Þær höfðu lofað að fara ekki í fleiri búðir. Mér reiknaðist til að alls hefðum við lagt að baki um 200 verslanir.
Við gengum um gömlu borgina í Prag. Ég teygaði í mig menninguna á milli regnskúra. En það er með konur og skemmtilegar búðir eins og alkóhólista og bari. Hóparnir eiga erfitt með að standast mátið. Skyndilega opnaðist undraheimur við hlið okkar. Bardúskur og tékkneskur kristall voru með slíkt segulafl að konurnar stóðust ekki lengur mátið. Á einni svipstundu soguðust þær inn í búðina. Eiginkonan hikaði örlítið á þröskuldinum, leit um öxl, en steypti sér síðan inn í búðina. Ég stóð eftir.
Rigningin var sem betur fór lóðrétt og ponsjóinn minn með árituninni I love Prag, tryggði að ég hélst þurr. Ég stóð á miðju strætinu. Tímaskynið hvarf. Ég var dropi í mannhafinu. Skyndilega hrökk ég upp. Það hlaut að vera hálftími síðan verslunin gleypti mæðgurnar. Mér fannst ég heyra nafnið mitt kallað í fjarska. Það þekkti mig enginn í Prag nema mæðgurnar. Ég missti aftur hefðbundna skynjun. Skyndilega var bankað í öxlina á mér. „Ætlarðu ekki að koma?“ spurði dóttirin óþolinmóð. Þær sögðust einungis hafa verið í búðinni í tvær mínútur. Þær höfðu leitað mín.
Við héldum áfram. Konan spurði vinalega hvort ég hefði ekki ætlað að kaupa úr sem mældi hjartslátt, kalóríur og vegalengd í samráði við iPhone-7 símann sem mér hafði áskotnast. Mér hlýnaði um hjartarætur við umhyggjuna. Konurnar tvær þverbeygðu. Ég dinglaði á eftir þeim. Fyrr en varði vorum við komin inn í moll og að verslun sem kennd var við Apple. Augu mín urðu eins og undirskálar. Mæðgurnar sögðust þurfa að skreppa.
Ég hafði verið plataður. En það gerði svo sem ekkert til. Ég sökkti mér ofan í allar þessar dásemdir tækninnar sem Steve Jobs hafði lagt grunninn að. Tveimur tímum síðar birtust mæðgurnar. Þá var ég enn að skoða úr sem mælir hjartslátt.
Athugasemdir