Fréttaflutningur síðustu daga varðandi íbúafundinn á Kjalarnesi hefur verið á þann veg að ég finn mig knúinn til þess að leiðrétta ýmsar rangfærslur sem komið hafa fram. Ég nefnilega var á þessum fundi og skynjaði hann greinilega allt öðruvísi en flestir aðrir fundargestir. Hér er mín upplifun.
Eftir að hafa lagt við hliðina á gulum Hummer jeppa sem stóð uppi á gangstétt gekk ég inn í hið fornfræga félagsheimili Fólkvang. Inni voru flest sæti upptekin, en ég fann þó eitt, settist, og fylgdist með því þegar Sigþór Magnússon, talsmaður íbúa Kjalarness á fundinum, steig upp í pontu.
Sigþór var að mestu mjög málefnalegur. Gagnrýndi til dæmis þau mistök að koma hælisleitendanna á Arnarholt hefði ekki verið kynnt almennilega fyrir íbúum. Einnig tók hann sérstaklega fram að íbúum þætti óþægilegt að „þessir menn” sætu löngum stundum í búningsklefa sundlaugarinnar, vefðu sér sígarettur og segðu skrítlur.
Á eftir Sigþóri kom svo upp í pontu Kristín Völundardóttir, forstjóri Útlendingastofnunar. Hún útskýrði fyrir íbúum hvað hafi orðið til þess að ákveðið var að fara þessa leið. Gríðarlegur fjöldi flóttamanna flæddi nú yfir Evrópu frá stríðshrjáðum löndum í suðri og að kerfið hefði alls ekki verið undirbúið fyrir þessa óvæntu aukningu sem fór að gæta í lok síðasta sumars. Eftir örútboð hefði verið gerður skammtímasamningur til hálfs árs við eigendur Arnarholts um að hýsa þar allt að 50 hælisleitendur og að þann samning stæði ekki til að framlengja. Sagði hún stofnunina vera nýja á þessum markaði og því við því að búast að mistök yrðu gerð. Hún sagðist einnig harma ónæði sem íbúar hefðu orðið fyrir, og vildi glöð taka við ábendingum um hvað mætti betur fara hjá stofnuninni.
Föruneyti óttans
Það var á meðan Kristín talaði sem ég fór fyrst að skynja stemninguna meðal fundargesta. Fyrir framan mig sátu tvær eldri konur sem hristu hausinn meira og minna allan tímann á meðan hún hélt sína tölu. Fyrir aftan mig sátu nokkrir þrútnir eldri menn sem muldruðu nægilega hátt til þess að það heyrðist „djöfulsins kjaftæði” og aðra álíka frasa, alltaf þegar þeir voru ósammála einhverju. Víðar um salinn fór ég að finna fyrir titringi og reiði. Ég ákvað því að standa upp og vera fyrir utan hópinn til þess að fylgjast með og taka ástandið inn.
„Reynum að vera málefnaleg og kurteis.”
Um leið og Kristín lauk máli sínu ætluðu nokkrir fundargestir að fá að tjá sig um hennar framsögu, byrjuðu að rétta upp hendur og sumir byrjuðu að tala hvor ofan í hinn. Fundarstjóra tókst hins vegar að fá fólk til þess að hemja sig, meðal annars með því að kyrja „reynum að vera málefnaleg og kurteis“ þar til Björn Blöndal, fulltrúi Reykjavíkurborgar, væri búinn að tala.
Björn ræddi útfærslur og nálgun borgarinnar, fór meðal annars yfir það að mennirnir hefðu aðgang að strætisvögnum til þess að komast leiðar sinnar, hefðu aðgang að sundlauginni og að bókasafninu. Allir væru af vilja gerðir til þess að gera dvöl þeirra sem þægilegasta fyrir bæði þá og íbúa staðarins.
Orkumikill ótti
Eftir að Björn lauk máli sínu var opnað fyrir mælendaskrá og rétti ung stúlka upp höndina. Fyrst hafði ég tekið eftir vinkonu hennar, sem sat við hliðina á henni, með himinblátt sítt hár, en þegar þessi stóð upp og opnaði á sér munninn var af nógu að taka. Hún var í svörtum alklæðnaði, með svart litað hár, og gríðarlega brún í framan, sérstaklega miðað við rétt hálfnaðan marsmánuð. Hún var með sólgleraugu á höfðinu, lokk í vörinni, og hélt á Monster-Energy drykk. Ekkert af þessu skiptir þó eins miklu máli og það sem hún hafði að segja.
Málflutningurinn var meira eins og ef virkur í athugasemdum á DV hefði gengið í svefni að lyklaborðinu sínu og skallað það í nokkrar mínútur.
Fyrirspurn hennar var ekki beint að neinum af þeim sem haldið höfðu tölu á fundinum, ekkert frekar en öskur úti í skógi er beint að trjánum. Málflutningurinn var meira eins og ef virkur í athugasemdum á DV hefði gengið í svefni að lyklaborðinu sínu og skallað það í nokkrar mínútur, því samhengið í orðunum var ekkert. Hræðsla og reiði var ástandið. Hún titraði þegar hún lýsti því að „þetta fólk kemur úr allt annarri menningu”, og að þrátt fyrir að enn hefði ekkert komið upp á sem ætti að benda til þess að einhver ógn stafaði af mönnunum þá vildi hún meina að aðeins væri tímaspursmál hvenær það gerðist. Reglulega fannst henni samt þörf á að bæta inn í romsuna sína „þetta eru ekki fordómar sko!“.
Eftir að stúlkan hafði lokið máli sínu eða að minnsta kosti sest niður, stóð Kristín upp og reyndi eftir fremsta megni að svara því sem stúlkan hafði sagt, eins og um hefðbundna spurningu hefði verið að ræða. Það reyndist hins vegar erfitt þar sem stúlkan með Monster-Energy drykkinn greip stöðugt frammí fyrir Kristínu. Vinkona hennar með bláa hárið og aðrir fundargestir efldust við þessa framkomu hennar og fóru einnig að gelta spurningar og fullyrðingar út í loftið. Fundarstjóri horfði brúnaþung og tifandi yfir salinn, þar til hún stöðvaði Kristínu og bað gesti að hafa sig hæga, sleppa frammíköllum, og sýna kurteisi. „KURTEISI, ÞAÐ ER NÚ EITTHVAÐ ANNAÐ EN…“ byrjaði einn, en komst ekki lengra áður en fundarstjóri var búinn að gefa öðrum gesti orðið.
Sá var hávaxinn og virkaði töluvert yfirvegaðri en sú sem bar fram síðustu fyrirspurn. Hann kynnti sig og spurði einfaldrar spurningar: Hvers vegna eru bara karlmenn í Arnarholti? Kristín steig upp og sagði eins og er, mikill fjöldi einstæðra karlmanna hefði komið til landsins, og þeir þyrftu að vera saman á sér stað, því ekki þætti við hæfi að blanda þeim við fjölskyldur eða einstæðar konur. Einnig byði húsnæðið ekki upp á að fjölskyldur byggju þar, þar sem aðeins væri um herbergi að ræða. Margir af þessum mönnum hafa misst fjölskyldur sínar eða bíða þess að fá dvalaleyfi áður en þeim verður vonandi heimilt að koma einnig til landsins. Þetta svar fór ekki, frekar en önnur sem þessir hræddu íbúar fengu, vel ofaní fólkið. Gestir héldu áfram að gelta og grípa fram í fyrir hefðbundnum fundarstörfum á þann hátt að ómögulegt var að greina orðaskil í fordómunum sem þeir voru að reyna að koma á framfæri.
Shoot'em!
Og svona hélt þetta áfram. Kona ein, sem hélt að mestu ró sinni, talaði um hversu óþægilegt henni þætti að menn sem væru dökkir á hörund og hugsanlega múhameðstrúar væru að taka sama strætó og börnin hennar. Björn Blöndal sagði henni sem er, að þessir menn hefðu ekki gert neitt af sér og að borgin gæti að sjálfsögðu ekki tryggt að hvergi nokkurs staðar notaði óæskileg manneskja strætó. Þegar hann svo stakk upp á hugsanlegri lausn, að kannski gætu börnin tekið strætó saman í hópum og þannig slegið á ástæðulausar áhyggjur foreldra sinna, ætlaði allt um koll að keyra. Þessi saklausa uppástunga borgafulltrúans uppskar háværustu reiði- og hræðsluölduna sem fram hafði komið.
Á þessum tímapunkti hafði ég komið mér fyrir aftast í salnum og horfði á þessar sorglegu persónur ónáða opinbera starfsmenn með ótta sínum. Á aftasta bekk lengst til vinstri sat maður sem vakti athygli mína. Hann var stór og mikill, í felulitaðri úlpu og með derhúfu sem á stóð „Shoot ‘em!“ eða „Skjótum þá!“ sem er algeng upphrópun í sunnanverðum Bandaríkjunum, þegar fólk af öðrum kynþætti eða trú kemur til tals. Þessi maður, sem hefði tekið sig vel út undir stýri pallbíls í Texas, sat með krosslagðar hendur og tók þátt í öskrum og frammíköllum eins og margir aðrir gestir. Við það að sjá múnderinguna á honum, meðvitaður um það hvernig hræðsla og fordómar enda þegar allt fer á versta veg, fór um mig óþægileg tilfinning.
Rétt fyrir framan hann fékk snyrtilegur maður orðið, stóð upp og hóf langa tölu um það að hann vissi sko alveg hvað örútboðið, sem Kristín talaði um í byrjun, þýddi. Það þýddi að Útlendingastofnun væri búin að „skíta upp á bak“. Hann hefði sko tekið þátt í þúsundum útboða, og að þau tæku 2-3 mánuði og að öllum sem að málinu kæmu væri kynnt hvað væri að fara í gang, en örútboð væru ekkert nema redding. Að því loknu reiknaði hann út að ef sama fjölda hælisleitenda væri komið fyrir í 101 Reykjavík þýddi það að 1200 manns hefðu aðsetur í borginni. Einnig nefndi hann aðrar tölur sem allar áttu að sýna fram á hversu ótrúlega ósanngjarnt það væri fyrir Kjalnesinga að þurfa að horfa daglega upp á þessa útlendinga nota sjoppurnar þeirra, strætó og bókasöfn. Þar sem ræða þessa manns innihélt flestar heilar brýr af þeim gestum sem talað höfðu hlaut hann dúndrandi lófaklapp og gleðihróp frá viðstöddum.
Óttalegt rugl
Nokkur önnur undarleg atvik áttu sér stað. Einn maður stóð upp og sagði Birni Blöndal að það hefði sett að honum ugg þegar hann lagði til að börnin færu saman í strætó. Þegar Björn stóð upp og svaraði því að þetta hefði nú bara verið hugmynd, og að enginn þyrfti að taka undir hana frekar en aðrar, og að engin ástæða væri til að hræðast þessa hugmynd, trylltust gestirnir, eins og eftir pöntun.
Annar eldri maður stóð upp og baðaði út höndum þegar hann lýsti því að það hvernig Kristín orðaði komu Útlendingarstofnunar inn á „markaðinn“ hefði slegið hann. „Er þetta einhver markaðsvæðing?!“ spurði hann reiður. Kristín sagði að kannski hefði það verið óvarlega orðað, hún hefði frekar átt að nota orð eins og svið, og sagðist taka þetta til sín. Hann stóð þá aftur upp, baðaði aftur út höndum og sagði henni að hún yrði að passa það hvernig hún orðaði hlutina, því hann mætti ekki segja nokkurn andskotann og þá væri hann bara úthrópaður rasisti.
„Þetta eru engir helvítis fordómar!”
Einn af þeim síðustu á mælendaskrá var sá sem hræddi mig mest. Rauðþrútinn, lágvaxinn maður, sem hafði verið tifandi í kringum kaffið og kanilsnúðana við hlið salarins meira og minna allan tímann. Hann hafði ekki tekið þátt fram að þessu nema með svipuðu móti og aðrir, með frammíköllum og hausahristingum. Þannig var að lögreglukona steig upp í pontu og sagði að engar tilkynningar hefðu borist til hennar frá Kjalnesingum vegna íbúanna á Arnarholti. Sagði hún að ef eitthvað misjafnt kæmi upp, eins og þessar kjaftasögur um mann sem elti starfskonu leikskólans heim, þá ætti að tilkynna það til lögreglu. Þessi maður, sem var í fullum iðnaðarmannaskrúða, stóð skyndilega fremst, við endann á borðinu sem frummælendurnir stóðu við og beindi spurningu sinni til lögreglukonunnar. „Þessi náungi, þessi hérna, uppfrá, uppá Arnarholti, sem ætlaði að kveikja í sér, ha? Kom ekki tilkynning til ykkar út af honum?!“
Vísar þessi ágæti náungi þar til atviks fyrr á árinu, þegar íbúi á Arnarholti var orðinn svo úrvinda vegna lélegrar og hægrar vinnslu Útlendingastofnunar á hans málum, að hann hótaði því að kveikja í sér ef ekki færi eitthvað að þokast.
Sagði lögreglukonan eins og var, að sú ábending hefði komið frá eftirlitsmönnum á staðnum, en ekki íbúum Kjalarness. Var sá þrútni ósáttur við þessi svör. „Ekki þetta kjaftæði!“ gargaði hann, og benti reiðilega og ógnandi á lögreglukonuna. „Vertu ekki að snúa út úr! Þú veist nákvæmlega hvað ég er að tala um!“ frussaðist út úr honum á milli þess sem hann sussaði á hina gestina þegar þeir reyndu að þagga niður í honum. „Ekki vera með fordóma,“ kallaði svarthærða Monster-Energy drekkandi pían. „Þetta eru engir helvítis fordómar!“ hrópaði hann á móti. Svona gekk þetta.
Síðust á mælendaskrá var líklega elsta manneskjan í salnum. Virðuleg kona sem spurði hvort ekki væri hægt að koma á fundi þar sem íbúar í bænum fengju að kynnast hælisleitendunum, og þeirra bakgrunni, til að byggja upp traust á þeim, og koma þannig á samskiptum milli hópanna. Þessi tillaga fór greinilega vel í Kristínu og Björn, sem tóku undir hana, en fékk heldur dauft lófaklapp frá salnum.
Endastöð óttans
Þegar ritari fundarins fór upp í pontu til þess að taka saman allan tryllinginn sem hafði átt sér stað ákvað ég að láta mig hverfa. Fyrst dró ég þó andann djúpt. Mig langaði til að taka inn alla þessa hræðslu, allan þennan ástæðulausa ótta við allt það sem þú þekkir ekki. Ég gat þreifað á reiðinni. Andrúmsloftið víbraði í Fólkvangi þetta kvöld. Starfsmenn bálknsins, sem reyndu eftir fremsta megni að útskýra fyrir þessu skrítna mengi íbúa á Kjalarnesi að ótti þeirra væri ástæðulaus, höfðu ekki haft erindi sem erfiði.
Þau reyndu að segja þeim eins og er. Að enginn þessara manna hafi gert neitt af sér sem bendir til þess að þeir hefðu eitthvað misjafnt í hyggju. Lygar um að þeir hafi nauðgað börnum, séu að elta konur og taka myndir af fólki sem það ekki vilja virðast ekki eiga neina stoð í raunveruleikanum, og aðeins vera kjaftasögur eins og þær sem verða til og grassera í litlum samfélögum, til þess gerðar að ýta undir fordóma og hræðslu.
Hælisleitendurnir í Arnarholti eru 43. Á Kjalarnesi búa um 850 manns. Á fundinum sátu kannski 40 einstaklingar. Ég þekki persónulega verulega vel heppnaða einstaklinga frá Kjalarnesi og enginn þeirra er eins illa haldinn af ranghugmyndum og þeir sem tjáðu sig á þessum fundi. Mér sýnist frekar á öllu að þennan fund hafi einmitt sótt róttækustu og háværustu hræðslupúkar svæðisins.
Að sjálfsögðu mun hópur eins og sá sem saman var kominn þetta kvöld ekki sætta sig við neitt minna en að útlendingarnir verði fluttir eitthvað annað. Helst úr landi. Það er ástæðan fyrir því að þessir íbúar voru ósáttir við fundinn. Af því þeim mistókst að fá sínu framgengt með frekju, ótta og fordómum. Hvað er þá næst? Shoot ‘em?
Það er því ríkari ástæða fyrir lögreglu og yfirvöld að fylgjast með fólki eins og gestum þessa fundar á Kjalarnesi, frekar en hælisleitendunum sem þeir óttast.
Af því að rasistar á Íslandi eru orðnir mjög háværir og vilja aðgerðir. Óttahjal þeirra hefur fengið að gjalla óáreitt allt of lengi og er farið að verða háværara og hættulegra. Eins og tölur Interpol og annarra sem fást við ofbeldishópa í Evrópu sýna þá stafar álfunni miklu mun meiri hætta af rasistum heldur en flóttafólkinu sem þeir eru að vara við.
Það er því ríkari ástæða fyrir lögreglu og yfirvöld að fylgjast með fólki eins og gestum þessa fundar á Kjalarnesi, frekar en hælisleitendunum sem þeir óttast. Það er nefnilega löngu orðið tímabært að Íslendingar sem eru ósammála hræðsluáróðrinum grípi til aðgerða og láti í sér heyra. Því það eina sem þarf til þess að fordómarnir sigri er að þeir sem vita betur geri ekkert.
Athugasemdir