Fréttin af ræstitækninum sem viðskiptavinir á Stjörnutorgi mynduðu við að beita „rangri ræstiaðferð“, eins og ræstingafyrirtækið ISS orðaði það, er lýsandi fyrir vandamál í samfélagi okkar, og reyndar á Vesturlöndum öllum.
Mynd af konunni með moppu á borðinu hefur verið dreift um netið og fólk hneykslast á óþrifnaðinum á þessari helstu miðstöð veitingastaða á Íslandi. Framkvæmdastjóri Kringlunnar og þrifafyrirtækisins hörmuðu ófagleg vinnubrögð, sem fólst í því að þrífa borðfætur með sömu tusku og borðplötu, og fólk lýsti yfir viðbjóði með margvíslegum hætti.
„Hún skutlaði ajax á borðfæturnar og þreif þá og hólfið í kring með moppunni“
„ojjj bara note to self ALDREI BORÐA AFTUR á Stjörnutorgi“
„Ojjj, hvaða viðbjóður er þetta“
„Er ekki í lagi!?!?!“
Auðvitað er óæskilegt að nota sömu tusku á borð og fleti sem skór geta snert, en stóra vandamálið er ekki óþrifnaður á Íslandi.
Þvert á móti hefur verið sýnt fram á að afleiðingar ofþrifa eru vaxandi heilbrigðisvandamál. Síðustu áratugi hefur tíðni ofnæmis stóraukist á Vesturlöndum. Nýjar rannsóknir hafa bent á tengsl milli ofþrifnaðar, og ofnæmis, það er að segja ofnæmis sem orsakast af skorti á snertingu okkar við bakteríur.
Bakteríur hafa á sér slæmt orð, en þær eru lykillinn að góðri heilsu okkar. Sannleikurinn er sá að það eru tífalt fleiri bakteríufrumur í líkamanum heldur en okkar eigin frumur. Dreifing nauðsynlegra baktería byrjar strax í fæðingunni og heldur áfram þegar við drekkum brjóstamjólk frá móður. Rannsóknir hafa eindregið bent til þess að sú áhersla að láta börn drekka þróaða duftmjólk úr pela frekar en brjóstamjólk hefur kostað mörg barnslíf. Þrátt fyrir að nýfædd börn verði fyrir augljósri og stórvægilegri, en náttúrulegri, snertingu við bakteríur, tekur gjarnan í kjölfarið við gríðarleg fælni við bakteríur, mannfólk og dýr, af hálfu margra foreldar, sem er án efa réttlætanlega upp að einhverju marki, en faraldsfræðilegar rannsóknir benda til þess að vandinn sé þvert á móti of lítil snerting nútímafólks við bakteríur, heldur en óþrifnaður.
Meðfylgjandi myndband sýnir brot úr heimildarmynd BBC um tengsl ofnæmis of ofþrifnaðar.
Á síðustu áratugum hefur þrifaæði hins vegar tekið yfir. Við kaupum sterk iðnaðarefni sem við notum til að skrúbba okkur sjálf, baðkör, gólf, borð og alla fleti sem við gætum snert. Við vitum ekki hver langtímaáhrifin af sumum þessara efna eru, en vitum að sum þeirra eru skaðleg heilsu fólks. Bakteríudrepandi uppþvottalögur og sápa eru dæmi um efni sem við kaupum í ofþrifnaðaræði sem ógnar heilsu okkar.
Þetta er hluti af firringu okkar frá náttúrunni og okkar eigin uppruna. Við erum nefnilega líka bakteríur. Þegar við reynum að nálgast fullkomnun með því að uppræta allt náttúrulegt og lifandi í kringum okkur erum við að skaða okkur sjálf. Til dæmis bendir margt til þess að umgengni við dýr geri börn ólíklegri til að fá asma og að ofþrifnaður auki líkurnar á astma. Meðal annars er verið að rannsaka hvort of mikið hreinlæti valdi sykursýki.
Fleiri og fleiri vísbendingar eru að koma fram um að hið raunverulega ógeð sé ofþrifnaðurinn.
Konan sem var gripin við ranga notkun á borðtusku er nú hætt störfum, að því er segir af fúsum og frjálsum vilja.
Kannski er ástæða til að íhuga velmegunarvandann sem felst í því þegar viðskiptavinir verslunarmiðstöðvar taka myndir af ræstitæknum til að nappa þá við mistök í vinnunni við að þrífa eftir myndatökufólkið - með 270 þúsund krónur í laun á mánuði að meðtöldu 20 prósent álagi.
Athugasemdir