Útsendingu á viðtalinu við fangana á Kvíabryggju var ekki fyrr lokið en frétt birtist á Vefpressumiðlinum Eyjunni þar sem vitnað var af fullri alvöru í orð þeirra. Ég varð ekki vör við að neinn Vefpressu- eða 365-miðill birti neins konar gagnrýni á viðtalið sem þó var verulega gagnrýnivert.
Þetta skemmtilega Sandkorn birtist í Vefpressu-DV í dag og er beint gegn gagnrýni minni. Í þessum stutta texta eru nokkrar tilraunir til að gera lítið úr ýmsu:
1. Ég er kölluð copy/paste drottning. Það á væntanlega að merkja það, að ég skrifi eða birti aldrei neitt frá eigin brjósti, heldur bergmáli og afriti allt frá öðrum. Sennilega er þar átt við tilvitnanir mínar í hæstaréttardóminn yfir föngunum. Drottningartitillinn þýðir að ég sé fremst meðal jafningja í allri afritun á orðum annarra.
2. Reynt er að gera lítið úr Evu Joly, sem var ráðgjafi Sérstaks saksóknara í upphafi rannsókna á efnahagsglæpum fyrirhrunsáranna. Ég klippti nefnilega og póstaði viðtölum við hana um einmitt það sem fangaviðtalið sýndi og hrós hennar um Al Thani dóminn.
3. Ríkisútvarpið fær þarna sína hefðbundnu pillu frá Vefpressunni. Ekkert óvænt þar.
4. Að lokum er Stundin hædd fyrir að birta pistilinn minn og reynt er að spyrða bæði miðilinn og mig við Vinstri græna þótt hvorki ég né Stundin tengist þeim á nokkurn hátt. Gagnrýni á orð Kvíabryggjufanga og spurningar fréttamannsins er semsagt vinstri græn afstaða, ekkert annað.
Hér gleymist reyndar að nefna að Hringbraut fjallaði líka um pistilinn, en líklega þora Vefpressumenn ekki að væna þann miðil um að vera vinstri grænn.
Það er ansi heppilegt að þeir 1.866 sem lækuðu pistilinn minn og hinir 380 sem deildu honum vissu ekki að þeir væru að læka meinta vinstri græna afstöðu en ekki einlæga gagnrýni á fáránlegt viðtal. Líkast til á það sama við þá 472 sem lækuðu myndina af Ólafi Ólafssyni og Finni Ingólfssyni með tilvitnun (copy/paste) í orð Ólafs í viðtalinu um klíkuskap og pólitík.
Herferðin sem hafin er til að gera lítið úr dómum yfir auðmönnum og útrásarpésum sem settu íslenskt samfélag á hliðina - og hefja þá aftur til vegs og virðingar - er alveg ótrúlega lítilmótleg og lágkúruleg. Til að bíta höfuðið af skömminni er Fréttablaðið með forsíðuviðtal í dag við fyrrverandi hæstaréttardómarann Jón Steinar Gunnlaugsson, sem hefur gagnrýnt sinn fyrrverandi vinnustað harðlega frá því hann hætti þar störfum.
Látum ekki blekkjast, gott fólk. Látum ekki illa innrætta fjölmiðlamenn, eða yfirmenn þeirra sem stjórna miðlunum og/eða eiga þá, hafa áhrif á réttlætiskennd okkar og láta okkur gleyma misgjörðum gegn íslensku samfélagi.
Ég vil taka það fram, til að fyrirbyggja misskilning, að mér sárnar ekki þessi pilla frá Vefpressu-DV. Mér finnst hún bráðskemmtilegt dæmi um það hugarfar sem ríkir á miðlum Vefpressunnar og sanna tilgang óvandaðra manna sem leggja undir sig fjölmiðla í óheiðarlegum tilgangi.
Athugasemdir