Maðurinn er félagsvera sem unir sér best í vinsamlegu samneyti við aðrar manneskjur. Flest allir vilja lifa í sátt við nánasta umhverfi sitt. Útskúfun úr mannlegu samfélagi er einhver harðasta refsing sem hægt er að beita. Þetta fékk Grettir Ásmundsson að sannreyna forðum. Hann var allra manna lengst í útlegð á Íslandi og hraktist landshluta á milli einn og myrkfælinn. Líf hans var ömurlegt líkt og annarra útlaga á borð við Skugga-Svein eða Gísla Súrsson.
Í fangelsum er ennþá refsað fyrir hvers kyns brot með því að svipta menn umgengni við aðra fanga. Endalaus einvera er erfiðasta ástand sem margir geta ímyndað sér.
Útilokun frá mannlegum félagsskap hefur gríðarlegar afleiðingar í för með sér. Einelti eða „mobbing“ er tilraun ákveðinna einstaklinga eða hóps til að einangra aðra manneskju og útiloka. Allir sem unnið hafa með sjálfsvíg og sjálfsvígstilraunir vita hversu stórt hlutverk eineltið leikur í þunglyndi þeirra sem reyna að svipta sig lífi. Margir rísa ekki undir þeirri vanlíðan sem skipulagt einelti hóps hefur í för með sér. Einelti lýsir sér venjulega í því að ákveðinn flokkur tekur einn fyrir og gerir honum lífið leitt á alla lund. Hann er niðurlægður, honum er strítt og hann fær á tilfinninguna að hann sé einskis virði og skipti engu máli. Einelti getur líka falist í því að einhver ein manneskja, yfirmaður eða vinnufélagi ofsækir félaga sinn og niðurlægir hann í sífellu í krafti aðstöðu sinnar. Einelti í skólum getur haft skelfilegar afleiðingar og breytt sjálfsmynd þolandans til frambúðar. Allir sem vinna við heilbrigðismál bera mikla virðingu fyrir einelti og afleiðingum þess.
„Hann er niðurlægður, honum er strítt og hann fær á tilfinninguna að hann sé einskis virði og skipti engu máli.“
Á síðustu tímum hefur merking orðins verið að breytast. Venjulegar deilur manna á milli á vinnstað eða í skóla eru kallaðar einelti. Yfirmaður sem setur út á störf undirmanns síns er umsvifalaust sakaður um einelti. Þingmenn saka andstæðinga sína, sem eðli málsins samkvæmt eru þeim ekki sammála, um einelti úr ræðustól þingsins. Bráðum fara eiginkonur og eiginmenn að saka maka sína um einelti í hjónabandsdeilum og rifrildum. Börn munu sennilega fara að segja foreldrana leggja þau í einelti þegar reynt er að vanda um við þau. Smám saman hefur orðið algjörlega glatað merkingu sinni og þýðir eiginlega ekki neitt.
Gott dæmi um þetta eru nýlegar deilur tveggja frægra hljómlistarmanna í fjölmiðlum. Ung og glæsileg söngkona sakar þekktan söngvara um að leggja sig í einelti á vinnustað þeirra beggja, sjónvarpinu. Sakirnar eru kjánalegar athugasemdir í hita leiksins og súkkulaðimolakast. Skemmtikraftarnir hafa fengið mikla athygli út á þessar ásakanir. Hann hefur margbeðist afsökunar sem hún vill ekki taka mark á. Spurningin er hvort hún sé farin að leggja söngvarann í einelti með því að saka hann ítrekað um einelti.
Þetta er misnotkun á eineltishugtakinu. Hér er um að ræða árekstra tveggja vinnufélaga í streitu fjölmiðlaheimsins. Mannleg samskipti einkennast alltaf af einhverjum núningi, stríðni og kerskni og aulafyndni. Enginn er svo heilagur og lúsarlaus að hann sé ekki stundum klaufalegur í samskiptum sínum við aðra. En það er sjaldnast einelti. Mér finnst vafasamt að söngkonan unga taki svo mikið mark á söngvaranum að hún láti þessi orð hans og súkkulaðikast draga úr sér allan kraft, svipta sig sjálfstrausti og eyðileggja fyrir sér lit dagana eins og gerist í raunverulegu einelti.
Þessar eilífu ásakanir um einelti eru hluti af fórnarlambsvæðingu samtímans. Fólk fær ómælda samúð út á þessar staðhæfingar og eflaust ágæta auglýsingu. Er það bara ekki allt í lagi? Nei, vegna þess að það er yfirgengileg lítilsvirðing við raunveruleg fórnarlömb eineltis sem eiga rétt á að orðið fái að halda gildi sínu en sé ekki gert að lúxusleikfangi í orðaleikjum og auglýsingamennsku í píslarvættisvæðingu samtímans.
Athugasemdir