Nýlega birtist í fjölmiðlum skoðanakönnun sem Siðmennt lét gera. Margt áhugavert kemur fram um afstöðu þjóðarinnar til andlegra málefna, trúar og sköpunarsögunnar. Auk þess var spurt um skoðun fólks á líknandi dauða. Í ljós kom að þrír fjórðu hlutar þjóðarinnar voru samþykkir líknardrápi. Sjúklingar með ákveðna ólæknandi sjúkdóma geti beðið heilbrigðiskerfið að svipta sig lífinu að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.
Frá aldamótum hefur hollenskum læknum verið leyfilegt að verða við óskum sjúklinga sinna um að stytta þeim aldur. Læknirinn verður að vera sannfærður um að beiðni sjúklings sé sjálfviljug og vel ígrunduð. Þjáningar sjúklings verða að vera viðvarandi og óbærilegar. Sjúklingur verður að vera upplýstur um ástand sitt og horfur og fleiri læknar verða að koma að ákvörðuninni.
Fáar aðrar þjóðir (Belgía, Sviss og Lúxemborg) hafa tekið upp þessi hollensku lög enda eru flestir læknar þeim mótfallnir. Þeir telja að rangt sé að drepa og það geti aldrei verið siðferðislega réttmætt að fara þess á leit við manneskju að hún drepi aðra manneskju. Hætta á misnotkun slíkra laga er alltaf fyrir hendi og menn fari að líta á líknardráp sem leið til að losna við erfiða ættingja.
Þessi almenni stuðningur við líknandi dauða á Íslandi hefur komið mörgum á óvart. Lítil sem engin opinber umræða hefur farið fram í landinu um þetta mál. Meðal ungs fólks er stuðningurinn mjög almennur. Meginreglan er sú að fólk er þeim mun hlynntara líknardrápi sem það sjálft er fjarlægara dauðanum. Afstaða fólks breytist til muna eftir því sem skemmra er ólifað. Með öðrum orðum þeim mun nær sem einstaklingurinn er dauðanum þeim mun fleiri daga vill hann eiga. Eftir því sem lífið styttist verður það dýrmætara.
Þessi stuðningur við líknardráp er tímanna tákn. Fólk trúir ekki lengur á eigin forgengileika eða dauðleika. Lífið á að vera áreynslulaust, fyrirsjáanlegt og án þjáningar. Fólk vill losna við erfiðleika, þjáningu og sorg. Nútímamaðurinn vill einfalda tilveru sína og gleyma fjölbreytileika lífsins og óhjákvæmilegum endalokum. Það er einfaldast að losna við og drepa þá sem trufla fyrirmyndarsamfélagið með því að veikjast.
Þessi afgerandi afstaða þjóðarinnar gagnvart líknandi dauða sýnir vel hversu ómanneskjulegt samfélagið er að verða í sjálfhverfu sinni.
Það er áhugavert í þessari umræðu að læknar sem vinna með deyjandi sjúklingum fá mjög sjaldan beiðni um líknandi dauða. Ég vann sjálfur um nokkurra mánaða skeið á líknardeild með fólki á lokastigum lífsins. Enginn bað mig um að hjálp til að stytta sér aldur til að losna við þjáningar og erfiðleika. Á hinn bóginn var mikil þörf á að ræða málin og gera viðeigandi ráðstafanir. Líknandi meðferð sem veitt er hérlendis gefur fólki tækifæri til að ljá síðustu dögum lífsins tilgang og innihald.
Athugasemdir