallar fram þjóðaratkvæðagreiðslur um samningana við myrkraöflin. Skyndilega standa þessir gömlu fjendur frami fyrir því að eiga sameiginlegan óvininn og sjá að þeir verða að vinna saman ef takast á að stöðva hann.
Eftir fjögurra ára stjórn landráðamannanna tekst þeim að koma vitinu aftur fyrir hluta eyjarskeggja, flokkar hliðhollir hetjunni okkar komast í ríkisstjórn. Þó oft gefi á bátinn næstu árin tekst þeim þó með leiðsögn hetjunnar okkar og forsetans að standa af sér margar harðar atlögur. Og hugmyndafræðingur Járnbrautarhópsins er fenginn til þess af ríkisstjórninni að skrifa nýja og réttari rannsóknarskýrslu til þess að hrekja þá fyrri og fletta ofan af djöfullegu samsæri útlendinganna.
Og dregur þá að lokaatriði sögunnar.
Þegar þarna er komið er forsetinn orðinn vígalúinn og þráir frelsið sem skyldur embættisins meina honum. En hann lætur þó til leiðast að undirlagi sameiginlegra stuðningsmanna sinna að bjóða sig fram einu sinni enn þar sem uppljóstranir um skattamál ráðherra í ríkisstjórninni skapa óvissu sem hefði geta leitt myrkraöflin aftur til valda. En stuttu síðar lendir forsetinn í samskonar vanda og sér ekki fram á að ná kjöri að nýju.
En þegar neyðin er stærst stíga hetjurnar fram. Því þá þarf sterka menn með sterk bein. Leiðtoga sem geta tekið af skarið. Menn eins og hetjuna okkar.
Í lokaköflunum segir frá æsilegri endurkomu og baráttu hetjunnar okkar og hvarmar lesenda munu vökna þegar segir frá því í sérstaklega tilfinningaríkri senu hvernig forsetinn dregur framboð sitt til baka og hinir rosknu fjandvinir rifja upp brotakenndar sameiginlegar æskuminningar og lofa framlag hvors annars í baráttunni gegn landráðum og stjórnarskrárbreytingum.
Ef sögur eiga að geta orðið að Hollywoodkvikmynd verða þær að enda vel og þess vegna nær hetjan okkar að lokum að tryggja sér sigur í forsetakosningunum 2016 og leiða þjóðinni fyrir sjónir að hann hafði alltaf á réttu að standa og að hann var sá eini sem stóð vaktina fyrir þjóð sína meðan aðra brast kjark. Við það færist friður yfir eyríkið og eyjarskeggjar hætta að stökkva upp á nef sér út af smámunum og finna enn á ný huggun og leiðsögn í hugmyndafræði Járnbrautarhópsins. Og hetjan okkar situr á friðarstóli þangað til hann deyr í hárri elli.
Það er skemmst frá því að segja að útgefandinn sendi drögin til baka og þakkaði mér fyrir áhugann en sagðist ekki treysta sér ekki til að gefa söguna út. Hann taldi að söguþráðurinn væri allt of ótrúlegur til að halda lesandanum í spennu og að endirinn væri alveg út í hött. En hann benti mér á að ef til vill væri hugmyndin betri grunnur að ærslafengnum farsa með leikurum úr Spaugstofunni. Það mætti alveg vinna með það.
Athugasemdir