Ég fékk 10 í samræmdu prófunum í stærðfræði. Þarna voru samræmd próf aðeins tekin í lok 10. bekkjar og sett upp eins og lokaúrskurður um hvort þú kæmir til með að eiga séns í lífinu. Allir sem fengu undir 7 myndu ströggla við framhaldsnám og þeir sem féllu ættu eiginlega enga framtíð, í það minnsta ekki greiða leið að menntun. Mér gekk vel í öllu námi en uppgötvaði snemma, þó aðeins of seint, að ég hafði engan sérstakan áhuga á að nýta bókskilninginn til að læra eitthvað nytsamlegt. Nú nota ég orðið „nytsamlegt“ mjög fjálglega. Ég vissi sum sé frá upphafi að ég myndi græða fé ef ég yrði hagviðskiptaalþjóðafræðingur eða tannholdstauganetslæknir. Listamenn fá ekki neitt og einkum og sér í lagi ekki þeir sem læra ekki neitt. Og ég er ekki einu sinni stúdent.
Nú halda sjálfsagt margir að ég ætli að tala um listamannalaun. Rangt. Ég hef aldrei fengið þannig og aldrei sóst eftir þeim. Jú, bíddu, kannski sendi ég einu sinni inn umsókn ...? Man það ekki, enda skiptir það ekki máli. Aðrir halda að ég ætli að tala illa um skólakerfið. Alls ekki. Enda þótt ég hafi aðeins lent á skjön og flosnað upp úr því litla námi sem ég tókst á við var það á mína eigin ábyrgð. Ég hefði greiðlega getað menntað mig. Mig bara langaði það ekki því ég vildi verða rokkstjarna. Og hei, það tókst. Ég er ekki heimsfrægur enda stóð það aldrei til. Ég er heldur ekki ríkur enda hugsaði ég aldrei út í þá sálma. Ég nota ekki eiturlyf og sef ekki hjá 2 manneskjum á dag (sjaldan allavega). En ég er í hljómsveit sem túrar heiminn og spilar fyrir alls konar fólk. Það er að vera rokkstjarna. Og ég er nákvæmlega rokkstjarnan sem ég vil vera því mig langar líka að vera heima hjá mér. Eftir að ég hóf svo störf hjá PIPAR\TBWA fyrir nokkrum árum er líf mitt fullkomið. Ég er ekki á forstjóralaunum enda er ég ekki forstjóri. Ég er hins vegar á mjög svo mannsæmandi kaupi sem ég er þakklátur fyrir. En ekkert af þessu er inntak pistilsins. Nei, þessi skrif eru sjónarmið manns sem er góður í stærðfræði en notaði hana ekki til þess að næla sér í tveggja milljóna laun á mánuði.
Hér kemur þetta: Ég var að kaupa mér íbúð. Síðustu árin hef ég búið í leiguhúsnæði sem ég hef fengið á ansi góðum kjörum. Það er auðvitað lygi því enda þótt ég hafi verið í þeim aðstæðum að borga talsvert undir gangverði leigu var hún samt fáránlega há miðað við hvað lífið á að kosta til þess að það gangi upp. Svo eignaðist ég barn og fljótlega var íbúðin orðin of lítil. Og þá horfði ég í kringum mig eftir nýju verelsi með augum mannsins sem ekkert veit. Að leigja húsnæði á höfuðborgarsvæðinu er sem sagt ógerningur. Ég væri til í að borga þetta verð ef ég væri að leigja mér geimflaug, en að einhver skuli segja já við þessari kúgun fyrir morknar kjallaraíbúðir er brot á hvaða sjálfsvirðingu sem er. Við skimuðum aðeins í kringum okkur en gripum í tómt. Þetta er rugl og það veit ég því ég fékk 10 í samræmdu í stærðfræði.
„Ég væri til í að borga þetta verð ef ég væri að leigja mér geimflaug, en að einhver skuli segja já við þessari kúgun fyrir morknar kjallaraíbúðir er brot á hvaða sjálfsvirðingu sem er.“
Höldum því til haga að ég hef engan áhuga á svona hlutum. Ég þarf ekkert að eiga íbúð og mér finnst svona ekkert skemmtilegt. Mér finnst þetta meira að segja alveg ógeðslega leiðinlegt. En þú veist, maður er fullorðinn og lætur sig þá hafa þetta. Áhugaleysi mitt gerði það samt að verkum að mér fannst mjög undarlegt þegar fólkið í kringum mig hóf að tala um íbúðarkaup. Ég á engan pening og skulda meira að segja smá eftir þunglyndi og óreglu unglingsáranna. Engin ósköp, en fljótt á litið hélt ég að maður þyrfti að borga fyrir það sem maður kaupir. Jæja, jæja. Ég er ekki amamba, ég veit að það er eitthvað til sem heitir húsnæðislán. Flott, tökum þannig.
Ég ætla ekki að rekja allan ferilinn á þessu máli eða upphæðir en þegar lagt var af stað í greiðslumat var ástandið ekkert afleitt að mér fannst. Okkur var reyndar ráðlagt að skrá okkur úr sambúð og láta meta greiðslugetu annars okkar sem einstæðs foreldris. Alls konar annað fiff á borð við feikaðar launagreiðslur og ég veit ekki hvað og hvað var einnig rætt. Mér datt ekki í hug að beygja mig undir svoleiðis, bæði vegna þess að svona er ólöglegt og ósiðlegt (er það ekki annars?) og svo kannski vegna þess að ég trúði ekki öðru en að við Agnes myndum fljúga gegnum svona mat eftir heiðarlegu leiðinni. Það reyndist ekki vera.
Eftir fleiri daga af alls konar pappírsvinnu og hagræðingum endaði það svo að við þóttum hæf til láns sem rétt slefar fyrir íbúðinni. Við erum ekkert á lágum launum sko. Agnes var reyndar í skóla þar til fyrir stuttu og fleiri aðstæður kannski óhagstæðar. En í þessum aðstæðum vorum við trítuð eins og fátæklingar. Þegar allt hefur svo loksins verið samþykkt kemur í ljós að það kostar mig miklu minna að þykjast eiga íbúð sem ég skulda tugi milljóna í heldur en að skulda ekkert og leigja. Hvernig í heitasta helvíti getur verið að það sé ódýrara að skulda en ekki? Og af hverju í mannaskítnum flaug ég þá ekki í gegnum þetta ógeðslega greiðslumat?
Þetta er stærðfræði sem gengur ekki upp. Trúið mér, ég fékk 10 í samræmdu prófunum í stærðfræði.
Athugasemdir