Ég get ekki neitað því að ég skellihló þegar ég sá fyrirsögnina „Losti og kynlífsleikir á Akureyri“ á DV.is fyrir skömmu. Hefði þó ekki hlegið ef ungu, læsu börnin á heimilinu hefðu komist í blaðið. En ég hló vegna þess að fyrirsögnin rammaði inn hugsun um aðgreiningu milli okkar og hinna, „The Othering“ eins og þetta er kallað í heimi félags- og mannvísinda. Á Íslandi erum „við“ að jafnaði þau sem búa á höfuðborgarsvæðinu, enda langflestir þar og meirihlutinn ræður. „Hinir“ búa utan höfuðborgarsvæðis. Svo má skipta þessari flokkunaráráttu upp í enn fleiri aðgreiningar eftir stærri og minni stöðum.
Í landi einsleitninnar vaða staðalímyndir uppi sem byggja á ímynduðum samanburði. Vísindaleg vinnubrögð eru auðvitað uppfull af samanburði og flokkunum, þar er búsetubreytan mikilvæg. En það hefur kannski ekki verið í nafni vísindanna sem DV sló upp fyrirsögninni „Losti og kynlífsleikir á Akureyri“. Hvað kom Akureyri þessari hátíð holdsins við?
Fyrirsögnin minnti mig á þegar dagblaðið Dagur á Akureyri sló upp fyrirsögninni „Negri í Þistilfirði“ á áttunda áratug síðustu aldar. Þá hafði verið skrifuð frétt um vinnumann sem hafði vetursetu á fjárbúi á Gunnarsstöðum. Þetta þótti engin smáfrétt. Orðalagið sérstaklega notað til að lítillækka fólk af öðrum kynþætti og skipa í annan hóp. Á þessum tíma var sannarlega talið að um aðkomumann væri að ræða.
Um þá fyrirsögn og frétt er enn rætt í dag sem mikið slys, hún er kölluð víti til varnaðar í kennslu í blaðamennsku og fjölmiðlafræðum. En hún er líka heimild; sögulegur minnisvarði um hugarheim sem margir töldu úr sögunni. Enn eru þó blaðamenn að skrifa um negra í Þistilfirði – bara í nýrri útgáfu. Nú kallar aðgreiningarhugsunin á Losta og kynlífsleiki á Akureyri og eins gott að láta upphrópunarmerki fylgja!
Ágætis markmið morgundagsins væri fjölbreytileiki í stað fordóma.
Athugasemdir